Tilraunin

Vísindaheimspekingurinn Popper hélt því fram að vísindakenningar yrði aldrei sannaðar – heldur í besta falli afsannaðar. Hins vegar myndi sérhver tilraun sem skilaði sömu niðurstöðu verða til þess að festa í sessi viðkomandi kenningu sem myndi nálgast það í sífellu að verða að lögmáli án þess að takast það nokkru sinni.

Þessi kenning Poppers kemur upp í hugann þegar Hraðbrautar-fíaskóið er skoðað.

Hraðbrautarmálið er fyrsta klassa klúður í boði Sjálfstæðisflokksins. Stofnaður var framhaldsskóli sem hitti beint í mark hjá hægrimönnum af tveimur ástæðum:

i) Hann var einkarekinn og í hagnaðarskyni (öfugt við t.d. Verslunarskólann sem er ekki ríkisskóli en í eigu sjálfseignarstofnunar sem ekki greiðir arð) – og átti þannig að sýna fram á að markaðshyggjan myndi svínvirka í skólastarfi.

ii) Hann gaf sig út fyrir að geta tekið venjulegan nemendahóp og útskrifað alla á tveimur árum – og átti þannig að sýna fram á að í hinum skólunum væru menn bara að dútla í fjögur ár og lærðu ekki rasskat.

Fyrir vikið varð Hraðbraut dekurdýr menntamálaráðuneytisins og komst upp með hvað sem er.

Orðræða hægrimanna varðandi opinberan rekstur er yfirleitt á þessa leið: að starfsfólkið á gólfinu (kennarar, hjúkrunarfólk o.s.frv.) sé frábært en á skítalaunum, sem ekki sé hægt að bæta úr vegna þess að opinberi reksturinn leiði til svo flókins og þrúgandi stjórnkerfis sem sé dýrt og óskilvirkt. Með einkarekstri yrði stjórnunin öll léttari, nútímalegri og ódýrari svo fullt af peningum sparaðist, m.a. til að umbuna frábæra starfsfólkinu.

Kannski er eitthvert risastórt popperískt tilraunaprójekt í gangi til að grafa undan þessari kenningu. Ef svo er, hefur Hraðbrautarævintýrið lagt sitt af mörkum…

Einu sinni enn hafa hægrimenn fengið að framkvæma tilraunina sína og enn er niðurstaðan á sömu leið. Hraðbraut reyndist dýr framhaldsskóli. Ekki vegna þess að gert væri vel við kennarana – þeir voru á sömu kjörum og aðrir framhaldsskólakennarar (áttu reyndar kost á meiri vinnu skilst mér), en stjórnunarkostnaðurinn var ærinn. Enginn skólastjórnandi í ríkisskóla hefði komist upp með þær brellur sem tíðkuðust í Hraðbraut – en vegna þess að skólinn var dekurdýr ráðherra Sjálfstæðisflokksins fengu þær að malla áfram.

Í mínum huga ætti Hraðbrautarklúðrið að vera miklu stærra kjaftshögg á pólitískan feril Þorgerðar Katrínar en það að maðurinn hennar hafi verið yfirmaður í vafasömum banka.