Um borðspil

Tómas V. Albertsson þjóðfræðingur og heiðingi hefur um langt skeið unnið að söfnun upplýsinga um sögu íslenskra borðspila. Í ljós kemur að miklu meira hefur verið gefið út af slíkum spilum en flesta órar fyrir.

Í morgun sendi hann skeyti á Gammabrekku, póstlista sagnfræðinga, með fyrirspurn um ýmis fágæt spil. Ég stelst til að birta skeytið hér að neðan, í þeirri von að einhver hinna fjölmörgu og fjölfróðu lesenda þessarar síðu geti hjálpað til. Svarið endilega í athugasemdakerfinu:

* * *

Komið þið sæl
Mig langar að spyrja ykkur um nokkur gömul borðspil og ef þið hafið eintak eða vitið af eintaki megið þið endilega benda mér á viðkomandi einstakling sem á spilið, en ekki benda mér á nein söfn því þau eiga ekki þessi spil. Eg hef þegar skoðað þann möguleika og því miður fer lítið fyrir borðspilum á byggðasöfnum og mörg hver svara ekki erindi mínu í þokkabót.
Ef einhver ykkar man eftir spilunum, þá endilega sendið mér lýsingu af gangi spilsins eða um eðli þess.
Af þessum spilum vantar mig oftast myndir af kössunum eða spilaborðunum auk upplýsinga um framleiðendur, hönnuði og teiknara.
Spilin eru:
1) „A  rottuveiðum“ auglýst 1935 til 1939, og er líklega útgáfa af „Köttur og mús“ frá Spear í Englandi – 1930 útgáfan.
2) „Sóknin mikla“ auglýst fyrir jól 1940 (ekkert meir).
3) „10 litlir negrastrákar“ auglýst fyrir jólin 1947,
4) „Kappaksturinn frá Heklu“  auglýst fyrir jólin 1947
5) Negrastrákarnir 1949 – gæti verið sama spil og 1947.
6) Jólasveinn á Jeppa 1954 – var tengt Samvinnutryggingum. (ég veit þegar um eitt borð í einkaeigu, en vantar kassann)
7) Bungaló 1959 var auglýst vel fyrir jólin það ár og voru miklar væntingar um útflutning á þessu spili.
8) Eldflaugaspilið 1959 var prentað hér á landi og með Fluorscent litum og selt fyrir jólin það ár
9) Síldarspilið 1959 auglýst fyrir jólin. (virðist hafa verið í 3ja spila kassa og þá með Kappflugið og Veðhlaupið í kassanum)
10) Handboltaspilið 1961, Arthúr heitinn Olafsson hannaði leikinn en Handknattleikssambandið gaf hann út, því miður eru engar upplýsingar að hafa hjá  HSI.
11) Nýja fótboltaspilið 1975 auglýst fyrir jólin, Ragnar Lár sá um útlitshönnun
12) „Spilið um dýrin“ 1979 auglýst fyrir jól, Haukur Halldórs hannaði.
A þessu tímabili voru einnig auglýst 3-7 spil i kassa og vantar mig samsetningar þeirra kassa svo og mynd af kössunum og borðunum. Sumt af þessu var fremur ódýr framleiðsla og er þetta kannski mikil bjartsýni af minni hálfu að þessir kassar séu til.
Sumt af þessu á listanum gæti verið bastarðar, þ.e. þýddar leikreglur fylgja erlendum kassa, en annað er íslenskað að fullu og jafnvel staðfært enn annað er þó al íslensk spil s.s. Handboltaspilið og spilið um dýrin.
Eg vona að menn taki þessari bón minni vel og hafi mig í huga þegar farið verður í geymsluna til að sækja jóladót síðustu ára og horfi eftir gömlum spilum í leiðinni.
Kær kveðja
Tómas Vilhj. Albertsson
Þjóðfræðingur