Ætli 12 ára fótboltanördar í dag eigi uppáhaldslið í skoska boltanum? Líklega ekki. Drottnunarstaða ensku úrvalsdeildarinnar og hnignun skoska fótboltans á liðnum árum hefur líklega gert það að verkum að fáir fótboltastrákar (og einstaka stelpa) eyða orkunni í að velta fyrir sér hvað gerist norðan Hadríanusarmúrsins.
Þegar ég var pjakkur var þessu öðruvísi farið. Ástæðan var sennilega fyrst og fremst sú að fótboltablöðin – Shoot og Match – gáfu skoska boltanum talsverðan gaum. Þannig átti maður fín plaköt af skosku liðunum, þar á meðal St. Mirren með Gumma Torfa vígalegan á miðri liðsmynd.
Mínir menn voru Hearts. Flottur búningur. Fínt nafn. John Robertson var góður. Og þeir voru ekki helvítis Celtic eða Rangers.
Og það voru mörg önnur flott fótboltalið í Skotlandi. Aberdeen og Dundee United voru uppnefnd “New Firm” til aðgreiningar frá “Old Firm” í Glasgow. Það voru lið sem gerða fína hluti á Evrópumótunum. (Og eftir að ensku liðin voru bönnuð í Evrópu, þá fylgdust fótboltablöðin enn betur með árangri skosku liðanna í staðinn.)
Hitt Dundee-liðið var líka alvöru klúbbur. Klárlega á topp-8 listanum yfir stórlið Skotlands. Það þótti fyndið að sýna loftmyndir sem leiddu í ljós að heimavellir Dundee-liðanna tveggja voru nálega hlið við hlið, enda var rígurinn þarna á milli alræmdur.
Í dag er Dundee United enn meðal bestu liða Skotlands. Dundee FC er hins vegar í vondum málum. Dundee er sem stendur í næstefstu deild (og munurinn á að vera í þeirri efstu og næstefstu er gríðarlegur). Fjármálastjórnunin hefur verið í molum lengi og á dögunum lenti klúbburinn í greiðslustöðvun, ekki hvað síst vegna vangoldinna skatta.
Skoska knattspyrnusambandið ákvað að grípa til harkalegra aðgerða. Dundee hefur nú fengið refsingu, frádrátt upp á 25 stig. Það þýðir að öllum líkindum að félagið er dæmt til að falla niður um deild – sem gæti reynst rothöggið. Lið af stærðargráðu Dundee FC lifir varla af dvöl í þriðju efstu deild án ríkra bakhjarla – og þessi refsing gæti drepið allar vonir um að finna slíka bakhjarla.
Frá því að ég byrjaði að drekka í mig fréttir af fjármálum breskra fótboltaliða (eftir að Luton lenti í hvað mestum peningahremmingum) hafa nokkur lið farið á hausinn – en það hafa allt verið óþekkt utandeildarlið. Chester City er líklega frægasta liðið sem hreinlega hefur sprungið á limminu.
En nú er sú hætta raunverulega fyrir hendi að Dundee FC verði hreinlega lagt niður innan skamms. Heimurinn yrði tómlegri eftir.