Óformlegar kannanir leiða í ljós að 80% lesendum þessa bloggs er meinilla við það þegar ég skrifa um fótbolta. 20% kætast. Ef ég hefði sömu sýn á hlutina og séra Örn Bárður, myndi ég segja þessum 20% að hoppa upp í afturendann á sér. Ég er hins vegar veluppalinn heiðingi og segi ekki svoleiðis.
Það er nokkuð um liðið frá síðasta Luton bloggi. Staðan er hvorki góð né vond. Við erum í þriðja sæti – stigi á eftir Crawley (sem á leik til góða) og tveimur á eftir Wimbledon. Við skorum mest allra liða – en fáum líka óþarflega mikið á okkur.
Eins og staðan er núna virðast engin önnur lið líkleg til að blanda sér í baráttuna um eina örugga sætið. Það er helst Wrexham sem gæti slegist í hópinn. Þar er gamli jálkurinn Dean Saunders við stjórnvölinn, með hóp leikmanna sem eru komnir langt á fertugsaldur.
Wimbledon virðist brothætt. Liðið byraði vel, en er á sínu fyrsta ári í deildinni. Eitthvað segir mér að þeir springi á limminu – þótt það sé nokkuð ljóst að við þurfum ekki að bíða í mörg ár eftir að sjá Wimbledon í deildarkeppninni á ný.
Crawley er hins vegar hörkulið sem mun væntanlega slást við okkur um toppsætið allt til loka. Þeir hafa peningana og munu eflaust styrkja hópinn hressilega í janúarglugganum. Líkt og Wimbledon eru Crawley nýliðar, sem klikka vonandi undir pressu.
Næsta viðfangsefni er þó enski bikarinn. Þar eigum við endurtekinn leik á miðvikudaginn, heima gegn Corby – sem okkur mistókst að vinna á útivelli í fyrri leiknum. Sigurvegarinn fær leik í lok mánaðarins gegn Charlton eða Barnet. Ég sef nú alveg fyrir spenningi…