Íþyngjandi?

Karl Sigurbjörnsson telur að það sé íþyngjandi fyrir börn að vera ekki sjálfkrafa skráð í trúfélag móður við fæðingu. Hugmyndir okkar um hvað sé íþyngjandi fara greinilega ekki saman.

Sjálfur var ég fórnarlamb sjálfvirku skráningarinnar á sextán ára afmælisdaginn minn. Þessa sögu hef ég rakið oftar en einu sinni – meira að segja á þessum vettvangi – en látum samt vaða…

Sú var tíðin að börn hættu að vera börn sextán ára en ekki átján. Sextán ára afmælisdagurinn var því stóráfangi: sjálfræðisaldrinum náð. Ég var Hagaskólapjakkur sem var mjög upptekinn af því að vera uppsigað við guð, enda þaullesinn í Blekkingu og þekkingu eftir Dungal. Það lá því beint við að halda upp á afmælið með því að fara upp á Þjóðskrá (eða var það Hagstofan). Þangað mætti ég ásamt félaga mínum og ætlaði aldeilis að vera fínn maður.

„Hvar fæ ég eyðublaðið til að segja mig úr þjóðkirkjunni?“ – spurði ég hátt og snjallt, til að vera viss um að báðir þjónustufulltrúarnir og parið sem var líklega að fylla út beiðni um lögheimilisbreytingu heyrðu til. Stúlkan í afgreiðslunni umlaði eitthvað um að hún þyrfti að fá kennitöluna. Ég ruddi henni út úr mér og leit sigri hrósandi yfir salinn.

Meinfýsið glott færðist yfir varir stúlkunnar… – „Þú ert ekkert í Þjóðkirkjunni…“ – „Ha???“ – „Nei, þú ert skráður í Óháða söfnuðinn, sjáðu bara hérna…“

„Ehh…“ (og allt í einu mundi ég eftir því að amma heitin hafði þekkt einhvern klerk í Óháða söfnuðinum og skráð sig – og þar með væntanlega börnin sín líka – í þann söfnuð til að ná upp í einhvern lágmarksfjölda safnaðarmeðlima eða til að taka þátt í einhverri kosningunni… og um leið rifjuðust upp fyrir mér öll fréttabréf Óháða safnaðarins sem reglulega duttu inn um bréfalúguna og þaðan beint í ruslið.)

„Öhh… já, ókey… Já, ég ætla altso að segja mig úr honum líka…“ – Rokkmómentið var ónýtt. Sextán ára afmælisdagurinn farinn í vaskinn.

Jú, Karl Sigurbjörnsson: það getur verið býsna íþyngjandi að vera sjálfkrafa skráður í trúfélag móður.

Join the Conversation

1 Comment

  1. Ég sendi inn formlega kvörtun til Umboðsmanns Alþingis þar sem ég benti á að þessi lög væru klárlega brot á jafnrétti og mjög vafasöm varðandi félagafrelsi.

    Umboðsmaður sagði „nei“ og vísaði málinu frá sér, sér til háðungar vil ég segja. Get ekki tekið hann mjög alvarlega eftir að hafa séð hvernig borðleggjandi mál er hunsað.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *