Þegar langafi drap trúarbragðasöguna

(Þetta er efnislega endursögð nokkurra ára gömul bloggfærsla í ljósi umræðna síðustu daga.)

Stóra umræðuefni vikunnar í þjóðfélaginu eru samskipti kirkjunnar og skólanna – hvað sé boðun og hvað sé fræðsla. Þetta er raunar frábært hlé frá öllu vaxta- og afskriftaþvarginu. Málið er mér skylt. Langafi drap nefnilega á sínum tíma kennslu í trúarbragðasögu á Íslandi.

Langafi, Steinþór Guðmundsson, var kristilegur félagi í Ungmennafélagshreyfingunni sem varð kommúnisti með tímanum. Hann átti sér ungur þann draum að verða stærðfræðingur eða fara út í verkfræði – en veiktist illa og þurfti því að rumpa af guðfræðinni í hvelli til að fá kennsluréttindi. Það gerði hann með vinstri hendi á tveimur árum og varð efstur í árgangnu.

Afi, Haraldur Steinþórsson, var á sömu slóðum og pabbi sinn í pólitík en ekki í trúmálum. Reyndar fermdust hvorugur afa minna. Annar af því að hann var orðinn kommúnisti um fermingu – hinn af því að hann var lágvaxinn og óttaðist að verða fermdur í matrósafötunum (segir brandarinn í fjölskyldunni amk).

Þegar Haraldur afi var í MR, var trúarbragðasaga á námsskránni. Hún var kennd á einu misseri og var kennsluefnið sænsk bók sem rakti grunnatriðin í heimsmynd og kennisetningum allra helstu trúarbragða heims. Menntskælingarnir voru hins vegar ekki vanir að lesa á sænsku og börmuðu sér óskaplega yfir kverinu.

Langafi heyrði kveinstafina í afa og fékk bókina lánaða. Hann gekk svo í að snara textanum yfir á íslensku, vélritaði upp og gaf svo út í ódýru broti fyrir eigin reikning. Þar með voru örlög námsgreinarinnar ráðin. Tyrfna sænska bókin sem áður hafði dugað í heilt misseri var nú svo fljótlesin að hver sem var gat klárað hana á svipstundu. Fyrir vikið var trúarbragðasagan tekin af námsskránni og kennslustundirnar notaðar í eitthvað annað.

Ég leyfi mér að fullyrða að kennsla um önnur trúarbrögð hafi upp frá þessu ekki verið skyldunámsgrein í íslenskum framhaldsskólum og þar er við langafa að sakast.