Laugavegurinn

Ómar Ragnarsson bloggar um götuheiti og er tilefnið nafnabreytingin á götunum í Túnunum, sem er honum ekki að skapi. Reyndar er Ómar ekki í prinsipinu á móti því að breyta um nöfn á götum – hann gerir bara greinarmun á götuheitum sem vísa í staðhætti og þekkt örnefni annars vegar en heitum sem eru meira út í bláinn hins vegar. Þannig vill hann halda í Hólavallagötu – sem vísar til gamla Hólavallaskólans – en stæði væntanlega á sama um Sólvallagötu eða Ásvallagötu.

Þetta er auðvitað alveg tæk vinnuregla, þótt stutt sé yfir á gráu svæðin. Þannig vísar Kaplaskjólsvegurinn í gömul skýli fyrir útigangshross og því væntanlega friðhelgur – en í hverfinu er allt fullt af götuheitum sem vísa í sömu arfleið, þar sem hestanöfnum er splæst framan við „-skjól“, s.s. Faxaskjól, Granaskjól, Sörlaskjól og Frostaskjól. Eru þau þá líka mikilvægur sögulegur minnisvarði um gömul hestagerði?

Ómari finnst út frá þumalputtareglu sinni afleitt að Höfðatún fái annað heiti, þar sem það sé dregið af nafni Höfða og jafnar því við að heiti Laugavegar yrði breytt. Það er reyndar langsóttur samanburður – vegna þess að Höfðatún er jú bara leitt af Höfða-nafninu. Öðru máli hefði gegnt ef einhverjum hefði dottið í hug að umskíra Höfða sjálfan…

En gott og vel. Staðnæmumst aðeins við hina fáránlegu tilhugsun: að breyta nafni Laugavegarins.

Eins og Ómar rifjar upp heitir Laugavegurinn þessu nafni vegna þess að hann var lagður inn að Þvottalaugum eftir að Reykjavíkurbær eignaðist Laugarnesið og þar með talið Þvottalaugarnar. Ég nenni ekki að slá því upp hvenær þessi kaup gengu í gegn – minnir samt að það hafi verið 1885 og vegalagningin hafist ári eða tveimur árum síðar.

En hvenær er Laugavegur í raun Laugavegur? Þetta kann að virðast djúp tilvistarspekileg spurning, en er í raun mjög praktísk. Laugavegurinn sem hvert mannsbarn í Reykjavík þekkir, hefst við mót Skólavörðustígs og Bankastrætis/Bakarabrekku og heldur áfram inn að Kringlumýrarbraut, þar sem Suðurlandsbraut tekur við. Með öðrum orðum – honum lýkur óralangt frá Þvottalaugunum, nánar tiltekið nokkurn veginn við vesturbakka gamla Fúlutjarnarlæksins, sem rennur væntanlega í ræsi undir Kringumýrarbrautinni til sjávar.

Vaðið yfir Fúlutjarnarlækinn var niðri við ósinn, rétt vestan við Kirkjusand. Án þess að hafa sérstaklega lagt mig eftir því að skoða gömul kort af legu Laugavegarins, hef ég alltaf reiknað með því að fljótlega eftir að yfir Rauðaránna var komið hafi gatan sveigt til norðurs og farið auðveldustu leið í gegnum Túnin og niður að vaðinu. Ef sá skilningur minn er réttur, þá er það tómur tilbúningur að tala um götuna a.m.k. frá því í grennd við Fíladelfíukirkjuna og út að Suðurlandsbraut sem Laugaveg og sjálfstætt rannsóknarefni að kanna hvenær það hefst. Mín vegna mætti sá vegastubbur sem best heita Fúlutjarnarlækjargata – svona ef við erum að spá í lókal örnefnum…

Og hvað má þá segja um vestasta hluta götunnar? Nú er ekki svo að engin byggð eða gata hafi verið í framhaldi af Bakarabrekkunni fyrir 1885. Á korti frá 1876 er talað um Vegamótastíg þar sem nú er neðsti hluti Laugavegar. Það nafn er því upprunalegra og vafalítið má finna enn eldri heiti. Þessi gata hlykkjaðist áfram austur á bóginn og hefur væntanlega náð a.m.k. sem slóði alla leið að Rauðará. Ég er nefnilega alls ekki viss um að gerð Laugavegarins hafi kallað á miklar vegabætur vestan Rauðarár, sem var að mörgu leyti orðin endimörk hinnar eiginlegu Reykjavíkur á seinni hluta nítjándu aldar.

Það má því færa fyrir því nokkuð gild rök að Laugavegur dagsins í dag sé ekki nema að mjög litlu leyti á sömu eða svipuðum slóðum og Laugavegurinn sem lagður var inn í Laugardal. 1:0 fyrir sagnfræðina.

Join the Conversation

13 Comments

 1. Þessi eldri slóði er Tröð, sem enn má sjá móta fyrir neðsta hlutanum á á Arnarhóli, og Traðarkot var kennt við og Traðarkotssund var nefnt eftir.

  Tröð var nokkuð hlykkjótt, enda var hún mynduð með sömu aðferð og Broadway á Manhattan. Það voru sumsé kýr, sem upphaflega tróðu hana.

 2. Hve lengi Klambratún hefur heitið það veit ég ekki. Það fékk nafnið eftir bæ sem var byggður þar. Nafnið Klömbrur er hins vegar að hverfa úr málinu og því gaman að viðhalda því.
  Sumir höfðu áhuga á að skíra listasafnið Klömbrur í stað Kjarvalsstaða.

  Mér leiðast allar breytingar, breytinganna vegna. Það má gera konunum hátt undir höfði á margan annan hátt.

 3. Það sem réð breytingunni úr Klambratúni í Miklatún á sínum tíma var fordild, það þótti eitthvað ófínt við Klambrana en Miklatún vísaði til Miklubrautar. Ég býst við að Klambratún sé nokkurn veginn jafngamalt og reiturinn sjálfur og þarf raunar ekki að hafa byrjað sem sérstakt nafn.

 4. Laugavegurinn var einmitt lagður til að auðvelda fólki ferðir í Þvottalaugarnar og dregur réttilega nafn af því hlutverki. Ég held að vangaveltur um leið yfir Túnin niður að vaði við sjávarmál séu frekar tilgangslausar og með öllu óþarfar. Með slíku rölti hefði fólk tekið á sig óþarfa krók. Með því að fylgja Laugavegi og síðan Suðurlandsbraut var komið að Þvottalaugavegi sem lá yfir Þvottalaugabletti síðasta spölinn inn í Þvottalaugar. Þetta er tiltölulega bein leið, eftir því sem leiðir gerast. Og mér sýnast öll rök (önnur en ímynduð) hníga að því að Laugavegur sé að mestu leyti „á sömu eða svipuðum slóðum og Laugavegurinn sem lagður var inn í Laugardal.“ 1:0 fyrir Ómar.

 5. Líkur Laugavegi „óralangt frá Þvottalaugunum“?? Nú er mælakvarðinn „óralangt“ ekki vísindalega skilgreindur en manni finnst nú sem sá 5-7 mín. spotti frá Næturvaktarstöðinni og niður í Laugardal ekki vera svo óralangt í burtu. En sitt sýnist hverjum með það svo sem.

  Fyrir þann sem ætlaði sér að komast frá Bankastræti og upp í Þvottalaugarnar og dytti það snjallræði í hug að nýta sér til þess þar til gerðan Laugaveg nútímans þá kæmist hann nú ansi nærri sínum áfangastað. Í það minnsta líkur Suðurlandsbraut öllu fjær Suðurlandi heldur en Laugardalurinn frá Laugunum. Nafnið er því gott og gilt hvað sem óralengd líður. Rangstöðumark hjá sagnfræðingnum.

  Hversu margar óralengdir verði á milli Bríetartúns og Bríetartorgs?

 6. Því í ósköpunum þarf að breyta götunöfnum. Er kki allt í lagi með þau sem eru ?
  Mér finnst þetta eitthvað miskilinn feminismi og er ekkert viss um að þokkalega skynugar konur séu nokkuð hrifnar af þessari vitleysu.

 7. LOL,
  What the f……
  Held að höfundur síðunnar, þyrfti að telja upp að einhverri mjög hárri tölu, áður en hann hripaði hugsanir sínar niður á lyklaborðið 😉

 8. Benedikt: Humm… við komumst ekki framhjá því að vaðið yfir lækinn var niðri við ósinn. Ég held að lækurinn hafi ekki verið brúaður fyrr en miklu seinna. Upphaflegi Laugavegurinn hlýtur því að hafa leitt menn norður úr (auk þess sem vegurinn var öðrum þræði hugsaður sem tenging við nyrsta hluta Laugarnessins. Stígurinn úr Laugunum og uppá Suðurlandsbraut er seinni tíma fyrirbæri.

 9. Ef ég man rétt byggði Maggi Júl. Magnúss læknir sér bæ, sem hann nefndi Klömbrur eftir ættaróðali sínu norður í Þingeyjarþingi, einhverntímann um 1925 eða svo (plús mínus fáein ár). Túnið kringum kotið var svo vitaskuld kallað Klambratún. Þetta örnefni í bæjarlandinu er þá vel innan við hundrað ára, en ef bæjarbúar eru sérstakir aðdáendur þingeyskrar menningar með tilheyrandi vindgangi fer vel á því að Gnarrinn haldi minningu þess uppi.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *