Nú hafa fulltrúar í meirihlutanum í borgarstjórn stungið upp á að settur verði skjöldur á styttuna af Ingólfi Arnarsyni, þar sem getið verði um eiginkonu landnámsmannsins. Hér er rétt að vara borgarfulltrúana strax við – þeir eru komnir út á jarðsprengjusvæði…
Eins og fram kemur í æviminningum Knúts Zimsens, Við fjörð og vík, var Ingólfs-styttumálið eitt það allra erfiðasta á öllum hans langa pólitíska ferli. Frá því að Iðnaðarmannafélagið ákvað að láta útbúa líkneskju af landnámsmanninum og uns hægt var að afhjúpa hana liðu mörg ár, mikið var rifist og mikið skammast.
Eitt það áhugaverðasta við söguna af Ingólfsstyttunni, er hvernig nefnd Iðnaðarmannafélagsins tók fram fyrir hendur listamannsins – ekki hvað síst til að hafa áhrif á túlkun myndhöggvarans Einars á sögu og persónu Ingólfs.
Listamaðurinn vildi setja lágmyndir tengdar norrænni goðafræði á stöpul verksins. Það þótti trúmönnunum í nefndinni ekki nógu gott. Þá vildi listamaðurinn rita einkunnarorðin Sjálfur leið þú sjálfan þig, framan á stallinn. Því höfnuðu verkkauparnir með þeim rökum að Ingólfur hefði ekki verið slíkur einstaklingshyggjumaður, heldur þvert á móti trúmaður mikill (þótt heiðinn væri).
Eftir á að hyggja var það miður að styttan af Ingólfi fékk ekki að vera eins og listamaðurinn vildi. Stjórnmálamennirnir áttu ekkert með að taka fram fyrir hendurnar á myndlistarmanninum þegar kom að túlkun og boðskap verksins.
Í ljósi þessarar forsögu, finnst mér að borgaryfirvöld í Reykjavík gerðu betur í að leiðrétta mistökin frá því í byrjun 20. aldar og sýna hvernig listamaðurinn hugsaði sér verkið, frekar en að feta í fótspor Knúts með því að fela stjórnmálamönnunum að túlka listina.