Um fermingar

(Birti eftirfarandi pistil 2006. Skelli honum inn aftur með íslenskum stöfum, þar sem sá gamli er ólæsilegur.)

Ferming unglinga er bæði apaspil (Affenspiel) og vitleysisgangur (Gaukelwerk).

Hafið ekki áhyggjur lesendur góðir – Ég er ekki genginn til liðs við Vantrúarhópinn og ætla ekki að stofna til ritdeilna við fyrrverandi eða núverandi guðfræðinema. Ég er bara að vitna í ummæli annars manns um fyrirbærið fermingu. Sá maður hét Marteinn Lúther.

Fermingin var eitt af því sem Lúther var ósáttur við Í kaþólskunni. Hann taldi hana ekki eiga sér stoð í Biblíunni og vera guðfræðilega vafasama. Fyrir vikið telst fermingin ekki vera sakramenti í lútherskunni, öfugt við það sem er í kaþólskum sið.

Þrátt fyrir að Lúther hefði ekkert álit á fermingunni sem slíkri,gerðu sporgöngumenn hans ekki mikið til að uppræta þennan sið úr kirkjudeildum sínum. Líkleg skýring á því er sú að menntafrömuðir á borð við Erasmus frá Rotterdam sáu fermingarundirbúninginn sem notadrjúgt tæki til að ná fram almennum menntunarmarkmiðum.

Síðar, Þegar dönsk stjórnvöld fóru að huga að menntun þegna sinna og vildu tryggja að allir (í það minnsta karlarnir) gætu stautað sig í gegnum einfaldan texta og jafnvel dregið til stafs, gripu þau til fermingarinnar. Fermingin varð þannig á átjándu öld að eins konar samræmdu lestrarprófi í danska ríkinu.

Það eru öðru fremur þessi menntunarpólitísku markmið danska ríkisvaldsins hér á öldum áður sem valda því að hærra hlutfall unglinga á Íslandi, í Færeyjum og í Danmörku fermast en gerist og gengur í öðrum lútherskum samfélögum. Langt er síðan hlutfall fermdra byrjaði að lækka í Danmörku, einkum Í þéttbýli. Til sveita fermast ennþá flestir Danir – líkt og hér á landi og í Færeyjum.

Í ljósi þessa finnst mér alltaf jafnhlálegt þegar skammast er út í borgaralega fermingu á þeim forsendum að þar séu trúleysingjarnir að „stela“ kirkjulegri athöfn. Veruleikinn er sá að í samfélögum mótmælenda hefur fermingin lifað VEGNA hins borgaralega eðlis hennar. Það má í rauninni segja að sú fræðsla sem stunduð er í tengslum við borgaralegu ferminguna (alhliða lífsleikni og samfélagsfræðsla) sé rökréttara framhald af þeirri fermingu sem Erasmus frá Rotterdam og síðar upplýsingarmenn 18. aldar stóðu fyrir en sú kennsla sem á sér stað í kirkjum landsins í dag.

Mér finnst Þess vegna mun rökréttara að trúlaus börn fermist borgaralega en að lúthersk börn fermist Í kirkju. – Og þar hafið þið það!

(Rétt er að taka fram að sjálfur fermdist ég hvorki kirkjulega né borgaralega. Ég svaf út á laugardögum veturinn sem jafnaldrar mínir gengu til prestsins og held að þeim tíma hafi verið betur varið þannig.)