Leikskólinn minn

Skömmu eftir að Ólína, dóttir mín, byrjaði á leikskólanum Sólhlíð haustið 2006 var hengd upp auglýsing um aðalfund foreldrafélagsins. Við Steinunn köstuðum upp á það krónu hvort okkar ætti að mæta – í okkar huga var jafnsjálfsagt að mæta á aðalfund foreldrafélags í leikskóla og t.d. aðalfund húsfélags í fjölbýlishúsinu þar sem maður býr.

Ég vann/tapaði hlutkestinu og mætti á fundinn. Þar kom í ljós að ég hafði hlaupið apríl. Sjö eða átta foreldrar mættu á fundinn og einhvern veginn lá beint við að aularnir sem mættu myndu skipa stjórnina. Upp frá þessu hef ég verið í stjórn foreldrafélagsins og sé ekki fram á að það breytist fyrr en Böðvar útskrifast eftir fjögur ár.

Það er svo sem ekki mikið fyrir þessu starfi haft. Við riggum upp jólaballi hér, sumarferð þar, söfnum peningum til að geta boðið upp á farandleiksýningar á skólatíma og grillum pylsur á vorhátíð. Og við erum í aðeins nánari samskiptum við stjórnendur leikskólans en foreldrarnir sem kyssa bara bless klukkan átta og sækja klukkan hálf fimm.

Ég vissi svo sem ekki hverju ég átti við að búast þegar ég byrjaði að tengjast leikskólastarfinu, en aðdáun mín á starfinu sem þar fer fram hefur vaxið jafnt og þétt. Mér skilst að það sé leitun að opinberum vinnustöðum sem halda sig jafn vel innan fjárheimilda og leikskólarnir. Það er ekki til neitt sem heitir bruðl á þessum stofnunum. Á Sólhlíð eru leikskólakennararnir t.d. sífellt á útkíkki eftir leiðum til að viða að sér ókeypis hráefni til að vinna með í hvers kyns föndri. Foreldrar á vinnustöðvum þar sem til fellur pappír, umslög, pappaspjöld eða annað slíkt, koma því á leikskólann og allt er nýtt. Það er horft í hverja krónu.

Leikskólar eru erfiðir vinnustaðir. Laun stórs hluta starfsmannanna eru mjög lág, sem þýðir m.a. að starfsmannaveltan er mjög mikil, veikindi eru algeng (enda leikskólapestirnar líka skæðar) og mikill tími fer í að setja nýtt fólk inn í kerfið. Að stýra leikskóla er því að halda mörgum boltum á lofti í einu. Dagskráin tekur mið af því hversu margt starfsfólk er tiltækt (sem er nánast aldrei eins dag frá degi) og meira að segja veðrið hefur sitt að segja. Leikskólastjóri stekkur því inn og út af deildum – gengur í öll störf og ýtir oftar en ekki pappírsvinnunni á undan sér þar til í lok skóladags.

Með þetta í huga, finnst mér út úr korti að heyra af þeim áformum borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík að leggja niður störf leikskólastjóra – líkt og starfsvið þeirra sé skrifstofudjobb sem yfirmaður næsta leikskóla eða grunnskóla geti sinnt í hjáverkum. Ég hef bara komið að leikskólastarfi sem leikmaður í fjögur ár, en fyrir mér er hugmyndin galin. Öll stjórnunarfræði segir manni að vitlausasta sparnaðaraðgerðin í sérhverri framkvæmd sé að reka verkstjórann. Það er þó nákvæmlega það sem borgaryfirvöld virðast vera að stefna að.

Það eru skuggalegar fregnir sem berast af leikskólamálum borgarinnar. Vonandi mun þó rofa til í kollinum á einhverjum og menn fari að viðurkenna að leikskólarnir eru líklega sú starfsemi á vegum borgarinnar sem er best rekinn um þessar mundir. Að bregðast við með því að losa sig við þessa stjórnendur væri gjörsamlega út í hött. Nær væri að fela lunknum leikskólastjórum að koma víðar að í rekstri borgarinnar…

Join the Conversation

9 Comments

 1. Hérna ertu að snerta á málefni sem ég veit nákvæmlega ekkert um, en hef mikinn áhuga á.

  Hvað gera leikskólastjórar? Hafa þeir mikið sjálfræði um rekstur sinna leikskóla innan borgarkerfisins? Þarf ég að pæla í þessu þegar ég vel leikskóla fyrir dótturina?

 2. Sæll Hugi

  Ég svara smá fyrir Stebba þó hann viti þetta allt sjálfsagt.
  Fyrsta spurnig:
  Leikskólakennarar gera það sem allir framkvæmdastjórar eða forstjórar venjulegra fyrirtækja þurfa að gera(og jafnvel meira til), sjá um rekstur, mannhald, stefnu fyrirtækisins(leikskólans), samskipti við viðskiptavini(foreldra, börn, borgina, aðra viðskiptavini) og hvað eina sem kemur upp. Fyrir utan það ganga þeir í öll þau strörf sem unnin eru á leikskólum ef þarf til, fara inn á deildir, eldhús og innkaup. Allt sem þú getur ímyndað þér að sé gert inn á leikskólum þurfa leikskólastjórar að geta farið í.
  Önnur spurning:
  Sjálfræðið fer minnkandi, hér áður fyrr gátu leikskólastjórar sjálfir ákeðið hvaðan matur er keyptur en nú eru komnir birgjar sem versla skal af. Þó geta stjórar ákveðið eitthvað í þessum efnum. Í sambandi við starfsmannaforráð held ég að leikskólastjórar hafi almennt full forráð en verða að sjálfsögðu að fara eftir vissum reglum. í sambandi við að stjórna því hvaða börn koma inn á leikskólann er því stjórnað af borginni og forráð leikskólastjóra engin þar, fer allt eftir biðlistum og svoleiðis.
  Þriðja spurning:
  Auðvitað þarftu að pæla í þessu þegar þú velur leikskóla fyrir barnið þitt. Enginn leikskóli er eins og eru misjafnar stefnur á hverjum leikskóla þó allir fari eftir sömu grunnhugmyndum og eftir sömu lögum. Það eru margar uppeldiskenningar til og leikskólastjórar hafa misjafnar skoðanir. Langflestar eru þó allar góðar og munu gera barnið betur búið til að takast á við lífið. Þú þarft að hugsa um hvaða væntingar þið foreldrarnir gerið til menntunarinnar sem fer fram þarna, hvað sé sameiginlegt með ykkar uppeldi og svo framvegis. Einnig held ég að það sé mikilvægt að eiga góða tengingu við leikskólastjórann, að þið náið vel saman.

  Sumt af þessu sem ég svaraði getur verið rangt, sér í lagi um sjálfræði leikskólakennara þar sem breytingar eru örar í þessum geira sem öðrum á tímum sem þessum, en ég vona að þú hafir eitthvert gagn af.
  Friðrik

 3. Varðandi sjálfstæði leikskólastjórans það er sívelt minna og minna. við höfum ekki frjálsa hand til þess að ráða fólk til starfsins það er ráðningarban frá Reykjavíkarborg sem þýður að þegar við þurfum á fólk að halda við þurfum að biðja um leyfi, með góð rökstyðja. Kerfi er mjög mikið miðstírð núna, krepa tími sem sagt. Samt sem áður Leikskólastjórar þurfi að svara fyrir öll þeim ákveðnir sem teknir eru.
  Alt hitt sem sagt er að nánust rétt.
  Ég starfa sem aðstoðleikskólastjóri og stenda einnig til að vera sagt upp, Reykjavíkarborg er að sejga upp öll stjórnandur þrátt fyrir menntun, reynlsu, þekkingu á leikskólasvið, vinsælli á meðal foreldrum og starfsmenn. Búið til verður nýtt starfsheiti þar sem við megum sækjum um og keppa við fólk sem hefur verið okkar samstarfsmenn og stuðningu í mörg ára bil. Ég óttast mikið hvað verður af leikskólakennara fagið í lok þessar aðgerð sem stendur til.
  Nichole

 4. Frábær grein! Og það er gríðarlega mikilvægt ad raddir ykkar foreldranna heyrist í þessu máli sem og raddir okkar leikskólakennaranna.

 5. Ég skil ekki, stendur til að leggja niður leikskólastýrur á öllum leikskólum???? Alveg hef ég misst af þeirri umræðu.
  En ég hef tekið eftir því að þegar skrifstofustörf eru vel unnin tekur enginn eftir því og allir hafa á tilfinningunni að hlutirnir gerist af sjálfu sér. Svo þegar breytingar verða þá allt í einu fer allt í hönk. Leikskólastýru starfið er örugglega akkúrt þannig starf að það gengur út á að láta hlutina ganga hnökralaust fyrir sig og þegar vel gengur þá tekur enginn eftir því að hún sé að gera nokkurn skapaðan hlut!

 6. Mikið er ég sammála þér, starfa sjálf á leikskóla og hrýs hugur við tilhugsunina um þetta allt saman.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *