Rúmenarnir

Þriðjudagurinn byrjaði sakleysislega. Ég var heima við að dútla við eitt og annað fram eftir degi. Ákvað svo seinnipartinn að fara í göngutúr niðrí bæ. Í ljós kom að það var gluggaveður og ég illa klæddur. Leit því inn á flokkskontórinn hjá Vinstri grænum í Suðurgötunni, til að snapa kaffi og spjalla við stelpurnar þar um pólitíkina og ferskasta slúðrið.

 

Skömmu eftir að ég var sestur niður, var hurðinni hrundið upp. Inn stigu fjórir útlendingar sem augljóslega voru að villast. Einn í hópnum gekk til okkar og rétti fram miða með heimilisfangi og símanúmeri Hjálpræðishersins. Við reyndum að útskýra fyrir þeim að Herkastalinn væri við hliðina, en í ljós kom að þau höfðu þegar komið að lokuðum dyrum þar. Ég rölti með þeim að dyrunum hjá Hernum og þar blasti við skilti: Lokað í vetur, opnum sumarið 2013. Reyndi að hringja í símanúmerið og enginn svaraði.

 

Meðan á þessu stóð kom einn í hópnum og spurði mig á herfilega bjagaðri ensku hvort ég vissi um vinnu? Hann beygði sig og sveigði eins og til að leggja áherslu á að hann gæti gengið í hvers kyns verkamannavinnu. Ungur maður dró fram velkt, tölvuprentað blað og rétti mér. Hjartað sökk við lesturinn og ég sá strax að þetta gæti orðið langur eftirmiðdagur.

 

Á miðanum stóð efnislega: Við erum frá Rúmeníu og erum heimilislaus og atvinnulaus. Við erum komin hingað til að fá vinnu, komast í húsnæði og skapa okkur framtíð, því í heimalandi okkar höfum við ekkert. – Þessi boðskapur var meitlaður í þrjár stuttar línur og væntanlega skrifaður með aðstoð einhvers annars, því þótt málfarið væri einfalt var textinn málfræðilega réttur og eðlilegur.

 

Þau voru fjögur. Ungur maður sem gat talað hrafl í ensku og lét í það minnsta eins og hann skildi hana vel. Eldri maður, sem sá ungi kynnti síðar sem föður sinn. Sá reyndi talsvert að tjá sig en ég skildi lítið. Með þeim voru gömul kona og maður, sem ég giskaði á að væru afinn og amman. Þau skildu ekkert af því sem fram fór og voru sýnilega örþreytt. Farangurinn báru þau í poka sem var tveggja manna tak og þremur lasburða bakpokum. Gamla konan bar stærsta pinkilinn og það virtist hin sjálfsagða skipan mála. Hún var eins og staðalmyndin af gamalli sveitakonu frá Balkanskaganum.

 

Við buðum þeim að fá sér sæti. Þau þáðu, enda þreytt og skítkalt. Skömmu síðar hafði málglaði pabbinn sig í að biðja um te, sem við redduðum. Og svo fór ég að hringja…

 

Rauði krossinn var fyrsti kostur. Starfsmaðurinn í útlendingamálunum var reyndar veikur heima, en vinnufélagar hans lofuðu að kanna hvaða leiðir væru færar í stöðunni og hringja aftur. Á meðan höfðum við samband við Hjálpræðisherinn og fengum staðfest að Herkastalinn sé í dag einungis rekinn sem farfuglaheimili á sumrin og að Hjálpræðisherinn hefði engin úrræði. Okkur var bent á að í kaffistofu Samhjálpar gæti fólkið fengið að borða, en hún væri reyndar við það að loka í dag.

 

Rauði krossinn hringdi aftur og staðfesti það sem mig grunaði svo sem, að Rúmenía væri á Evrópska efnahagssvæðinu og Rúmenar gætu því farið hér um frjálsir ferða sinna og reynt að finna sér vinnu, en hér væru þeir algjörlega á sína eigin ábyrgð. Ef til vill mætti þó reyna að tala við Alþjóðahúsið, bætti RKÍ-starfsmaðurinn við.

 

Starfsmaður Alþjóðahússins tók í sama streng, en benti mér þó á hina og þessa aðila sem reynandi væri að tala við. Þar var einkum um að ræða borgarstarfsmenn tengda Mannréttindaskrifstofu og úr félagsmálageira borgarinnar. – Milli símtala kom ungi maðurinn til mín og spurði mig vongóður hvort það væri ekki auðvelt að fá vinnu á Íslandi? Ég muldraði eitthvað flóttalega og sagðist þurfa að hringja meira.

 

Í Ráðhúsinu fékk ég sömu upplýsingar: Samhjálparkaffistofan væri opin að deginum til, þar gæti fólk fengið að borða – og líka á öðrum stöðum. Enginn sylti í hel á Íslandi, sem betur fer. Varðandi gistingu hefði borgin engin ráð. Ef barn hefði verið í hópnum hefði málið horft öðru vísi við, en þetta væru fullorðnir útlendingar sem yrðu að bera ábyrgð á sér sjálfir. Gistiskýlin fyrir útigangsfólkið væru kannski möguleiki, þó líklega yrði þeim vísað þaðan úr því að þau væru útlendingar – í það minnsta hefðu Reykvíkingar forgang að plássunum. Konan frá borginni spurði mig hvort þau ættu ekki einhverja peninga? Ég sagðist ekki vita það með vissu, en væri ekki bjartsýnn. Vonandi lumuðu þau á einhverjum aurum.

 

Enginn skyldi ætla að konan frá Mannréttindaskrifstofu borgarinnar hafi ekki haft samúð. Allir sem ég hafði rætt við í þessu símamaraþoni voru miður sín yfir sögunni, sem þau gerðu sér grein fyrir að gæti aldrei endað vel. Ég var orðinn svo niðurdreginn að konan aumkaði sig yfir mig og bauðst til að taka á móti okkur í anddyri Ráðhússins.

 

Við örkuðum af stað. Á leiðinni hélt ungi maðurinn áfram að spyrja mig með nokkrum áhyggjusvip hvort það væri ekki auðvelt að fá vinnu á Íslandi og komast í húsnæði? Ég varðist fregna en reyndi að spyrja út í hvort þau hefðu einhver tengsl á Íslandi, einhvern tengilið eða hver hefði sagt þeim að koma hingað? Hann sagði að þau þekktu ekkert til og væru nýkomin. Ég spurði hvort þau hefðu komið með ferjunni? Hann játaði því, en mig grunaði að hann skildi ekki spurninguna.

 

Í Ráðhúsinu var tekið á móti okkur. Borgarstarfsmaðurinn sýndi kort og byrjaði að benda á ódýr gistiheimili, en pabbinn dró fram þrjár útlenskar smámyntir og útskýrði að þetta væri allt þeirra fé. (Löng þögn.) Við starfsmaðurinn skiptumst á nokkrum orðum um hversu vonlaus staðan væri. Henni leið greinilega ömurlega, en benti svo sem réttilega á að fólk yrði að bera einhverja ábyrgð á sjálfu sér. Það væri ekki hægt að ana allslaus milli landa og vona það besta. Ég samsinnti, en benti á að ekki gætum við látið þau sofa úti í frostinu…

 

Ég stakk upp á að við prófuðum kaþólsku kirkjuna. „Þið eruð kaþólsk er það ekki?“ – spurði ég unga manninn. Hann kinkaði kolli, en hefði líklega sagst vera djöfladýrkandi ef það hefði hjálpað. Seinna sló ég því upp hvernig trúarbragðaskiptingin er í landinu. 85% Rúmena eru í Rétttrúnaðarkirkjunni, aðeins 5% eru kaþólikkar.

 

„Kirkjurnar, þær eru vanar að hjálpa fólki“ – sagði ungi maðurinn nokkrum sinnum og reyndi að vera bjartsýnn á leiðinni að Landakotskirkju. Seinna komst ég að því að fyrsti áfangastaður þeirra í Reykjavík hafði verið Hallgrímskirkja, þar sem þau höfðu fengið miðann með heimilisfangi Hjálpræðishersins.

 

„En er ekki skrifstofa fyrir innflytjendur sem vilja fá vinnu? Sem hjálpar þeim að fá vinnu og að komast í húsnæði fram að því?“ – spurði ungi maðurinn. Ég svaraði að það væri nú ekki alveg svo einfalt, fyrsta forgangsmál væri að koma þeim í einhverja gistingu fyrir nóttina. Á morgun væri svo 1. maí og allt lokað. Við þær fregnir varð pilturinn á svipinn eins og ég hefði kýlt hann í magann.

 

„En kirkjurnar, þær hjálpa fólki“, þuldi hann áfram til að róa sig. „Og þar fáum við kannski að borða. Við höfum ekki borðað í allan dag.“ – Ég stoppaði og bölvaði mér fyrir hugsunarleysið. Auðvitað voru þau að drepast úr hungri til viðbótar við að vera örmagna og áttavillt. Við beygðum inn Aðalstrætið og fórum í kjörbúðina þar. Keyptum brauð, ost, skyrdrykki og einhverja ávexti í fáránlega óskipulögðum innkaupaleiðangri þar sem ég benti á hluti nánast af handahófi og þau kinkuðu vandræðalega kolli við hverri uppástungu.

 

Leiðin upp á Landakotshæðina var löng, einkum fyrir gamla fólkið. Einhver athöfn, var nýbúin og síðustu kirkjugestirnir á leiðinni út. Ég hafði upp á organistanum og hann hljóp út um allt í leit að prestinum, sem gekk að lokum í flasið á mér og unga manninum. Eldra fólkið sat örmagna á kirkjubekkjunum á meðan.

 

Presturinn var þarna við annan mann. Hann var dálitla stund að skilja erindið. Ég talaði við hann til skiptis á íslensku og ensku. Öðrum þræði til að ungi maðurinn gæti fylgst með en einnig vegna þess að presturinn virtist ekki flugfær í íslenskunni.

 

Eftir því sem samtalið varð lengra, gerðist presturinn sorgmæddari á svipinn. Hann varð daprari og daprari, en gjóaði sífellt oftar augunum á klukkuna – var greinilega tímabundinn. Ég setti upp hvolpaaugun og grátbað nánast hvort það væri ekki einhver smuga, eitthvað afdrep, einhver sem hægt væri að tala við? Eða ef allt um þryti hvort það væri ekki einhver staður þar sem þau gætu hvílt sig og borðað matinn sinn? En presturinn varð bara raunamæddari og áhyggjufyllri.

 

Meðan á þessu samtali stóð sá ég vonina deyja í augum rúmenska piltsins. Við gengum til fólksins hans inn í kirkjunni og um leið og pabbinn sá svipinn á okkur greip hann um andlitið. Gamla fólkið var of dasað til að skilja hvað klukkan sló.

 

Ég rétti unga manninum kortið og áttaði mig um leið á að ég hafði aldrei kynnt mig og aldrei spurt hann að nafni. Hafði mig ekki í að gera það úr þessu. Inn á kortið teiknaði ég kaffistofu Samhjálpar með upplýsingum um að þar yrði hægt að matast að morgni. Ég krossaði við Aðventistakirkjuna í Þingholtunum sem langsóttan möguleika (og velti um leið fyrir mér kaldhæðninni í því að heiðinginn/trúleysinginn ég gripi til góðsemi kirkjudeilda sem síðasta hálmstrásins við slíkar aðstæður). Að lokum merkti ég inn Lögreglustöðina, þar sem hægt væri að fá gistingu ef um allt annað þryti.

 

Ég tók í höndina á unga manninum, umlaði einhverjar óskir um gott gengi og gekk svo út úr kirkjunni. Bölvaði sjálfum mér alla leiðina niður í Suðurgötu fyrir aumingjaskapinn – að hafa ekki getað gert eitthvað meira. Að hafa ekki reddað dýnum og sængum og komið þeim fyrir í stofunni… bara eitthvað meira!

 

Hringdi í Steinunni og bað hana um að sækja mig í hvelli. Var með grátstafinn í kverkunum og hún varð strax skíthrædd. Ég muldraði bara að það væri allt í lagi með mig – stóð svo og beið eftir farinu. Allan tímann beið ég eftir að sjá hvort Rúmenahópurinn minn myndi rogast með niður Túngötuna, en ég sá þau aldrei.

 

***

 

Fáeinum klukkutímum síðar var ég kominn upp í Bjórskóla – farinn að reyta af mér brandara um bjór og gantast við vinnustaðarhóp sem var kominn til að skemmta sér. Sýningin verður að halda áfram.

 

Ég get samt ekki hætt að hugsa um fólkið og í raun vona ég að ég muni aldrei hætta því alveg. Þá fyrst væri illa komið fyrir manni.

 

Hvað rekur fólk til þess að trúa sögum um að á Íslandi sé paradís fyrir allslausa útlendinga, sem fái húsnæði, uppihald og vinnu við það eitt að mæta á svæðið? Og ekki bara trúa sögunum, heldur leggja allt undir og halda til Íslands með aleiguna í nokkrum pinklum…

 

Hverju ætli þetta fólk hafi kostað til svo það kæmist hingað í leit að draumum sem engin innistæða reyndist fyrir? Tók maðurinn sem seldi þeim hugmyndina kannski drjúga þóknun í eigin vasa fyrir að útvega þeim farseðlana?

 

Og hvað gerist næst? Ætli þau hafi endað á lögreglustöðinni og í kjölfarið hafi eitthvert opinbert vald gengið í að koma þeim úr landi? Hírðust þau úti um nóttina eða komu sér inn í mannlaust hús, stigagang í fjölbýlishúsi eða annað slíkt? Munu þau reyna að þrauka hérna, t.d. með betli – og við fáum næst að lesa um skipulagða útgerð rúmönsku mafíunnar á atvinnubetlurum hér á landi?

 

Eða mun einhver stinga upp á að þau gefi sig fram við yfirvöld útlendingamála og segist vera ofsótt í heimalandinu – sígaunar til að mynda? Þá væru þau komin inn í tiltekið kerfi sem myndi hýsa þau og fæða uns þau yrðu send aftur úr landi. Þannig gætu stjórnendur útlendingamála sannfærst enn frekar um tilvist hælisleitendatúrismans ógurlega.

 

Væntanlega fæ ég aldrei að vita málalyktir og væntanlega hitti ég aldrei aftur strákinn sem ég gleymdi að spyrja að nafni, en horfði á missa vonina um nýtt og betra líf.

 

Helvítis djöfull.

Join the Conversation

25 Comments

 1. Mér vitandi er útlendingum ekki vísað frá gistiskýlunum, í það minnsta hafa erlendar konur gist i Konukoti, þar sem ég var að vinna, bæði stakar nætur og til lengri tíma. Veit ekki hvernig það er í gisiskýlinu fyrir karla, en í Konukoti hefur lítið sem ekkert reynt á forgang Reykvíkinga, því það er alltaf reynt að finna lausnir fyrir þær konur sem koma þangað.

 2. Þetta er hræðilegt bara, og mikið skil ég þig vel að líða illa. Og jafnvel skil ég að þú viljir ekki gleyma þessu. Fólkið getur ekkert til bragðs tekið.

 3. Óhugnanleg saga um Evrópu, hvaða hringi er þetta fólk búið að taka um álfuna frá Rúmeníu? Svo þetta: Mikið af vinnu á Íslandi er muldrað út á Balkanskaga. Fólk leggur af stað. Hvað svo?

 4. Takk fyrir þessa frásögn. Ég þekki þetta í gegnum mín störf, bæði frá Evrópu og Íslandi. Við einfaldlega búum illa hvað neyðarúrræði varðar og skilningur borgarbáknsins á vandamálinu er mjög lítill. Allar fjárveitingar þar miða við að allt sé fullnýtt alltaf en neyðarúrræði geta aldrei verið það (og eiga ekki að vera), þess vegna eru þau ekki til.
  Við getum að sjálfsögðu illa sett okkur í spor þessa fólks en ástandið í sumum löndum er þannig að ef þú lendir undir í lífinu er ill skárra að leggja undir sig ferðalag og eiga von en að vera um kyrrt og vita að þú átt enga.
  Blessi þig fyrir að reyna þitt besta xxx

 5. því miður er þetta daglegt brauð um alla Evrópu, fátækt fólk vonast eftir molum sem falla af borðum okkar ríka fólksins.

 6. Af hverju á að vorkenna þeim? Jú það er hrikalegt að þau eiga engan pening, jú það er hrikalegt að þau hafi ekkert. En af hverju á það að vera á okkar könnu að halda þeim uppi því þau höfðu gyllin drauma um Ísland?

  Ef við ætlum alltaf að hlaupa til allra þeirra sem flækjast hingað með vasana fulla af draumum um að fá húsnæði og vinnu þá lendum við í því sama og bretland. Þar sem er yfirflæði af innflytjendum sem lifa á kerfinu og fara ekki þaðan. Og ég veit vel að nú munuð þið sem grétuð sáran yfir þessu sja mig sem eitthvað illmenni. Það er ykkar mál. En ég skil ekki af hverju við eigum að hafa úrræði fyrir fólk sem kemur hingað til þess að lifa af okkur. Við eigum í fullu fangi með okkur sjálf. Ég vil frekar hjálpa heimilislausum íslendingum áður en ég fer að hjálpa rúmenum sem komu hingað. Er það rasismi, nei praktík. Af hverju að hugsa um aðra ef við getum ekki hugsað um okkur sjálf.

  Þeim hefði átt að vera sagt að hér væri litla vinnu að fá, að þeim muni ekki vera útvegað heimili og að þau ættu að koma sér aftur heim.

  Pislahöfundur gat ekki tekið einstaklingana með sér heim, hann gat ekki séð fyrir þeim og hugsað um þá af hverju á ríkið að gera það? Til þess að aðrir sem hefðu ekki geta hýst þetta fólk og hugsað um þetta fólk þurfi bara samt að borga fyrir þetta fólk? Og hvernig á aðláta fólk borga fyrir þau með sköttum sem eiga fara í „neyðarúrræði“ ? Með því að pína almenning til þess að blæða enn meiri hluta af innkomu sinni til þess að bjarga fólki sem kemur hingað í draum um paradís?

  Einnig hvernig komust þau hingað með engan aur? Er þessi saga ekki bara hreinn uppspuni til þess að sýna fram á hversu illa við erum að hugsa um draumsjúka innflytjendur? Einnig til að sýna hversu mikið ljúfmeni pistlahöfundur er?

 7. Gott hjartalag þá þér Stefán.
  Vesalings fólkið hefur líklega borgað aleiguna til einhvers sem plataði þau og taldi þeim trú um að sæluríkið væri á Íslandi. Hér væri öllu bjargað hjá hinni Norrænu velferðarþjóð.

  Fyrir 10 árum komu nokkrir Úkrainskir menn í vinnu til Íslands í gegnum atvinnumiðlun, sem reyndist vera Nígerískur svikahrappur. Þeir héldu að hér drypi smjör af hverju strái, en höfðu svo rangar upplýsingar um Ísland að þeir vildu fá mikinn pening fyrir litla vinnu og mörg fríðindi með. Héldu nefnilega að allir á Íslandi væri svo ríkir og þyrftu ekkert að hafa fyrir hlutunum.

  Saga Rúmenanna bendir til að þau hafi haft svipaðar upplýsingar um dýrðina, allt fullt af vinnu og enginn látinn mæla göturnar. Þó þetta sé mjög ýkt mynd af Íslandi þá segir hún samt sína sögu um að hér er velferðarsamfélag, alla vega nóg til að um það skapist sögur.

 8. Það eina sem má binda vonir við, samkvæmt minni reynslu, er að hugsanlega eru þau ekki eins blönk og þau láta. En við erum fáránlega úrræðalaus í þessum efnum, bæði ríki og borg.

 9. Ég vona að það sé rétt sem Svala bendir á að fólki sé ekki vísað frá gistiskýlunum. Ef svo er ekki legg ég hér í púkk með hvað væri hægt að gera í algjörri neyð – annars vegar að auglýsa eftir næturgistingu fyrir fólkið á FB og bland.is, hins vegar að leita til Íslendinga sem eru þátttakendur í Couch Surfing, þeir gætu hugsanlega boðið sófan í einhverjar nætur. Svo er brýnt að við höfum einhver úrræði – auðvitað hjálpum við fólki í nauðum, en ekki hvað. Þú átt þakklæti mitt og virðingu fyrir að gera það sem þú gast. Ef allt annað þrýtur er hægt að reyna að fá „social funding“ til að koma á neyðarúrræði, það eru a.m.k. nokkur slík vefsetur á internetinu.

 10. Thu hefdir att ad benda theim a fodur Timoteus i Russnesku retttrudnadarkirkjunni. Theirri kirkju tilheyra 97% rumena, thannig ad their hefdu sennilega fengid meiri skilning thar…

 11. Nafnlaus skoðun kastar fram góðum spurningum: Hví eigum við að hlaupa til þegar aðrir eiga það bágt?

  Svarið leynist reyndar í orðum hennar sjálfrar: „Ég vil frekar hjálpa heimilislausum íslendingum[sic.] áður en ég fer að hjálpa rúmenum[sic.] sem komu hingað.“ „Af hverju að hugsa um aðra ef við getum ekki hugsað um okkur sjálf.“

  Nú telur hún augljóslega okkur geta hugsað um „okkur sjálf“—okkur sem einstaklinga—og því rétt að hugsa um okkur sem samfélag. En einhvernvegin virðist henni hulið að á tenglsum hennar við Rúmena og Íslendinga er ekki eðlis- heldur stigsmunur. Það eitt að við eigum að hugsa fyrst um þá sem standa okkur næst þýðir ekki að við eigum ekki að hugsa neitt um þá sem standa fær. Sér í lagi þá sem komnir eru hingað til lands.

  Nú kann það vel að vera að Nafnlaus skoðun sé ekki rasisti. Þa vekur aftur á móti upp spurningar hví hún virðist viljugri til að halda uppi Íslendingum sem vilja „lifa á okkur“ en útlendingum.

  En hvað um það, eru það ekki eðlilegar áhyggjur að hér flæði útlendingar yfir allt ef við púkkum upp á þá? Við þetta er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi virðist skipta litlu máli að við sinnum fólki illa, það fær þessar grillur samt. Í öðru lagi eru innflytjendur enginn svakalegur baggi á samfélaginu.

  Nafnlaus skoðun tók Bretland sem dæmi en þar virðast innflytjendur gefa (ögn) meira til samfélagsins heldur en þeir taka.[1] Við ættum því kannski þvert á móti að hvetja útlendinga til að flytja hingað, jafnvel fólk utan ESB en það virðist hafa betra vinnusiðferði en þeir sem löndin nú byggja.[2]

  En hvernig komust þau hingað með engan aur? Nú veit ég það ekki, en rakst sjálfur á tvo unga Slava í lest á Ítalíu fyrir einhverjum árum. Við vorum allir í skammakróknum. Ég hafði álpast upp í ranga lest miðað við farmiðann sem ég hafði keypt en þeir vísvitandi laumað sér um borð.

  Við tókum tal saman og þeir sögðust vera í atvinnuleit (spurðu meðal annars eftir vinnu á Íslandi) enda ekkert að finna í heimalandinu (gott ef það var ekki Rúmenía). Frekar en að sitja heima, borandi í nefið ákváðu þeir að leggja land undir fót og leita gæfunnar. Ég hafði ekki vel mótaðar skoðanir um innflytjendur en eftir þetta spjall opnuðust augu mín fyrir því hversu harðduglegur og hugaður maður þarf að vera til að leggja upp í svona langferð.

  Áhugavert er einnig að þeim, líkt og Rúmenunum í greininni hans Stefáns, var mest umhugað um atvinnu frekar en gjafir.

  Það hvað Nafnlaus skoðun og skoðanasystkini hennar einblína mikið á sérhlífni innflytjenda segir kannski meira um þeirra eigið sálarlíf en raunverulegum hvötum innflytjenda.

  [1] http://migrationobservatory.ox.ac.uk/briefings/fiscal-impact-immigration-uk
  [2] http://www.guardian.co.uk/uk/2013/mar/28/immigrants-eu-benefits-welfare-magnet

 12. Meitluð frásögn. Skil að ástand fólksins renni þér til rifja en ásakaðu sjálfan þig þó ekki fyrir röng viðbrögð. Raunar gerðirðu meira en 98% venjulegs fólks hefðu gert.

  Ég spyr eins og aðrir, hvernig má það vera að íbúar Balkanskaga láti sér detta í hug að á Íslandi drjúpi smjör af hverju strái? Fréttir af hruninu náðu nægilega langt til að 11 ára gömul stúlka í Pakistan, sem ég greiði mat og skólagöngu fyrir gegnum ABC barnahjálp, sá ástæðu til að biðja Íslendingum allrar blessunar eftir þessa helför, í bréfi sem hún skrifaði mér 2009.

  Maður skilur frekar að Rúmenar flykkist hingað til Noregs sem þeir gera sannarlega enda eru rúmenskir betlarar í miðbæ Stavanger löngu orðnir þrætuepli í fjölmiðlum staðarins og mikið rætt um að fara að stemma stigu við þeim. Þar er heldur ekki á ferð mjög heiðarlegt fólk, án þess að ég ætli að vera með fordóma, því það er oft ágætlega til fara, gjarnan með heilu pizzurnar í kassa og rjúkandi kaffi latte frá næsta kaffihúsi í bolla (latte hér kostar frá 800 íslenskum krónum) og dónalega ágengt við vegfarendur. Maður sér strax að þarna eru fagmenn í greininni, atvinnubetlarar sem ætla sér allt annað en að vinna sig upp úr betlinu. Þeir eru í framtíðarstarfinu. Fólkið deilir hástöfum um bestu hornin og staðina og til að bíta höfuðið af skömminni er það svo (í sumum tilfellum) sótt á einkabílum að loknu dagsverkinu. Þetta hleypir illu blóði í suma…ekki mig, mér er nokk sama, en ég skil sjónarmiðið.

  Þú hefur með þessu án efa verið ein besta landkynning sem Ísland og fjórmenningarnir gætu átt von á, Stefán, enda heiðurmaður fram í fingurgóma eins og ég þekki þig. Og frásögnin góð aflestrar eins og annað á blogginu hjá þér. Takk fyrir það.

 13. Hrikalegt. Minnir á Íslendingana sem fóru til Kanada þegar hér var hallæri og hungur í jafnvel enn verra ástand. Spor sem við myndum ekki vilja vera í og því miður er ekki hægt að taka við mörgum sem svona er ástatt um. En eitthvað er hægt að gera samt eða hvað? Hvar er mannúðin best?

 14. Hvað sem öllum skoðunum líður á því hverjum við eigum að hjálpa og hverjum ekki, þá er þetta fólk staðreynd og á í vanda hér og nú, vanda sem krefst úrlausnar en ekki skoðana. Um neyðarástand er að ræða: blankt og svangt fólk sem á í engin hús að venda. Við verðum að geta brugðist við slíkum aðstæðum með tímabundnum neyðarúrræðum. Borgin (sveitarfélög) verða að geta boðið upp á tímabundið neyðarathvarf fyrir fólk á meðan aðstæður þess eru kannaðar í samstarfi við Útlendingastofnun. Trúfélög og kirkjur gætu sameinast um að koma að starfi slíkra neyðarathvarfa í samvinnu við hið opinbera. Við megum ekki komast í það ástand að okkur standi á sama um að náungi okkar sé á götunni – jafnvel þótt hann sé erlendur.

 15. Takk fyrir að benda á svo ljótan skít í brók samfélagsins á Íslandi. Það er nú ekki svo langt síðan að Íslendingar flúðu til Danmerkur og fengu auðveldan aðgang að Bísanum í þrjá mánuði til að geta komið undir sig fótunum. Ég var ein af þeim sem flúðu til DK á sínum tíma vegna efnahagsþrenginga sem áttu sér stað árin 1995 hér á landi þótt það hafi ekki verið á sama level og það sem átti sér stað eftir hrun. Það var tekið vel á móti mér og minni litlu fjölskyldu. Það þótti sjálfsagt að deila auðnum sem landið átti þótt það væri með útlendingum. Áður en langt um leið vorum við komin með vinnu bæði tvö, barnið fékk inn á leikskóla og við keyptum okkur húsnæði. Við vorum orðnir þáttakendur í samfélagi sem var mjög mannvænt og fjölskylduvænt. Því skyldum við ekki hafa einhverjar lausnir fyrir fólk sem vill freista gæfunnar hér á landi ef vonleysið ríkir i þeirra. Ég nefnilega held að þótt Íslendingar séu að ganga í gegnum sögulegar þrengingar og það séu margir sem eiga ekki til hnífs og skeiðar þá mælum við ekki ríkidæmi okkar í peningum heldur í mannauðnum. Hann er líka að finna í erlendu fólki. Sumir kunna bara ekki að deila með öðrum líkt og kemur fram í einu kommentinu og það er kanski helsta ástæða þess að efnahagsþrengingarnar séu að ganga að okkur dauðum. Græðgin sem tröllreið hérna yfir landið hefði kanski átt að kenna okkur öllum hvernig við eigum að forgangsraða. Það er nóg til af peningum í þessu landi og örugglega nóg til handa þeim sem eru það hugrakkir að rífa sig upp og koma hingað. Ef þú átt hundrað kall og skiptir við einhvern og færð annan hundrað kall, þá áttu bara hundrað kall. Ef þú átt hugmynd og skiptist á hugmyndinni við aðra manneskju þá áttu í lok dags tvær hugmyndir. Svo nú spyr ég hvort er betra?? Opnum fyrir útlendingum og við verðum ríkari fyrir vikið. By the way þá las ég ekki úr þessari grein að þessi fjölskylda ætlaði að lifa á okkar skattfé heldur að væru þau tilbúin að vinna fyrir sér hvað sem það kostaði.

 16. Tilfinningaríkur pistill.

  Ég er samt hissa á að þú hafir ekki boðið þeim að búa hjá þér til að byrja með. Ef þú hefðir aðstöðu til þess.

  Að sjá von brotna í augum einhvers hlýtur að vera nöturleg lífsreynsla. Vona að þau hafi fengið einhverja aðstoð eftir að þú skildir við þau.

 17. Ég sá þetta fólk fyrir utan Bónus á Laugaveginum í gær eða gömlu konuna og eldri mann sem spilaði á harmonikku sem sé til að fá peninga. Gamla konan hýrðist á bekknum þar sem oft sitja ölvaðir Pólverjar á daginn. Voru ekki 4-5 Rúmenskir harmonikkuleikarar reknir úr landi fyrir betl fyrir 1-3 árum síðan? Þetta er sorglegt. Það streyma inn Rúmenar til Bretlands og stjórnvöld eru ráðalaus þar. Ég sá nokkra Rúmenska harmonikkuleikara á Spáni nýlega þeir virtust hafa það nokkuð gott voru á bíl a.m.k. En þetta er mjög sorglegt og erfitt því menning þeirra er svo ólík okkar.

 18. Þetta er mögnuð lesning. Og áminning fyrir okkur öll. Auðvitað eiga að vera til staðar neyðarúrræði sem hjálpa fólki í raunverulegri neyð. Það er heldur ekkert skrýtið að þetta vesalings fólk líti til Íslands eftir öryggi og hamingju. Farið á YouTube og sláið inn t.d. 10 best places eða happiest places eða friendly places. Ísland er iðulega í fyrsta sæti. Og þessi myndbönd fá áhorf. Og ég hvet alla til að lesa bókina „Blóðugur blekkingaleikur“ eftir yfirmann Rúmensku leyniþjónustunnar „Securitade“, Ion Mihai Pacepa. Almenna Bókafélagið gaf hana út árið 1990. Lesið þessa bók, skoðið ástandið í Rúmeníu í dag og segið mér svo hvort að þarna sé ekki fólk sem þarfnast hjálpar og verndar frá glæpsamlegu stjórnmálakerfi, kúgun og stórfelldu auðlindaráni. Lesið t.d. hvað Rúmeninn „Mircea Goia“ segir um pólitíska ástandið og sögu þess.

  http://www.quora.com/Romania/Why-did-the-President-of-Romania-just-get-impeached

  Eða um arð og auðlindaránið sem þar á sér stað.

  http://raoulpop.com/2011/09/01/the-pillaging-of-romanias-natural-resources/

  Þið getið fengið smá innsýn inn í „Securitade“ hér.

  andriki.is/post/11059098040

  Það er ekki svo langt síðan „Ceausescu“ var steypt af stóli. Öfgafyllsta dæmi um marxisma sem heimsbyggðin hefur áður séð. Og ég get lofað ykkur því að fólkið í þessari ólánsömu fjölskyldu getur sagt ykkur frá hlutum og atburðum sem fá hárin til að rísa á höfðum ykkar. Lesið bókina og þið sjáið að óþverrinn „Ceausescu“ skapaði ófreskju sem, þegar bókin kom út, hrundi. Man einhver eftir Kleifarvatns málinu í denn? Málið er það að mesta njósnanet sem veröldin hefur áður séð dró bara að sér fálmarana og fór í dvala. En ófreskan rumskar í dag. Kerfið var þegar til staðar, það þurfti bara að ræsa það. Yfirtaka spilltra stjórnvalda á atvinnu og einkageiranum er í algleymi í Rúmeníu í dag. Evrópusambandið sem hefur verið duglegt að skipta sér af pólitískum málum Ungverjalands (þar eru róttæk hægriöfl í mikilli ásókn í dag (þökk sé þeim afskiftum)) en hafa látið Rúmeníu nánast afskiptalaus (þar sem róttæk vinstri öfl ráða enn öllu (þökk sé afskiptaleysi EU)). Ég trúi því ekki að þessar moldríku pólitísku mafíur séu svo fátækar að það þurfi að senda út atvinnu betlara til að hirða hundraðkalla og fimmhundruðkalla hér og þar. Nei… Kynnið ykkur þessi mál, lesið bókina, skoðið Rúmeníu nútímans og segið mér svo hvort að ‘þið’ væruð til í að búa í Rúmeníu í dag. Neyð þessarar fjölskyldu var og er raunveruleg.

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *