Leikskólinn minn

Skömmu eftir að Ólína, dóttir mín, byrjaði á leikskólanum Sólhlíð haustið 2006 var hengd upp auglýsing um aðalfund foreldrafélagsins. Við Steinunn köstuðum upp á það krónu hvort okkar ætti að mæta – í okkar huga var jafnsjálfsagt að mæta á aðalfund foreldrafélags í leikskóla og t.d. aðalfund húsfélags í fjölbýlishúsinu þar sem maður býr.

Ég vann/tapaði hlutkestinu og mætti á fundinn. Þar kom í ljós að ég hafði hlaupið apríl. Sjö eða átta foreldrar mættu á fundinn og einhvern veginn lá beint við að aularnir sem mættu myndu skipa stjórnina. Upp frá þessu hef ég verið í stjórn foreldrafélagsins og sé ekki fram á að það breytist fyrr en Böðvar útskrifast eftir fjögur ár.

Það er svo sem ekki mikið fyrir þessu starfi haft. Við riggum upp jólaballi hér, sumarferð þar, söfnum peningum til að geta boðið upp á farandleiksýningar á skólatíma og grillum pylsur á vorhátíð. Og við erum í aðeins nánari samskiptum við stjórnendur leikskólans en foreldrarnir sem kyssa bara bless klukkan átta og sækja klukkan hálf fimm.

Ég vissi svo sem ekki hverju ég átti við að búast þegar ég byrjaði að tengjast leikskólastarfinu, en aðdáun mín á starfinu sem þar fer fram hefur vaxið jafnt og þétt. Mér skilst að það sé leitun að opinberum vinnustöðum sem halda sig jafn vel innan fjárheimilda og leikskólarnir. Það er ekki til neitt sem heitir bruðl á þessum stofnunum. Á Sólhlíð eru leikskólakennararnir t.d. sífellt á útkíkki eftir leiðum til að viða að sér ókeypis hráefni til að vinna með í hvers kyns föndri. Foreldrar á vinnustöðvum þar sem til fellur pappír, umslög, pappaspjöld eða annað slíkt, koma því á leikskólann og allt er nýtt. Það er horft í hverja krónu.

Leikskólar eru erfiðir vinnustaðir. Laun stórs hluta starfsmannanna eru mjög lág, sem þýðir m.a. að starfsmannaveltan er mjög mikil, veikindi eru algeng (enda leikskólapestirnar líka skæðar) og mikill tími fer í að setja nýtt fólk inn í kerfið. Að stýra leikskóla er því að halda mörgum boltum á lofti í einu. Dagskráin tekur mið af því hversu margt starfsfólk er tiltækt (sem er nánast aldrei eins dag frá degi) og meira að segja veðrið hefur sitt að segja. Leikskólastjóri stekkur því inn og út af deildum – gengur í öll störf og ýtir oftar en ekki pappírsvinnunni á undan sér þar til í lok skóladags.

Með þetta í huga, finnst mér út úr korti að heyra af þeim áformum borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík að leggja niður störf leikskólastjóra – líkt og starfsvið þeirra sé skrifstofudjobb sem yfirmaður næsta leikskóla eða grunnskóla geti sinnt í hjáverkum. Ég hef bara komið að leikskólastarfi sem leikmaður í fjögur ár, en fyrir mér er hugmyndin galin. Öll stjórnunarfræði segir manni að vitlausasta sparnaðaraðgerðin í sérhverri framkvæmd sé að reka verkstjórann. Það er þó nákvæmlega það sem borgaryfirvöld virðast vera að stefna að.

Það eru skuggalegar fregnir sem berast af leikskólamálum borgarinnar. Vonandi mun þó rofa til í kollinum á einhverjum og menn fari að viðurkenna að leikskólarnir eru líklega sú starfsemi á vegum borgarinnar sem er best rekinn um þessar mundir. Að bregðast við með því að losa sig við þessa stjórnendur væri gjörsamlega út í hött. Nær væri að fela lunknum leikskólastjórum að koma víðar að í rekstri borgarinnar…