Skólinn

Stelpan byrjar í skóla í fyrramálið. Hún fer í Háteigsskóla og reiknar með að vera búin að læra nánast allt milli himins og jarðar eftir mánuð.

Við þessi tímamót rifjar maður ósjálfrátt upp sína eigin skólabyrjun. Þegar ég var á þessum aldri, var 6 ára bekkurinn ekki hluti af skólaskyldunni. Það tók skólakerfið óratíma að lögfesta það og enn lengri að hafa sig í að breyta númeraröðinni á bekkjunum.

Flestir fóru samt í 6 ára bekk, sem náði samt varla máli. Kennslan var örstutt. Og það var ekki gert ráð fyrir að nemendurnir kynnu neitt. Leikskólar voru stofnanir þar sem börn kubbuðu og átu sand. Þar var ekki verið að skrifa, lesa og reikna – auk þess sem það voru helst börn stúdenta og einstæðra mæðra sem komust á leikskóla.

Með þennan samanburð í huga sýnist mér gæði námsins í sex ára bekk í dag vera gríðarleg. Stundaskráin er full af sérgreinum með fagkennurum. Sjálfur minnist ég þess ekki að hafa fengið fagkennara í öðru en leikfimi, hannyrðum og smíði fyrr en ég var tólf ára.

Ekki botna ég í því fólki sem vantreystir grunnskólunum og telur það framfaraskref að afnema skólaskylduna.