Holdsveiki

Sit þessa daganna og les mér til um sögu íslenskra heilbrigðismála. Þetta er mikil saga og yfirþyrmandi á köflum.

Eins og á svo mörgum öðrum sviðum, þá er fyrirframþekking manns á viðfangsefninu ansi yfirborðskennd og hangir saman við einstaka stóráfanga – sem yfirleitt er hampað sem ótvíræðum og óumdeildum framfaraskrefum í sögunni.

Þannig lærði maður í barnaskóla og svo aftur í menntó, að fyrsti alvöru spítalinn hefði verið Holdsveikraspítalinn á Laugarnesi árið 1898. Í kjölfarið hafi holdsveiki horfið úr sögunni á fáeinum áratugum, en það hafi gerst pínlega seint á Íslandi miðað við restina af Evrópu. Sem sagt: allir kátir.

Ég minnist þess hins vegar ekki að hafa lært neitt í skólanum um hina hliðina á peningnum. Tilkoma Laugarnesspítalans gerði Alþingi það kleift að setja lög þetta sama ár sem heimilaði að úrskurða sjúklinga til ævilangrar sjúkrahúsvistar. Þrátt fyrir að holdsveiki sé líklega sá smitsjúkdómur sem smitast hvað síst milli manna, þýddi tilkoma stofnunarinnar að unnt var að dæma fjölda fólks í ævilangt stofufangelsi. Það er dálítið öfugsnúið.