Ljót saga

Luton er komið í heimsfréttirnar og það kemur ekki til af góðu. Maðurinn sem sprengdi sig í loft upp í Stokkhólmi reyndist hafa búið í Luton, stundað nám við Bedford-háskóla og snúist til ofsatrúar meðan á því stóð. Fyrir vikið smjattar heimspressan (en þó einkum bresku blöðin) á því að Luton sé gróðrarstía hryðjuverka og rifja upp að mennirnir sem sprengdu upp neðanjarðarlestakerfið í Lundúnum komu jú einmitt þaðan.

Eftir að hafa haldið með Luton Town í 27 ár, fer ekki hjá því að maður hafi líka kynnt sér aðeins sögu borgarinnar (sem er reyndar strangt til tekið bær en ekki borg). Það verður að viðurkenna að Luton er skítapleis. Fyrir fáeinum árum var borgin valin sú guðsvolaðasta í Bretlandi. Atburðir síðustu daga munu væntanlega ekki styrkja ímyndina neitt frekar.

Atvinnuástandið í borginni er bágt. Stór fyrirtæki hafa lokað þar eða dregið verulega úr framleiðslu sinni á liðnum árum. Stærsta áfallið var þegar Vauxhall-verksmiðjurnar lokuðu að mestu fyrir fáeinum árum.

Það stórt samfélag fólks af pakistönskum uppruna í borginni og þar hafa vaðið uppi ofstækismenn. Á móti hafa sprottið hópar nýnasista. English Defence League, EDL, eru öflug samtök í borginni. Svo öflug raunar að á dögunum tilkynnti EDL að ætlunin væri að flytja Terry Jones til Bretlands (nöttarann í Texas sem ætlaði að brenna Kóraninn fyrir nokkrum vikum) og láta hann prédika um ógnir Íslam í Luton. Það hefði orðið ávísun á blóðbað.

Fréttirnar sem berast frá Luton eru því á víxl af íslömskum öfgamönnum og snoðinkollum sem efna á víxl til funda og mótmælaaðgerða. Á samkomum síðarnefnda hópsins má sjá fundarmenn í treyjum merktum Luton Town og EDL-liðar hafa reynt að fá útrás með því að snapa slagsmál við boltabullur annarra félaga.

Það er sárt fyrir marga stuðningsmenn félagsins að sjá merki þess notuð af rasistum og glæpamönnum, ekki hvað síst í ljósi þess að Luton Town á sér góða sögu þegar kemur að samskiptum kynþátta. Félagið var meðal þeirra fyrstu til að tefla fram þeldökkum leikmönnum. Fyrir fáeinum árum tefldum við meira að segja fram ellefu manna byrjunarliði þar sem allir voru dökkir á hörund.

Vonandi fara eitthvað jákvæðari fréttir að berast frá Luton á næstunni.