Bath tapar… (b)

Í kvöld fylgdist ég með Twitter-uppfærslum stuðningsmanna Bath City af leik þeirra gegn Swindon Supermarines í forkeppni bikarsins. Ég var nær örugglega eini Íslendingurinn sem varði kvöldinu í þetta.

Bath tapaði, 3:4 á heimavelli gegn liði sem er einhverjum tveimur deildum fyrir neðan þá. Þessum úrslitum fagnaði ég mjög – af fullkomlega eigingjörnum ástæðum.

Þannig er mál með vexti að fyrstu helgina eftir áramót á ég flugmiða til Englands. Einn megintilgangur fararinnar er hópferð (jújú, fjórir er hópur) á leik með Luton. Þessa helgi á Luton einmitt að spila á útivelli gegn Bath.

Það flækir málið hins vegar að sömu helgi verður þriðja umferð bikarkeppninnar leikin. Komist Luton þangað, verður væntanlega reynt að sveigja ferðaáætlunina að staðsetningu bikarleiksins (með fyrirvara um að ekki verðið leikið uppvið skosku landamærin). Sá martraðarkenndi en fjarstæðukenndi möguleiki var hins vegar fyrir hendi að Luton félli úr keppni í næstu eða þarnæstu umferð, en Bath kæmist í 3ju umferðina. Þá hefðum við verið aulalegustu strandaglóparnir í Englandi með ekkert annað fyrir stafni en að ráfa milli H&M-búða milli þess tékkað væri á ale-úrvalinu.

En nú er sú hætta fyrir bí. Mestar líkur eru á að hið fríða föruneyti heimsæki menningarborgina Bath, en ef Luton vinnur Corby um aðra helgi og verður heppið með drátt í annarri umferð gæti bikarleikur orðið fyrir valinu.

# # # # # # # # # # # # #

Já, meðan ég man. Orkuveitan lokaði sjoppunni hjá mér. Tek við atvinnutilboðum ef einhver lumar á sniðugum uppástungum.