Prófið

Á föstudaginn lagði ég skriflegt próf fyrir nemendur mína í tæknisögu. Í síðasta tíma hafði ég dreift nokkrum mögulegum prófspurningum og síðan var dregið úr þeim. Skelli prófinu hér inn, lesendum til skemmtunar og fróðleiks:

SAG314G. Tækni og saga:

Þróun borgmenningar á Íslandi 1909-2009

(30%). Skrifaðu um eftirfarandi verkefni:

Í “More Work for Mother” nefnir Ruth Schwartz Cowan ýmis dæmi um það hvernig innleiðing nýrrar tækni eða breytingar á þeirri sem fyrir er, gerist á forsendum orkufyrirtækja, tækjaframleiðenda eða annarra hagsmunaaðila fremur en að hagur neytendanna ráði einn för. Rekið dæmi um slíkt úr bókinni og finnið íslenskar samsvaranir eftir því sem við á.

(40%). Veldu annað eftirtalinna verkefna:

a) Í “Networks of Power” eftir Thomas Hughes, er talsvert fjallað um stríðið milli jafnstraums- og riðstraumskerfisins í Bandaríkjunum. Rekið aðalatriði þess, gerið grein fyrir hagsmunum aðaláhrifavaldanna (Edisons og Westinghouse) og skýrið hvað réð úrslitum í átökum þessarra tæknikerfa.

b)  Í “Networks of Power” ver Thomas Hughes heilum kafla (þeim ellefta) í að ræða það hvernig stríðsrekstur – í þessu tilviki fyrri heimsstyrjöldin – getur haft mikil áhrif á þróun tæknikerfa. Hverjir eru aðalþættirnir í því að hans mati? Má finna sambærileg íslensk dæmi?

(30%). Skrifaðu um eftirfarandi verkefni:

Bændurnir sem riðu til Reykjavíkur til að mótmæla ritsímasamningnum 1905 hafa fengið heldur aum eftirmæli. Þeir hafa þó sitthvað sér til málsbóta. Gerið grein fyrir því.