HM til Rússlands? (b)

Á morgun er stór dagur fyrir fótboltaáhugamenn. Þá mun FIFA ákveða hvar HM 2022 (og væntanlega 2026 líka) verður haldið. Fyrir fáeinum mánuðum virtist langlíklegast að England yrði fyrir valinu. Núna sýnist mér að sífellt fleiri veðji á Rússland.

Almenna afstaðan á Luton-spjallborðinu er á þá leið menn óska þess að Rússarnir eða Spánn/Portúgal hreppi hnossið. Fyrir því eru tvær meginástæður:

i) Hluti stuðningsmannanna er ennþá foxillur út í Enska knattspyrnusambandið fyrir að beita félagið massívum refsingum og stigafrádrætti fyrir sakir sem hefði verið hægt að hanka annað hvert félag á.

ii) Flestir eru þó þeirrar skoðunar að þrátt fyrir hatur sitt á Enska knattspyrnusambandinu hefðu þeir viljað sjá HM haldið í Englandi… en sú staðreynd að Milton Keynes hafi verið valin sem ein mögulegra keppnisborga geri hugmyndina óásættanlega. Tilhugsunin um að MK Dons, hataðasta og fyrirlitnasta félag í Englandi, hagnist á HM er svo óbærileg að það verður slegið upp veislu í Luton ef Rússarnir verða fyrir valinu.

Skál fyrir því!

Join the Conversation

8 Comments

 1. Ekki 2026 heldur 2018 og 2022

  Til greina koma…
  2018: England, Rússland, Spánn&Portúgal, Holland&Belgía

  2022: Ástralía, Japan, Katar, Suður-Kórea og Bandaríkin.

  Veðbankar telja margir hverjir að Katar og Ástralir muni berjast um 2022 og var kynningin frá Katar einkar áhugaverð í dag. Japan og Kóra þykja ekki eiga séns þar eð stutt er síðan löndin héldu saman HM. Svipaða sögu má segja um Bandaríkin en þó er ekki hægt að útiloka neitt.

  Helstu samsæriskenningarnar eru að Spánn/Portúgal og Katar hafi gert með sér samkomulag um að styðja framboð hvers (hvors?) annars og því til stuðnings var kynning Katar á lokakynningunni í dag bæði á ensku og spænsku. Telja þessar þjóðir sig getað treyst á Suður-Ameríku atkvæðin.

  Englendingar og Ástralir standa svo saman og treysta á atkvæði fyrrum nýlendna Breta auk þess sem Englendingar hafa ekki haldið mótið síðan 1966.

  Rússar fóru í fýlu þar sem þeir telja að úrslitin séu þegar ráðin og geta ekki treyst á stuðning neinna árið 2022 og því hætti Pútin við að mæta á kynningarfund í dag.

  Það sem helst mælir á móti Englendingum er þó sjónvarpsþáttur BBC, Panorama, sem flutti umfjöllun um meinta mútuþægni 3 háttsettra innan FIFA. Talið að þar með hafi England fengið Afríku upp á móti sér og eigi því ekki lengur séns.

  Bandaríkin tefldu fram Morgan Freeman og Bill Clinton í dag og lögðu mikla áherslu á fótboltann á meðan að Japanir lögðu mikla áherslu á tæknina. Sjá m.a. http://edition.cnn.com/2010/TECH/innovation/11/30/japan.world.cup.bid/

 2. Já, meinti 2018 og 2022.

  Annars er ég spenntastur að sjá hvort að Uruguay fær þetta ekki örugglega 2030… (þá væntanlega í samvinnu við Argentínu).

 3. Hefði örugglega hjálpað ef Marokkó eða Epiptaland hefðu verið í kjöri 🙂

  Og já, mansal til moskvu er örugglega þvæla og leiðinda hávaði sem rétt er að hlífa göfugum áhugamönnum um leikinn fagra við.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *