Hugsað út fyrir rammann

Kristbjörn Gunnarsson, brottfluttur nágranni úr Norðurmýri og gamall skólabróðir úr MR, bendir í athugasemdakerfi þessarar síðu á fésbókarfærslu sína. Þetta er endurunnin bloggfærsla sem hann sendi frá sér fyrir mörgum árum. Ég las hana á sínum tíma og þótti hún frumleg og snjöll.

Í stuttu máli freistar Kristbjörn þess að finna nýjan flöt á umræðunum um íslenska kjördæmakerfið. Hann bendir á það augljósa: að byggðaþróun liðinna áratuga hafi í raun kollvarpað forsendunum fyrir landfræðilegri skiptingu landsins í kjördæmi. Ef ekki verður einhver óvænt og veruleg breyting á demógrafískri þróun, munu landsbyggðarkjördæmin halda áfram að veikjast. Norðvesturkjördæmið er nú þegar orðið of fámennt en á sama tíma líka of víðfemt til að geta þrifist sem sjálfstæð eining.

Fæstir þeirra sem vilja leysa úr þessu, hafa haft ímyndunarafl í að stinga upp á öðrum leiðum en þeirri að gera landið að einu kjördæmi. Það er vissulega fær leið, en skapar líka vandamál sem yrði þá að takast á við með einhverjum hætti.

Þá varpar Kristbjörn fram þeirri hugmynd að halda sig við „kjördæma“-hugsunina, en miða ekki við landfræðilegar einingar. Auðvitað mætti hugsa sér að nota allan fjandann til að skipta fólki upp í hópa: fæðingarmánuð, upphafsstaf skírnarnafns – það væri þó vissulega frekar ómarkviss skipting.

En um aldursskiptingu gildir öðru máli. Hagsmunir fólks eru ólíkir eftir aldri, verðmætamatið ólíkt og áhersluatriðin ekki þau sömu. Skoðanakannanir um hin aðskiljanlegustu málefni hafa sýnt fram á mikinn afstöðumun milli kynslóða.

Það er alveg þess virði að spyrja sig hvort þrítugi Reykvíkingurinn og jafnaldri hans á Ísafirði eigi ekki meira sameiginlegt en hvor um sig með átján ára frænda sínum og áttræðum afa í sama plássi? Kristbjörn varpar fram hugmynd að mögulegri aldursflokkaskiptingu. Samkvæmt henni yrðu aldursröðuðu „kjördæmin“ sex talsins – öll álíka fjölmenn (hægðarleikur að stilla það af) – og með 8-9 kjördæmakjörna og 1-2 varamenn til að tryggja að þingmannatala flokka endurspegli kjörstyrk þeirra.

Væntanlega myndu flestir flokkar bjóða fram lista í öllum aldurshópum – þótt mögulega komi fram sérframboð um málefni einstakra kynslóða (námsmanna, ungra foreldra, eldri borgara…) Frambjóðendur þyrftu ekki að vera úr viðkomandi aldursgrúppu – en væntanlega yrðu menn ekkert á ósvipuðu rólki.

Kristbjörn dustar rykið af þessari hugmynd sinni núna, gagngert í þeirri von að frambjóðendur til stjórnlagaþings kveiki á henni. Án þess að ég sé búinn að kokgleypa tillögurnar, þá verð ég að viðurkenna að þær kveikja í mér. Þarna er hugsað út fyrir rammann og það er óneitanlega öllu skemmtilegra að velta hlutunum fyrir sér á þeim nótum en að festast í fyrirliggjandi kerfi og einblína á hvaða smálagfæringar sé hægt að gera á því.

Gaman væri að fá umræður um þetta.