Fylkir heima: 2/22

Af hverju er svona fáránlega mikill munur á að gera 1:1 jafntefli þar sem liðið manns kemst yfir eða þegar liðið manns jafnar? Ergileg niðurstaða á Laugardalsvelli í kvöld, en svo sem ekki ósanngjörn. Og fyrir mótið hefði maður svo sem alveg sætt sig við fjögur stig eftir tvo fyrstu leikina.

Fyrri hálfleikur var ekki burðugur. Sterkur vindstrengur frá norðri sem Framararnir höfðu í bakið. Í eitt skiptið reyndi leikmaður Fram að senda knöttinn aftur fyrir eigið mark með hárri og fastri spyrnu, en boltinn fauk í fallegum boga og hélst inni á vellinum. Annað var eftir þessu. Bæði lið reyndu að nota langar sendingar sem virkuðu ekki rasskat fyrr en aðeins fór að lægja rétt fyrir hlé.

Stundum tóku Framarar boltann niður og tókst þá að sækja af einhverju viti. Náðu meira að segja einu alvöru færi og 2-3 hálffærum. Fylkismenn höfðu hins vegar þá taktík eina að bíða eftir að einhver Framarinn gerði mistök og vona að boltinn myndi þá hrökkva til Tryggva Guðmundssonar sem gæti þá gert einhverjar kúnstir.

Seinni hálfleikurinn byrjaði á sömu nótum. Framararnir voru alltaf líklegri. Fylkir átti raunar ekki skot á rammann fyrstu 70 mínúturnar. Kristinn Ingi kom inná fyrir Hauk litla (Haukur, Almarr og Lennon mynda fáránlega lágvaxna framlínu) og nánast strax jókst sóknarþunginn. Kristinn og Lennon spændu sig í gegnum Fylkisvörnina, 1:0.

Um leið og Fylkismenn tóku miðjuna sáu allir í stúkunni að Framarar ætluðu að pakka í vörn og eftir örfáar sekúndur fékk Fylkir fyrsta góða færið, þar sem Ögmundur varði meistaralega. Næstu fimmtán mínúturnar sóttu Árbæingar og Framvörnin sem hafði virst pollróleg allan tímann fór á taugum. Markið hlaut að koma og það gerðist á 85. mínútu, 1:1.

Við jöfnunarmarkið byrjuðu Framarar á ný og líklega hefði Kristinn Ingi átt að klára leikinn á lokamínútunni en ákvað að skjóta ekki sjálfur heldur reyna að senda á Lennon sem var líklega rangstæður. Allir frekar súrir í leikslok, en niðurstaðan svo sem ekki óréttlát.

Hewson er í betra formi en fyrri tímabil. Lennon átti nokkra góða smáspretti. Almarr barðist vel og telst líklega maður leiksins. Vonandi verða þó ekki margir svona slappir leikir í sumar.