Ólympíuleikvangurinn & dómínókubbarnir (b)

Hvernig velja menn sér uppáhaldslið í enska boltanum – þ.e.a.s. þeir sem ekki eiga eldri bræður, frændur (og feður þegar um Leedsara er að ræða) til að segja sér fyrir verkum? Algeng og góð leið er að velja nafn sem manni finnst flott, búning í töff litum eða bara láta litlar tilviljanir ráða – s.s. hvaða fótboltaspjald manni ástkotnaðist fyrst.

Þegar búið er að velja sér uppáhaldslið, geta sömu þættir valdið því að maður verður pínkulítið skotinn í öðrum liðum og haft þau svona til hliðar. Sjálfur hef ég verið svag fyrir Aston Villa, allt frá því að þeir voru besta liðið og með flottasta nafnið um 1982.

Annað lið sem mér hefur þótt vænt um frá því að ég man eftir mér, er Leyton Orient. Skýringin er líklega sú að góður vinur minn í barnaskóla átti nokkuð safn gamalla fótboltaspjalda frá stóra bróður sínum, þar sem meðal annars mátti sjá leikmenn Orient í skringilegum búning.

Leyton Orient átti reyndar til skamms tíma aðdáendaklúbb hér á landi sem hélt úti ölugri vefsíðu. Fjölmiðlamaðurinn Þór Bæring var prímusmótorinn í því og öllum hnútum kunnugur.

Það er ekki auðvelt að vera stuðningsmaður Leyton Orient. Liðið hefur alltaf verið eitt það minnsta og veikasta af deildarliðunum frá Lundúnum. Það liggur á milli yfirráðasvæða stórra úrvalsdeildarliða og sífellt erfiðara hefur reynst að fá nyjar kynslóðir til að halda tryggð við félag sem hefur af litlu að státa í verðlaunaskápnum. Leyton Orient á eitt keppnistímabil að baki í efstu deild (1962-3) og komst í undanúrslit bikarsins 1978 (og þá hefur fótboltaspjaldið góða væntanlega verið prentað).

Um þessar mundir er Orient á sínum sögulega hefðbundnu slóðum sem fremur slakt lið í þriðju efstu deild. En það eru blikur á lofti…

Á næstu dögum (jafnvel strax um helgina) gæti fengist botn í það hvort leikvangnum sem hýsa á Ólympíuleikana í Lundúnum að ári verður breytt í fótboltavöll að leikum loknum – og þá hvort Tottenham eða West Ham hreppi hnossið. Hvort félagið sem verður yrir valinu, er ljóst að staða Leyton Orient verður afskaplega þröng. Ólympíuleikvangurinn er steinsnar frá heimavelli liðsins. Hafi verið erfitt að verjast yfirgangi nágrannana áður, verður það líklega vonlaust eftir 2012.

Aðaleigandi Leyton Orient hefur lengi talað fyrir flutningi félagsins. Hann hefur augastað á Essex-héraði, norðaustur af Lundúnum. Knattspyrnusambandið hefur ekki verið til umræðu um slíkt (menn eru enn minnugir klúðursins þegar Wimbledon var stolið og flutt til Milton Keynes) og stuðningsmennirnir hafa líka verið hugmyndinni andsnúnir. En tilkoma úrvalsdeildarliðs í kálgarðinum mun nær örugglega breyta þeirri mynd og erfitt yrði að standa gegn því að Leyton Orient fengi að flytja sig um set.

Slíkir flutningar hefðu þó augljóslega dómínóáhrif á nýja staðnum. Ekki er fullljóst hvar í Essex Orient-menn myndi bera niður. Stóru liðin í héraðinu eru Colchester og Southend, sem bæði eru austarlega. Væntanlega yrði Orient fundinn staður vestarlega, þar sem góðar samgöngur væru fyrir hendi. Nýju bæirnir: Basildon eða Harlow hlytu að koma til greina. Og mögulega mætti tengja framkvæmdirnar við Stansted-svæðið með einhverjum hætti.

Hver svo sem niðurstaðan verður, má búast við að „stóra liðið“ frá Lundúnum muni traðka niður þau félög sem fyrir eru.

Join the Conversation

3 Comments

  1. Það er rétt hjá þér að þetta lítur ekki vel út hjá mínum mönnum í Leyton Orient. Framtíðarhorfurnar eru ekki góðar. Sem betur fer er búið að fresta þessari ákvörðun eitthvað en það er ljóst að West Ham eða Tottenham fær þennan blessaða völl. Það þýðir að Leyton Orient þarf að færa sig eitthvað til að vera ekki jarðað.

    Aftur á móti kom Barry Hearn, eigandi Leyton Orient, fram í fjölmiðlum í gær og viðraði þá hugmynd að Leyton Orient myndi fá hokkívöllinn sem byggður verður fyrir leikana en þann völl á víst að færa úr Ólympíuþorpinu eftir leikana. Veit samt ekki hvort að það væri lausnin…

  2. If you dont mind, where do you host your webpage? I am shopping for a good quality web host and your site seams to be fast and up just about all the time

Leave a comment

Skildu eftir svar við image Hætta við svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *