Handbolti/fótbolti

Sígilt umfjöllunarefni á enskum fótboltanördasíðum eru listar yfir menn sem náðu að vera bæði afreksmenn í fótbolta og krikket. Ian Botham er eitt þekktasta dæmið.

Samsvarandi úttekt á Íslandi væri um þá menn sem náð hafa árangri í fótbolta og handbolta. Á upphafsárum íslenska handboltans voru flestir handknattleiksmenn jafnframt í fótboltanum. Með tímanum jókst sérhæfingin – auk þess sem einstök félög einbeittu sér að ólíkum greinum. Haukar og FH voru löngum öflug í handbolta en léleg í fótbolta. KR hefur lengst af verið slappt í handboltanum og sama gildir um Skagamenn.

(Ath.: Þessi umfjöllun vísar bara í karlaboltann. Það er auðvitað fullt af dæmum í kvennaflokknum.)

Framarar eiga líklega flesta einstaklinga sem orðið hafa Íslandsmeistarar í báðum íþróttunum. Allnokkrir hafa náð landsleikjum í bæði handbolta og fótbolta. Ásgeir heitinn Elíasson var t.d. í fótboltanum í Fram og handboltanum í ÍR. Gaman væri að sjá lista yfir þá menn sem náð hafa þeim árangri.

Páll Ólafsson er líklega síðasti maðurinn sem náð hefur að leika A-landsleik í bæði handbolta og fótbolta. Það verður varla gert úr þessu.

Róbert Gunnarsson handboltakappi lék í næstefstu deild í meistaraflokki í fótbolta og er líklega það næsta sem við komumst því í seinni tíð að sjá menn ná árangri í báðum greinum.

Willum Þór Þórsson hefur þjálfað meistaraflokk í bæði handbolta og fótbolta.

Hvert skyldi vera nýjasta dæmið um leikmann sem náð hefur að spila í efstu deild í handknattleik og knattpsyrnu á Íslandi? Jón Kristjánsson Valsari og KA-maður? Spyr sá sem ekki veit.

Join the Conversation

 1. Avatar
 2. Avatar
 3. Avatar
 4. Avatar
 5. Avatar
 6. Avatar

11 Comments

 1. Jón og Erlingur bróðir hans eru seinustu dæmin sem ég veit konkret að spiluðu í efstu deildum í báðum íþróttum en Gunnleifur Gunnleifs var ágætis handboltaleikmaður og var m.a. í 21 árs liðinu. En hvort að hann náði að spila leik í efstu deild man ég hreinlega ekki.

 2. Ég held að Jón Erling Ragnarsson FH-ingur (og Framari) verði að teljast afreksmaður í báðum greinum. Hann var mikill markaskorari í fótboltanum og lét U 21 leiki í báðum íþróttagreinunum ef ég man rétt.

  Hitt er annað að ég geri mér ekki grein fyrir því hvort hann var á ferli á eftir þeim Kristjánssonum enum Akureyrsku.

 3. Ef ég man rétt spiluðu bæði Anton Bjarnason og Ásgeir Elíasson landsleiki í þremur boltaíþróttum, annar hand- fót- og körfubolta og hinn handbolta, fóbolta og blak.

 4. Landsliðsþjálfarinn okkar fráfarandi hefur líka þjálfað meistaraflokkslið hvort tveggja í handbolta og fótbolta. Hann þjálfaði handboltalið ÍA í byrjun níunda áratugarins, þegar það ágæta lið náði svo hátt sem í 2. deild en var oftast í 3. deild ef ég man rétt. (Þetta var auðvitað á þeim tíma þegar deildir nefndust réttum nöfnum og 1. deild var toppurinn á tilverunni.)

 5. Þið eruð að gleyma Hemma Gunn. sem á að ég held markametið í handboltalandsleik, á 3 hæð í USA. Einnig held ég að Sigurbergur Sigsteins hafi spilað í báðum greinum.

 6. Ht man ekki rétt. Anton spilaði blak, körfu og fótboltalandsleiki en Ásgeir blak, handbolta og fótbolta.

 7. Erlingur Kristjánsson varð Íslandsmeistari bæði í handbolta og fótbolta með KA og var í báðum tilfellum fyrirliði liðanna. Það held ég nú að verði seint toppað. Páll Viðar Gíslason lék árum saman bæði fótbolta og handbolta fyrir Þór á Akureyri og var burðarás í báðum liðum. Svo minnir mig að Ólafur Sigurjónsson (Óli Zico) hafi leikið bæði handbolta og fótbolta með ÍR, en sennilega ekki í efstu deild í fótboltanum samt.

 8. Hörður Felixsson og Þorbjörn Friðriksson urðu bæði meistarar með KR í knattspyrnu og Handbolta.Má ekki gleyma Gunnari Gíslasyni bróðir Alfreðs sem var bæði í Knattspyrnu og Handbolta eins Stefáni Arnaldssyni þjálfara kvennaliðs Vals í handbolta.Eflaust margir fleirri.

 9. Ég steingleymdi þeim eðla Þórsara Heiðmari Felixssyni. Hann lék sína fyrstu leiki með meistaraflokki Þórs 16 ára, árið 1993 og lék þá 9 leiki. Ég æfði fótbolta með Heidda og hann var alveg gríðarlega góður, a.m.k. jafn góður og í handboltanum

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *