Gagnrýnisleysi

(Nei, ég er ekki byrjaður aftur að blogga reglubundið. Hins vegar er aldrei að vita nema ég hendi inn færslu endrum og sinnum ef sérstakt tilefni er til.)

Fyrsta stríðið sem ég fylgdist almennilega með var Flóabardagi 1991. Auðvitað hafði maður sem pjakkur lesið fréttaskýringar og séð myndir í sjónvarpinu frá stríði Sovétmanna í Afganistan og styrjöldinni milli Íraks og Íran, en þau voru einhvern veginn svo fjarlæg – líkt og atburður úr mannkynssögunni. Flóabardaginn var hins vegar stríð með þátttöku Vesturveldanna, gervihnattasjónvarpsstöðvarnar voru komnar til sögunnar og dagblöðin voru full af kortum og grafískri framsetningu.

Meðan á Flóabardaga stóð, hömruðu fjölmiðlarnir á því að hér væri brotið blað í sögu stríðsfréttaritunar. Aldrei áður hefði almenningur fengið stríð heim í stofu til sín á þennan hátt. Fátt var fjær sanni. Þrátt fyrir allt lesmálið og allar útsendingarstundirnar, voru áhorfendur svo óralangt frá því að vita nokkuð um þetta stríð.

Allar þær vikur sem hernaðurinn stóð, var hamrað á því að nútímatækni með loftárásum og hárnákvæmum vopnum gerði það að verkum að hátækniherir dræpu varla nokkurn almennan borgara (og þegar hægt var að sýna sundurtætt líkin, þá hlaut það bara að vera vegna þess að andstæðingurinn hafði drepið sitt eigið fólk eða komið því fyrir á háskalegum stöðum.) Það liðu margir mánuðir uns hið rétta kom í ljós. Hernaðurinn í Flóaabardaga var í raun dæmigerður lofthernaður sem snerist um að varpa nógu miklu af sprengiefni og sprengja meira heldur en minna. Raforkuver og vatnshreinsistöðvar voru sérdeilis góð skotmörk.

Það merkilega er – að reynslan frá 1991 gerði hvorki almenning né fjölmiðla gagnrýnni á hugmyndina um mannúðlegar hátækniloftárásir. 1999 fengum við að heyra sömu plötuna þegar sprengjunum rigndi í Júgóslavíu og Kosovo. Löngu eftir stríðið birtust svo neðanmálsgreinar á innsíðum blaðanna um fáránlega lélega hittni Nató-vélanna, sem náðu varla að granda skriðdreka, en voru þeim mun duglegri við að skjóta skóla í misgripum.

Svo kom Afganistan 2001, Írak 2003 – og í hvert sinn fannst mönnum svo frábært hvað hátæknivopnin okkar séu fullkomin og drepi bara vonda menn, nema þá helst þegar klækir vondu mannanna neyða okkur til að drepa góða fólkið í misgripum.

Ekkert við fréttaflutninginn af árásunum á Líbýu bendir til að menn hafi minnsta vara á sér. Umfjöllunin er fullkomin endurtekning á því sem við höfum séð í fyrri stríðum: fréttir af glæstum árangri við að sprengja upp hernaðarleg skotmörk, ekkert borgaralegt mannfall – nema þá helst ef óvinurinn hefur svindlað.

Ætli sálfræðin hafi ekki eitthvert hugtak yfir það ástand þegar fólk sækir í að láta ljúga að sér og fellur sífellt fyrir sömu lyginni óbreyttri?

Join the Conversation

4 Comments

 1. Til er hugtakið á ensku „war porn“ sem fjallar um svona CNN-vætt stríðs gloríu. Það fjallar um hvernig glamúr og „stórfengi“ stríðs er vakið upp og macho myndir af flugskeytaloftárásir og fagnandi hermenn er síendurtekið. Þetta er eitt mesta áróðurstækni sem til er.

  Hví er svona lítil gagnrýni á stríð í stóru fjölmiðlum? Líttu á eignarhald á fjölmiðlum. Flestir eru í eigu hergagnaframleiðanda eða fólk sem hefur hag á stríð. Svo má ekki gleyma að mesta áhorf á CNN er þegar hernaður er í gangi.

  Sjúkur heimur.

 2. Hvað er hægt að gagnrýna við aðgerðirnar í Lýbíu ? Á alþjóðasamfélagið ekki að gera neitt ?

 3. Er það rétt hjá mér skilið að Nato geti ekki ráðist á aðra þjóð án samþykkis allra aðildarríkjanna?

 4. Ég er með tilgátu sem útskýrir framkomu Steingríms, fyrir nokkrum árum sátu helstu stjórnmálaforingjar Íslands á fundi þar sem veðjað var hver þeirra gæti svikið allt sem þeir stæðu fyrir! Það yrði að vera skýrt og afdráttarlaust. Eflaust hafa þeir lagt undir eina kippu hver.
  Eftir innrásin NATO í Lýbíu hefur Steingrímur J. Sigfússon eflaust hugsað með sjálfum sér. Er ég ekki búinn að vinna þetta veðmál, látum okkur sjá: AGS, Icesave, ESB, Kvótakerfið, umhverfismál, beint lýðræði, og nú síðast friðarstefnan. Búinn að svíkja þetta allt skýrt og afdráttarlaust. Hmmmm nei ég á eftir jafnréttismálin. Set hann Árna í það……

  ps: tek fram að hér skrifar maður sem hefur kosið VG oftar en einu sinni.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *