Sigur?

Hvað er sigur og hvað er ósigur? Hvenær hefur maður náð það miklu af markmiðum sínum til að geta fagnað góðum árangri og hversu langt frá settu marki má maður enda til að geta engu að síður borið höfuðið hátt?

Mark Steel (uppáhalds-pólitíski grínistinn minn) velti þessu einhverju sinni fyrir sér í sambandi við Íraksstríðið. Hann líkti því við verslunarleiðangur. Maður sem fer út í búð til að kaupa mjólkurpott og brauðhleif, en snýr aftur með jógúrtdós og vatnsmelónu getur mögulega túlkað niðurstöðuna sem varnarsigur. Sá sem kemur tómhentur og peningalaus heim, eftir að hafa brennt sjoppuna til kaldra kola, getur það ekki.

Fyrir mörgum árum voru stofnuð samtökin Heimssýn. Ég sá reyndar aldrei ástæðu til að ganga í þann félagsskap, en margir vina minna og kunningja komu nálægt félaginu. Allt hið ágætasta fólk.

Tilgangur félagsins var að búa til regnhlífarsamtök þeirra sem telja að Íslandi sé betur borgið utan ESB, þvert á pólitíska litrófið. (Markmið sem ég hef aldrei verið sammála.) Það var í sjálfu sér hægðarleikur. Í Sjálfstæðisflokknum, VG og Framsókn var mýgrútur af fólki sem vildi taka þátt í þessari baráttu. Svo var keppikeflið að finna 1-2 táknræna Samfylkingarmenn til að taka þátt – á sama hátt og menn voru alltaf með einn Sjálfstæðismann sem var herstöðvaandstæðingur hér í gamla daga. (Stefán Jóhann Stefánsson var yfirleitt kratinn í Heimssýnar-hópnum.)

Ég hef verið félagi í VG frá því að ég gafst upp á Samfylkingunni haustið 1999. Ekki get ég þóst hafa unnið mikið í flokknum. Aldrei setið í neinum alvöru stjórnum eða verið fulltrúi flokksins í einu eða neinu, nema þá helst í uppstillingarnefndum og kjörstjórnum (og það jafnvel endað með ósköpum). Hins vegar þekki ég glás af flokksfólki, hef setið flesta landsfundi, marga flokksráðsfundi og reynt að sýna lit í kringum kosningar.

Byggt á þessari reynslu, leyfi ég mér að fullyrða að þótt kjósendur VG séu oft ansi margir jákvæðir í garð ESB í skoðanakönnunum, eru nálega engir stuðningsmenn ESB meðal virkra flokksmanna. Sumir eru skoðanalitlir eða jafnvel eilítið jákvæðir, en raunverulegir stuðningsmenn eru varla til. Ég myndi segja að langflestir virkir VG-félagar sem ég hef kynnst á þessum tólf árum séu annað hvort andsnúnir eða mjög andsnúnir ESB-aðild.

Að finna ESB-andstæðing í VG er álíka flókið og að finna KR-ing i Vesturbæjarlauginni.

Ég er því hugsi yfir listanum á heimasíðu Heimssýnar, þar sem stjórn félagsins er talin upp. Kunnuglegu VG-nöfnin á listanum eru ýmist gengin úr flokknum, á leiðinni úr flokknum eða jaðarsett innan flokksins. Þetta er með hreinum ólíkindum.

Heimssýn hvíldi í byrjun á tveimur sterkum stoðum: Sjálfstæðismönnum og VG-fólki. Núna virðist mönnum hafa tekist að halda þannig á spilunum að traustir VG-flokksmenn vilja ekki taka á félaginu með löngum töngum. Er hægt að klúðra málum öllu verr? Er þetta ekki á pari við að fara í búðina eftir mjólkurpottinum og skilja eftir brunarústir?

Join the Conversation

8 Comments

 1. ég var einmitt fenginn til að vera í einhverri ritstjórn Heimsýnar sem efasemndarmaður í samfylkingunni.
  runnu tvær grímur á mig á stofnfundinum, vera með Gulla og fleirum næs sjöllum í stjórn. fannst það ekki góður félagsskapur og skrifaði enga grein.
  hef síðar orðið harður esb sinni.

 2. Heimssýn fór ágætlega af stað en það er eins og þú lýsir alveg stórmerkilegt að sjá stöðu dagsins. Formaðurinn og varaformaðurinn sem notað hafa þingsæti sín til almennra leiðinda hafa líklega eitthvað með þetta að gera. Eða kannski allt með þetta að gera…

  Kveðja,

  Fávitinn

 3. Ég er skráður bæði í VG og Heimssýn og mér þykir dapurlegt hvernig komið er fyrir þessum félögum. Ég held að VG hefði aldrei átt að samþykkja að sækja um aðild að ESB – það var algjörlega fyrirsjáanlegt að það mundi enda með klofningi og hörmungum. Hin augljósa málamiðlun var að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarumsóknina. Hefði Samfylkingin frekar reynt samstarf með Framsóknarflokknum og Borgarahreyfingunni en að sætta sig við það? Ég veit það ekki. Varla hefði það orðið langlíf ríkisstjórn.

  Jæja, ég hef stutt ríkisstjórnir Jóhönnu Sigurðardóttur og ég á erfitt með að ímynda mér að einhver önnur ríkisstjórn mundi standa sig betur. En þessi ESB-mál eru í algjöru óefni. Ég trúi varla einu sinni að ESB-sinnar séu ánægðir með þetta. Finnst þeim þetta trúverðug umsókn og að allt gangi bara vel?

  Heimssýn hlýtur eðli sínu samkvæmt að vera í stjórnarandstöðu gegn stjórn sem vinnur að aðild Íslands að ESB. Þar með verður erfitt að styðja bæði VG og Heimssýn. En þessi vandi er kannski ekki beinlínis Heimssýn að kenna.

 4. ,,Heimsýn“ , fyrir gefiði eru það ekki öfugmæli ?

  Hvers vegna ekki , ,,Grasið er grænna heima “ ?

 5. Sæll Stefán.

  Þú segir: „Byggt á þessari reynslu, leyfi ég mér að fullyrða að þótt kjósendur VG séu oft ansi margir jákvæðir í garð ESB í skoðanakönnunum, eru nálega engir stuðningsmenn ESB meðal virkra flokksmanna.“

  Þetta vekur athygli mína og ég hygg að þetta sé hárrétt athugað. En hvað merkir þetta? Ég sé ekki aðra skárri skýringu en þá að kjósendur neyðast auðvitað til að forgangsraða. Dæmi: Þeir sem setja aðild að ESB nr. 1 og náttúruvernd nr. 2 kjósa þá xS en setji maður náttúruvernd nr. 1 og ESB nr. 2 er eðlilegt að kjósa xV. Þannig geta skoðanir flokksbundinna og almennra kjósenda beinlínis stangast á.

  Þetta gildir auðvitað á miklu fleiri sviðum og einmitt þess vegna þurfum við miklu fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur. Mér hefur alltaf fundist hjákátlegt þegar stjórnmálamenn segja: „Um þetta var tekist á fyrir síðustu kosningar og ég vann!“

  En bestu þakkir fyrir góðan pistil – eins og þín var von og vísa.

 6. Ég tel mig ávallt vera vinstra megin í Samfylkingunni sem friðarsinni, herstöðvaandstæðingur og á vissan hátt sem verkalýðssinni.
  Ástæða þess að ég yfirgaf VG þar sem ég var þó aldrei félagi, var opinber andstaða VG við Evrópusambandið. Ég greiddi atkvæði gegn inngöngu Svíþjóðar í ESB á sínum tíma, en skipti um skoðun eftir inngönguna og sé lausnir með verkalýðspólitík og mannréttindapólitík ESB sem ég hefi kynnst beint í gegnum starf mitt fyrir TGEU

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *