Hvaða Helga?

Hulda Jakobsdóttir var bæjarstjóri fyrst íslenskra kvenna. Hún stýrði Kópavogi og þar í bæ má finna Huldubraut á norðanverðu Kársnesinu. Ég hef alltaf haft það fyrir satt að Huldubraut heiti eftir Huldu bæjarstjóra – sem gerir hana þá væntanlega að eina 20. aldar stjórnmálamanninum sem hefur fengið götu nefnda í höfuðið á sér. (Það er, þangað til að nafnabreytingarnar í Túnunum í Reykjavík ná fram að ganga.)

En skammt frá Huldubraut er gatan Helgubraut. Þá vaknar spurningin: hver var Helga?

Er þetta kannski bara rugl í mér með að Huldubraut heiti eftir bæjarstjóranum – og Hulda og Helga þá bara kvenmannsnöfn sem valin eru út í bláinn? Eða vísar Helgunafnið þá líka til einhverrar þekktrar konu? (Eitthvað segir mér samt að það sé ekki Helga Sigurjónsdóttir…)

Gaman væri að fá svör við þessu.

Join the Conversation

13 Comments

 1. Mig rámar í að kona Þórðar á Sæbóli hafi heitið Helga. Þar sem Blómaskáli þeirra hjóna var á þessum slóðum er ekki ósennilegt að gatan heiti eftir henni.

 2. Sæll Stefán – er það misminni hjá mér að Geirsgata í Reykjavík sé nefnd eftir Geir Hallgrímssyni, fyrrverandi forsætisráðherra/borgarstjóra?

 3. Þarna eru 4 götur Marbakkabraut nefnt eftir Marbakka þar bjuggu Finnbogi Rutur og Hulda Jakopsdóttir, Huldubraut, Sæbólsbraut nefnd eftir Sæbóli þar bjuggu Þórður Þórðarson og Helga 8veit ekki eftirnafnið] sem ráku Blómaskálann og loks Helgubraut.
  Þ+orður og Helga gáfu Sæbólslandið undir kirkjugarð sem Kópavogur skyfri svo á og landi í Leirdal

 4. Það er rétt að gatan heiti eftir Helgu konu Þórðar á Sæbóli – þeir nágrannar Þórðu og Finnbogi sátu saman í hreppsnefnd en voru mjög heitir andstæðingar, til að mynda skrifaði Þórður svo til alltaf undir fundargerðir með fyrirvara, en neitaði að segja frá því við hvað hann hefði fyrirvara um.

 5. Helga var Sveinsdóttir – rifjaðist upp þegar maður klóraði sér í kollinum, alinn upp í nágrenni þessara höfðingja og átti að muna þetta strax

 6. Er ekki rétt að minna á Geirsnef í Reykjavík í þessu samhengi, þó svo að það sé ekki gata. Það var þó nefnt í höfuðið á Geir Hallgrímssyni, ekki satt?

 7. En hvað með Tryggva Gunnarsson? Var hann ekki á þingi fram yfir aldamótin og hafa Selfyssingar ekki nefnt götu í höfuðið á honum? Reyndar er svolítið langt seilst að tala um hann sem 20. aldar stjórnmálamann, en samt…

 8. Ekki má gleyma Tryggvagötu í Reykjavík, nefnd í höfuðið á Tryggva Herbertssyni, hljóðmanni.

 9. Stefán, já og nei með jafnvægislistina, þeir voru náttúrulega báðir löngu hættir þegar þetta var og mér finnst trúlegt að Þórður hafi verið látinn. En vissulega fengu göturnar þessi nöfn þegar Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag voru í meirihluta í Kópavogi og Þórður og Finnbogi höfðu farið fyrir þeim flokkum (eða forverum þeirra).

 10. Á Fáskrúðsfirði er Garðarsstígur, nefndur eftir Garðari Guðnasyni sem var oddviti þar á sjöunda áratugnum.

 11. Og enn má ekki gleyma Tryggvabraut á Akureyri sem nefnd var eftir Tryggva Helgasyni flugmanni, sem einmitt er í framboði til stjórnlagaþings. Er þetta ekki alveg óþolandi mismunun; hvar er Stefánsgata?

Leave a comment

Skildu eftir svar við Benedikt Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *