Á miðnætti rennur út frestur til að gera athugasemdir við drög að frumvarpi að nýjum upplýsingalögum. Lítið hefur verið fjallað um þetta frumvarp – sem skýrist kannski af því hversu flókið og ruglingslegt það er. Textann má lesa hér.
Fjórtánda greinin fær allar viðvörunarbjöllur til að hringja í kollinum á mér. Þar er með mjög skýrum hætti tekið fram að ekki þurfi að veita mönnum aðgang að upplýsingum sem safnað hefur verið um þá á grunni mjög almennt skilgreindra öryggishagsmuna. Við þurfum ekki annað en að hugsa um þetta klausa í samhengi við símhleranamálið fyrir fáeinum misserum.
Ætti löggjöf okkar árið 2010 ekki frekar að reyna að styrkja stöðu þeirra sem njósnað hefur verið um heldur en að baktryggja njósnarana?
Annað mál – sem varðar frekar sagnfræðinginn í mér en pólitíska róttæklinginn – er hvaða vit sé í því að fela þjóðskjalaverði geðþóttavald til að banna aðgengi að tilteknum skjölum í 110 ár! Það er fáránlega langur tími. Í dag er almennt miðað við 80 ár í íslenskum lögum. Er í raun þörf á að framlengja það um 30 ár – og hvers vegna á þessi tiltekni embættismaður að fá slík völd?
Hvet alla til að rýna í þessi lög og senda umsögn eftir því sem þurfa þykir.