Ráðherradómurinn

Mér sýnist að einhvers staðar á bilinu þriðjungur og helmingur frambjóðenda til stjórnlagaþings verji hluta af 700 slögunum sem þeir höfðu til að lýsa stefnumálum sínum í kynningarblaði landskjörstjórnar í að taka fram að þeir vilja skerpa skilin milli framkvæmdar- og löggjafarvalds. Væntanlega er drjúgur hluti hinna á sama máli, þótt þeir komi því ekki að í þessari knöppu kynningu. Ætli það megi ekki segja að það ríki nokkuð almenn sátt um að greina þurfi betur þarna á milli.

Það er þó ekki alveg jafn ljóst hvað einstakir frambjóðendur eiga við með þessu atriði. Ýmsir vilja horfa til Bandaríkjanna, þar sem forsetinn er jafnframt einskonar forsætisráðherra og framkvæmdavaldið því kjörið beinni kosningu. Aðrir horfa til Frakklands, þar sem áhrifamikill pólitískur forseti er kjörinn beint – þótt þar ríki samt þingræði í praxís.

Mér sýnist þó fæstir vera að hugsa um slíkar stórbreytingar. Þess í stað virðist þorri frambjóðenda vilja halda kerfinu í meginatriðum svipuðu, en þó betrumbæta á ýmsum stöðum. Þannig virðist mér að á bak við kröfuna um að skilja betur milli framkvæmdar- og löggjafarvalds sé sú hugmynd að í dag vaði framkvæmdavaldið yfir þingið á skítugum skónum. Öll alvöru frumvörp komi úr ráðuneytunum og þingið sé fyrst og fremst stimplunarstofnun fyrir ríkisstjórn og embættismannakerfið.

Það er talsvert til í þessu. Þáttur Alþingis í lagasamningu verður sífellt minni. (Ég þekki reyndar embættismenn í stjórnsýslunni sem telja það hið besta mál – en þetta truflar lýðræðiskennd flestra.) Úr þessu vilja menn bæta og styrkja þingið gagnvart stjórnvöldum.

En hvað er þá til ráða? Patent-lausnin sem mér sýnist flestir stökkva á, er krafan um að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn. Þetta er „norska leiðin“, sem felur í sér að þingmaður sem tekur við ráðherradómi segir af sér þingmennsku á meðan og kallar inn varaþingmann. Norðmenn eru ekki eina þjóðin sem hefur þennan háttinn á, en hitt mun þó vera algengara að ráðherrar geti einnig verið þingmenn.

Jújú, þetta hljómar svo sem ekki illa þegar maður heyrir það fyrst og vissulega myndi þessi breyting hafa í för með sér að fleiri þingmenn væru til skiptanna í nefndarstörfum Alþingis og almennum þingumræðum (því ráðherrar eru jú nánast alltaf bundnir í ráðuneytinu).

En tekur þessi lausn á vandamálinu? Er stóra vandamálið í samskiptum þings og ríkisstjórnar fólgið í því að ráðherrarnir labbi yfir almennu þingmennina í stjórnarmeirihlutanum: að fulltrúar meirihlutaflokkanna sem ekki gegna ráðherraembættum séu of verkum hlaðnir til að geta unnið vinnuna sína og staðið í lappirnar gagnvart freka ráðuneytisliðinu? Jú, eflaust að einhverju leyti – en stóru átakalínurnar hljóta þó að vera á milli ríkisstjórnarinnar og þingmanna í stjórnarandstöðu.

Hvort er mikilvægara að rétta af aðstöðumuninn milli Steingríms Joð fjármálaráðherra og almenna þingmannsins Bjarna Ben – eða milli fjármálaráðherra annars vegar og Björns Vals Gíslasonar hins vegar? Ætli það sé nú ekki heldur fyrri kosturinn?

Vandinn við hina velmeinandi tillögu um að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn er sá, að hún styrkir fyrst og fremst í sessi ríkisstjórnarflokkana á hverjum tíma. Hún fjölgar „fótgönguliðum“ ríkisstjórnarinnar sem geta helgað sig því að berja á stjórnarandstöðunni meðan ráðherrarnir einbeita sér að sínum störfum.

Hrunstjórnin 2007-9 var með risameirihluta – einhvern þann stærsta í þingsögunni. Ef „norska reglan“ hefði verið þá í gildi, hefði styrkleikamunurinn milli stjórnar og stjórnarandstöðu orðið ennþá meiri. Það hefði því verið enn erfiðara fyrir stjórnarandstöðuna að gagnrýna ríkisstjórnina og standa upp í hárinu á henni.

Ég er í sjálfu sér ekki á móti hugmyndinni um að ráðherrar sitji ekki sem þingmenn, en ein og sér gæti sú breyting falið í sér afturför frá núgildandi kerfi. Ef ekki yrði jafnframt leitað leiða til að styrkja stöðu stjórnarandstöðu, er hættan sú að stjórnarliðið á hverjum tíma fengi bara enn frjálsari hendur og áhrif þingsins myndu fremur minnka en hitt. Og þá væri betur heima setið en af stað farið.