Linnæus Östlund

Við lestur nýrrar bókar Sigmundar Ó. Steinarssonar um sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu (fyrra bindi) leitar á mig gömul spurning sem ég braut heilann um fyrir nokkrum árum en leiddi síðan hjá mér. Hver var Linnæus Östlund?

Í bókinni grípur Sigmundur niður í kunnan pistil eftir Kjartan Þorvarðsson úr 25 ára afmælisblaði Fram frá árinu 1933. Kjartan er einn af stóru mönnunum í sögu félagsins og átti stóran þátt í að það lognaðist ekki útaf undir lok þriðja áratugarins. Hann skrifaði Framblaðið nánast einn síns liðs og setti saman úrvalslið Fram þennan fyrsta aldarfjórðung.

Kjartan var sjálfur markvörður stóran hluta gullaldartímabils Fram og stóð milli stanganna flest árin sem liðið varð Íslandsmeistari. Hann var hins vegar alltof prúður til að velja sjálfan sig í liðið. Fyrstu árin skiptu Framarar í sífellu um markverði og enginn þeirra varð minnisstæður. Hinn augljósi kostur fyrir hinn hógværa Kjartan hefði því verið Kjartan Thors, sem varði mark Fram í nokkur ár.

En Kjartan valdi Linnæus Östlund og hafði stór orð um snilli hans í markinu. Linnæus who?

Einföld leit á timarit.is leiðir ekki í ljós nema eina vísun í Linnæus Östlund í tengslum við knattspyrnu. Það var sumarið 1916, þegar hann meiðist í leik í Reykjavíkurmótinu. Mér er ekki kunnugt um neina liðsmynd af Frömurum þar sem Linnæus er í marki. Sigmundur tiltekur meistaralið Fram fyrir hvert ár 1913-16 og nefnir þar þrjá aðalmarkverði – en enginn þeirra er Linnæus Östlund.

Linnæus var sonur Davids Östlunds, Svíans sem var aðalsprautan í söfnuði Aðventista hér á landi. Í september fer hann alfarinn með móður sinni vestur um haf og skömmu síðar er hann sagður leggja stund á rafmagnsfræði. Og þar kólnar slóðin.

Var Linnæus Östlund þessi afburðamarkvörður á upphafsárum íslenskrar knattspyrnu – jafnvel sá besti á þeim árum? Um það eru litlar heimildir. Hélt hann áfram að stunda íþróttina? Varð hann langlífur? Veit einhver um afdrif Östlund-fólksins í Ameríku? Þetta væri gaman að vita.

Join the Conversation

7 Comments

 1. Hér hefur einhver ruglast illilega. Östlund er ekki á efri myndinni – og nánast enginn þeirra sem nefndir eru í textanum. Mér sýnist reyndar að nafnalistinn á efri myndinni sé sá sami og á þeirri neðri.

  Ég var búinn að gleyma myndinni af unglingaliðinu – þetta er vissulega barnungur Östlund í marki.

 2. Já, þetta var eiginlega of gott til að vera satt. Veistu hvaða menn þetta eru?

  Gæti verið að þetta með markvörðinn hafi verið brandari? Að hann hafi ekki viljað velja sjálfan sig í liðið sakir hæversku sinnar, en ekki fundist neinn annar vera betri, og því valið einhvern sem var frægur af endemum meðal Framara sem lélegur markvörður.

 3. Linnaeus þessi (Hans David Linnaeus Östlund, fæddur 2. September 1899) flutti til Minneapolis í September 1916, nánar tiltekið á 2407 Elliott Avenue. Hann er meðalhár, rauðhærður og bláeygur á þeim tíma og í góðu líkamlegu ásigkomulagi. Hann átti við komuna einn bróður George Östlund sem var 2 árum yngri. Foreldrar hans hétu David og Enger, en Enger var norsk.

  Hann virðist flytja til Wisconsin og finnst starfandi þar sem listamaður (í plakatagerð) árið 1930 og á þá tvær dætur, Betty 2 ára og Joan 5 mánaða með Nellie sem hér áður Nellie Jessup.

  Líklega er það fyrir aðra að finna Betty og Joan en þær gætu vel verið á lífi eða nýlega látnar en auðvitað getur verið erfitt að finna þær hafi þær gifst.

  Gæti þetta verið dóttir Linnaeusar?

  https://www.facebook.com/people/Betty-Stroh-Ostlund/100002127799199

 4. Skv. ívitnaðri blaðasíðu Guðmundar Brynjólfssonar er reyndar einnig hægt að sjá að Linnæus nemur listir og rennir það stoðum undir það að myndlist hafi verið farvegur hans í lífinu frekar en íþróttir.

  Hann virðist reyndar hafa verið þátttakandi í menningarlífi Milwaukee borgar þar sem nafn hans (Þá kallar hann sig David L. Östlund) kemur upp í Billboard magazine frá 23. mars 1946. Þar er hann titlaður varaformaður „The Display Club“ sem er einhvers konar æskulýðsmiðstöð í borginni, en slíkar stöðvar virðast hafa átt að vera dans og tónlistarklúbbar þar sem einnig væri hægt að ræða málin, en einungis yrðu drukknir gosdrykkir.

  Líklega er ofangreind kona ekki dóttir Östlund þar sem nokkrar Betty Östlund eru til frá þessum tíma í Minneapolis. Einnig lítur hún ekki út fyrir að vera 84 ára.

  Því miður kemur lítið fleira úr krafsinu en

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *