Sturlaður maður í Noregi drap tugi ungmenna. Ætlaði að drepa fleiri og mildi að honum tókst ekki að sprengja enn fleiri í loft upp.
Næstu daga og vikur munu menn velta sér upp úr mögulegum ástæðum fyrir ódæðinu. Fólk mun velta því fyrir sér hver sé ábyrgð þeirra sem deila skoðunum morðingjans eða hafa með einhverjum hætti tekið þátt í að skapa það andrúmsloft haturs sem sturlaði maðurinn nærðist á. Gamlir samherjar hans munu á sama tíma sverja sturlaða manninn af sér og leggja áherslu á að hann sé einfari og beri einn alla ábyrgð.
Gott og vel. Vonandi verður þessi umræða frjó og á skynsamlegum nótum.
En það er önnur hlið á þessu máli sem færri munu vilja ræða. Væntanlega munu einhverjir bregðast illa við því að hún sé færð í tal.
Ástæða þess að sturlaði maðurinn gat drepið svona skelfilega marga er að miklu leyti sú að hann var búinn að fá leiðsögn. Hann hafði lært að meðhöndla sprengjur og beita vopnum hjá sérstakri stofnun sem norska ríkið heldur úti: hernum.
Aðaltilgangur herja er að framleiða menn sem geta drepið fólk sem ríkið segir þeim að drepa. Aukaafurð í þeirri framleiðslu eru sturlaðir menn sem drepa fólk óumbeðið. Þessi er ekki sá fyrsti og ekki sá síðasti. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að herinn beri ábyrgð á sturlun þessa manns – til þess hef ég engar forsendur – en herinn þjálfaði hann. Og hann var greinilega góður nemandi.
Það eru örfáar vikur síðan upp kom umræða hér á landi um norska herinn. Sjálfur lenti ég í allnokkrum viðtölum í fjölmiðlum sem fulltrúi þeirra sem fannst það ekki í lagi að reynt væri markvisst að skrá íslenska krakka í norska herinn. Rök okkar hernaðarandstæðinga voru siðferðisleg og við bentum á þá augljósu staðreynd (sem er þó svo mörgum hulin) að herir kenna fólki að drepa. Og það gera þeir svikalaust.