Hreint út sagt

Vef-Þjóðviljinn er um margt ágætt vefrit. Fyrir það fyrsta hlýt ég, sem fyrrum ritnefndarfulltrúi í vefriti sem þraut örendi, að játa aðdáun mína á seiglunni og úthaldinu. Í öðru lagi á Vef-Þjóðviljinn það til að segja skýrt hluti sem aðrir vefja inn í orðskrúð og frasa. Þessi færsla er gott dæmi um það.

Einn tískufrasinn í síðustu kosningabaráttu var krafan um að „einfalda skattkerfið“. Sjálfstæðisflokkurinn veifaði þessu baráttumáli mjög – enda eðlilegt þar sem hann er hægriflokkur. Framsóknarflokkurinn talaði á sömu nótum, þótt reyndar vefðist ekki fyrir honum að slá á sama tíma fram hugmyndum sem gengju í þveröfuga átt, s.s. að skilja á milli barnafata og fullorðinsfata í skattlagningu – sem er skólabókardæmi um hvernig auka má flækjustig í skattkerfinu. (Hm, misvísandi kosningaloforð hjá Framsókn… hver hefði trúað því?)

Björt framtíð stökk á vagninn. Svo sem skiljanlega, hvernig gat flokkur sem hafði þá helstu pólitísku hugmyndafræði að vilja „minna vesen“ gert annað? Og Píratarnir voru á sama máli. Nákvæmlega hvers vegna er ekki alveg ljóst. Líklega samt vegna þess að í hugum sumra eru hugtökin „flókið“ og „leynilegt“ nánast samheiti og Píratarnir eru jú á móti leyndarmálum.

VG tók ekki þátt í þessum kór og kratarnir eiginlega ekki heldur – enda áttu þeir tvo síðustu fjármálaráðherra. Nýja formanninum leið samt ekki vel með það. Samfylkingin vill jú viðhalda þeirri sjálfsmynd að hún sé nútímalegur jafnaðarmannaflokkur og hvað er nútímalegra en einföld og straumlínulöguð kerfi? – Um litlu framboðin þarf fátt að segja. Þau kinkuðu þó flest gáfulega kolli þegar talið barst að ægilega flókna skattkerfinu.

Greinin í Vef-Þjóðviljanum útskýrir hins vegar mætavel um hvað málið snýst þegar kemur að virðisaukaskatti. Einfalda skattkerfið neglir niður fasta álagningarprósentu og lætur hana gilda á línuna. Sama prósenta er tekin af Hummer-jeppanum frá bílaumboðinu eða Hummus-bakkanum í kjörbúðinni. Allri tilfinningasemi er vikið til hliðar. Við skattleggjum bækur jafnt og topplyklasett í stað þess að hlusta á eitthvað væl í rithöfundum og bókaútgefendum um að mikilvægt sé að ýta undir lestur. Hasarinn í þinglok, þar sem allt fór á hliðina vegna þess að smygla átti í gegn breytingu sem hefði hækkað vörugjöld á getnaðarvarnir hefði orðið óþörf: smokkar eða sokkar – allt í sama skattþrep.

Það er fullkomlega rökrétt að Vef-Þjóðviljinn kalli eftir svona skattkerfi. Þetta er hægrisinnað vefrit. Þeim til hróss reynir höfundur ekki einu sinni að reikna sig að lægri skatttekjum fyrir ríkissjóð. Fjármálaráðherra fær nákvæmlega það sama í sinn hlut. Munurinn liggur bara í dreifingu byrðanna. Þeir sem kaupa sér bíl borga minna. Þeir sem kaupa sér í matinn (eða bækur og smokka ef út í það er farið) borga meira. Það er í sjálfu sér ekkert rangt við það. Það er bara önnur pólitísk sýn sem liggur þar að baki.

Ég skil Vef-Þjóðviljann fullkomlega þegar hann heimtar einfaldara skattkerfi. Hann aðhyllist pólitík sem er á móti því að beita skattkerfinu til að ýta undir félagslegan jöfnuð. Skringilegra finnst mér þegar fólk sem telur sig félagshyggjusinnað er til í að taka undir svona hugmyndir – af því að hitt sé svo mikið vesen eða ekki nógu kúl.