Hjólastólahandbolti

Þessi fréttatilkynning frá HK er stórmerkileg. Með þessu hefur HK formlega tekið upp hjólastólahandbolta á íþróttaskrá sína. Hér er um tímamótaviðburð að ræða. Til þessa hafa íþróttir fatlaðra verið rækilega afmarkaðar í sérstökum íþróttafélögum fatlaðs fólks. Mér sýnist að HK verði því fyrsta hefðbundna íþróttafélagið til að taka þessar greinar inn til sín á jafnréttisgrundvelli.

Ég sem Framari verð pínkulítið öfundsjúkur við lestur fréttarinnar. Nú er ljóst að hjólastólahandboltalið HK verður að hafa einhverja andstæðinga, ef vel á að vera. Væri ekki rakið að það yrðu Framarar? (Reyndar er ég ekki viss um að íþróttahúsið í Safamýrinni sé fyllilega aðgengilegt fyrir stóra hópa fólks í hjólastólum – en nýja íþróttahúsið í Úlfarsárdalnum mætti amk hanna með þetta í huga frá upphafi…)

Join the Conversation

4 Comments

 1. Það er verið að hanna. Húsið hlýtur að koma innan skamms – enda fráleitt að hafa 7000 manna byggð án grunn íþróttaþjónustu eins og nú er.

 2. Mér fannst að ég hefði séð eitthvað um starf fatlaðra innan almennra íþróttafélaga og staðfesti að Bocciadeild Völsungs á Húsavík er aðili að Íþróttasambandi fatlaðra. Þá var dálítið gert úr því í fyrra að KR bauð upp á sérstakar knattspyrnuæfingar fyrir fatlaða, en ætli það sé ekki það sem höfundur pistilsins á síðu HK kallar „upp á náð og miskunn“.

  Mér finnst þessi pistill hjá HK-mönnum reyndar heldur hrokafullur í garð þeirra fjölmörgu íþróttafélaga fatlaðra sem eru starfandi um allt land. Kannski er það vegna þess að á höfuðborgarsvæðinu eru íþróttafélögum afhent íþróttamannvirki og þannig verða íþróttahúsin „þeirra“. Hér eystra er það nú bara þannig að öll íþróttafélög á svæðinu geta sótt til sveitarfélagsins um afnot af íþróttamannvirkjum og það gera íþróttafélög fatlaðra bara á eigin forsendum. Sömuleiðis eru þau alveg fullgildir aðilar að héraðssambandinu, UÍA. Ég sé því enga sérstaka ástæðu til að kalla þetta merkileg tímamót þó að þetta sé skemmtilegt og gott framtak.

 3. Ég verð að vera samálla pistlahöfundi að okkar menn í hjólastólahandknattleiksdeild HK þurfa sannanlega á samkeppni að halda og ég myndi fagna manna mest ef Frammarar tækju sig til! 🙂 Ég veit að ráðið er klárt í að aðstoða alla þá sem þurfa á aðstoð að halda við stofnun sambærilegs ráðs! Takk fyrir góð orð!

  Hins vegar verð ég, sem höfundur tilkynningarinnar frá HK að beina orðum mínum aðeins að Stefáni Boga. Ég kannast ekki við að hroki sé innbyggður í yfirlýsinguna frá HK þar sem ég ræði einungis um að í fyrsta skipti á Íslandi hafi verið stofnað íþróttaráð innan almenns félags af fötluðum einstaklingum. Það sem er merkilegt, þar sem þú virðist ekki koma auga á. Það er að í fyrsta skipti eru „íþróttir án aðgreiningar“ staðreynd. Mér hefur aldrei flogið í hug að hallmæla íþróttafélögum fatlaðra á einn eða annan hátt og því góða starfi sem þar er unnið.

  Þú ert því miður ennþá í „við og þau“ hugsunarhætti.

  Stofnendur hjólastólaráðs handknattleiksdeildar HK og verðandi iðkendur hafa sömu réttindi og skyldur innan HK og aðrir, þeir eru einfaldlega íþróttamenn sem spila handbolta í hjólastól en þurfa ekki að skilgreina sig sem fatlaða til að gera það!

  Þar með er þessi stofnun hjólastólahandknattleiksráðs HK einn merkilegasti atburður í íþróttasögunni, það stend ég fullkomlega við án þess að á neinn sé hallað.

  Ég skil hvað þú átt við með að íþróttahúsin verði „félagsins“ en það er nú bara rekstur húsa, samþætting með skólum og öðrum félögum er mjög vel sinnt og það er rekstrarfyrirkomulag sem virkar í fjölmenninu. Við sækjum alltaf um tíma til sveitafélagsins alveg eins og þið virðist gera.

  Með bestu kveðju
  Trausti Jónsson
  formaður barna- og unglingaráðs
  Handknattleiksdeildar HK

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *