Skólinn

Stelpan byrjar í skóla í fyrramálið. Hún fer í Háteigsskóla og reiknar með að vera búin að læra nánast allt milli himins og jarðar eftir mánuð.

Við þessi tímamót rifjar maður ósjálfrátt upp sína eigin skólabyrjun. Þegar ég var á þessum aldri, var 6 ára bekkurinn ekki hluti af skólaskyldunni. Það tók skólakerfið óratíma að lögfesta það og enn lengri að hafa sig í að breyta númeraröðinni á bekkjunum.

Flestir fóru samt í 6 ára bekk, sem náði samt varla máli. Kennslan var örstutt. Og það var ekki gert ráð fyrir að nemendurnir kynnu neitt. Leikskólar voru stofnanir þar sem börn kubbuðu og átu sand. Þar var ekki verið að skrifa, lesa og reikna – auk þess sem það voru helst börn stúdenta og einstæðra mæðra sem komust á leikskóla.

Með þennan samanburð í huga sýnist mér gæði námsins í sex ára bekk í dag vera gríðarleg. Stundaskráin er full af sérgreinum með fagkennurum. Sjálfur minnist ég þess ekki að hafa fengið fagkennara í öðru en leikfimi, hannyrðum og smíði fyrr en ég var tólf ára.

Ekki botna ég í því fólki sem vantreystir grunnskólunum og telur það framfaraskref að afnema skólaskylduna.

Join the Conversation

2 Comments

  1. Ég man sex ára bekkinn svolítið eins og þú. Þess vegna hefur mér þótt stórmerkilegt að fylgjast með því hérna í Líbanon hversu miklar kröfur eru gerðar til barna þegar í leikskóla. Dóttir mín, sem er að byrja í sex ára bekk á Íslandi í dag, hefur verið að læra heima síðustu tvö árin og hún hefur verið að stúdera þrjú tungumál. Stundum hefur manni fundist nóg um – börn eiga að fá að vera börn – en kannski höfum við á Íslandi samt verið alltof lengi mjög kærulaus varðandi þessa hluti?

  2. Kennslumálaumræðan er svo sem alltaf í gangi. Það er himin og haf milli krafnanna í dag og í den. Hluti af gagnrýninni er þó hversu kerfismiðað skólinn er. Það sé of lokað að segja að nú skulu allir læra stærðfræði klukkan 10 og síðan þegar klukkan er ellefu þá skulu allir læra íslensku.
    Aðalnámskráin bindur hendur kennara og nemenda í miklum mæli um hvað skuli lært og hvenær. Það er gott að spyrja afhverju kröfurnar eru gerðar, fyrir hvern og afhverjum.

    Ég tel þó að kerfið í dag sé að mörgu leyti gott og við höfum á að skipa heilmiklu fagfólki í skólunum. En fagfólkið má þó ekki taka gagnrýnina á kerfið sjálft of mikið inn á sig.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *