Þotumálið

Það er furðulegt að fylgjast með fréttaflutningnum af herþotunum sem huldufyrirtækið ECA lætur sig dreyma um að eignast og koma með hingað til lands. Fréttir hafa verið soðnar upp úr viðtölum við forsvarsmann fyrirtækisins, hálfskringilegri tilkynningu á vef samgönguráðuneytisins og furðuvarfærnislegum viðtölum við ráðherra.

Í þessum fréttum er oft vísað til umsagnar flugmálastjóra í málinu og ýmsar útleggingar út frá því. En það er ekki að sjá að nokur maður hafi haft fyrir því að lesa sjálfa umsögnina – sem er þó ekkert leyniskjal.

Hér má lesa plaggið – og þótt orðalagið beri með sér að það sé samið af embættismanni, þá er í raun talað mjög skýrt: hugmyndin er í raun kurteislega en ákveðið skotin í kaf. Hvernig hægt hefur verið að túlka þessa umsögn sem sérstakan sigur fyrir ECA skil ég ekki. Lesið sjálf og dæmið.