Útvarpið

Ríkisútvarpið átti áttatíu ára afmæli í gær. Það er því dálítið álkulegt að hafa klúðrað því að koma þessari afmæliskveðju inn á síðuna fyrir miðnættið, en ég lét plata mig í að skrifa pistil um Steingrím Jónsson rafmagnsstjóra og hann þurfti að hafa forgang.

Útvarpið tengist fjölskyldusögu minni beint. Langafi, Kristján Bergsson (sem dó löngu áður en ég fæddist og var kunnastur sem forseti Fiskifélags Íslands) var í stjórn fyrsta útvarpsrekstrarfélagsins á Íslandi. Það var H.f. Útvarp sem starfaði í Reykjavík á seinni hluta þriðja áratugarins.

Félagið fékk leyfi með lögum frá Alþingi til að halda úti einkarekinni útvarpsstöð, en verkefnið var andvana fætt því að rekstraráætlunin gerði ráð fyrir að félagið fengi einkaleyfi á sölu viðtækja, til viðbótar við hóflegt afnotagjald. Þegar einkaleyfið á tækjainnflutningnum var tekið út úr lögunum var dæmið orðið vonlaust. Stöðin fór samt í loftið og þraukaði í tvö ár eða þar um bil með slitróttum útsendingum.

Mögulega hefði útvarpssagan þróast með öðrum hætti ef H.f. Útvarp hefði ekki farið lóðbeint á hausinn. Það er þó fremur ólíklegt. Ríkiseinokun á úrvarpsrekstri mátti heita nomið í Evrópu á þessum árum.

En mikilvægi H.f. Útvarps fyrir útvarpssöguna var ótvírætt. Þegar Ríkisútvarpið hóf starfsemi sína, mátti allnokkur hluti landsmanna teljast sjóaðir hlustendur. Reyndar voru nokkrir tugir útvarpsviðtækja hér á landi áður en hlutafélagið hóf útsendingar sínar – fólk keypti tæki til að hlusta á erlendar sendingar sem var hægt að ná í furðumiklum gæðum.

Forsprakki hlutafélagsins var Ottó B. Arnar. Hann var símamaður. Sú staðreynd á raunar ekki að koma á óvart. Útvarpið er tæknikerfi sem óx út úr símanum. Margt bendir til þess að upphafsmenn símatækninnar á borð Alexander Graham Bell hafi ekki endileg séð svo skörp skil á milli notkunar símatækninnar til beinna samskipta tveggja aðila annars vegar en fjölmiðlunar hins vegar.

Um daginn fékk ég nýjasta eintakið af uppáhaldstímaritinu mínu. Það er tæknisögurit sem heitir Technology & Culture, kemur út fjórum sinnum á ári og kostar ekki mikið. (Allir að gerast áskrifendur.)

Fyrsta stóra greinin í nýjasta heftinu er um forvera útvarpsins: fjölmiðlun í gegnum síma. Í nokkrum löndum, einkum í Ungverjalandi og á Ítalíu, voru fyrstu “ljósvakamiðlarnir” (ef svo má segja) settir upp undir lok nítjándu aldar og í byrjun þeirrar tuttugustu fyrir tilstilli símkerfa. Fólk gat einfaldlega gerst áskrifendur að símaþjónustu sem bauð upp á hvers kyns útsendingar: fréttalestur, leikrit, tónlistarflutningur, tungumálakennsla, barnasögur, íþróttalýsingar… allt sem minnir á hefðbundinn útvarpsrekstur.

Ýmsar mikilvægar uppfinningar símkerfanna komu fram til að þjónusta þessa starfsemi. Til að fólk gæti hangið við tólið um lengri tíma og notið dagskrár var t.d. mikilvægt að bjóða upp á hreyfanleg símtæki, handfrjálsan búnað o.þ.h.

Reyndar var upplifun þeirra sem nýttu sér þessa þjónustu ekki svo ýkja frábrugðin hinna sem hlustuðu á fyrstu útvarpssendingarnar – því framan af þriðja áratugnum var hátalarinn ekki kominn fram og því gat aðeins einn hlustandi notað hvert viðtæki með aðstoð heyrnartóla.

Símkerfis-útvörpin reyndust í sumum tilvikum klókari í að huga að mikilvægi innihalds í dagskrárgerð, meðan fyrstu útvarpsstöðvarnar einblíndu á tækni og tækjabúnað. Þannig lifðu ítölsku símastöðvarnar á því að hafa tryggt sér útsendingarréttinn frá öllum vinsælustu og bestu leikhúsunum. Dagskrárgerðin var einfaldlega á hærra plani þar.

Gaman væri að vita hvort einhverjar samsvaranir væru til hér á landi – þar sem menn hefðu e.t.v. notað talsímakerfin sem vettvang fyrir einhverskonar fjölmiðlum fyrir tíma útvarps. (Reyndar má segja að sá gamli, góði siður að „liggja á línunni“ sé frumstæð tilraun til fjölmiðlunar – en ég er nú að hugsa um eitthvað aðeins formlegra.