Óskalisti bikarmeistarans

Ég viðurkenni fúslega að ég er sökker fyrir bikarkeppninni í fótbolta – einkum fyrstu umferðunum. Held að þetta sé arfur frá þeim tíma þegar ég var 6-7 ára og vissi ekkert merkilegra en að þröngva mér inn á leiki í 4ðu deildinni eða fyrstu umferðunum í bikarnum á Melavellinum. Klöngraðist yfir girðinguna og klístraði tjöru í fötin mín – á leiki þar sem var ekki einu sinni rukkað inn.

 

Afstaða mín til bikarkeppninnar er líka svipuð og hjá fólki sem „safnar löndum“ og merkir í huganum inn á kort öll lönd heimsins sem það hefur komið til. Ég var svona með sveitarfélög á Íslandi (og er eiginlega ennþá) og í bikarkeppninni finnst mér það ótvíræður kostur ef Framararnir geta bætt „nýju“ liði í safnið. (Þó með þeim fyrirvara að það er hálfgert frat að mæta liði frá hinum enda landsins á útivelli og missa af öllu saman.

 

Út frá þessum forsendum fylgist ég spenntur með fyrstu bikarumferðunum og bý svo til óskalista yfir lið sem myndi vilja sjá Fram mæta í næstu umferð. Hann er eitthvað á þessa leið:

 

i) Magni (heima). Sigur Magna frá Grenivík á KA eru óvæntustu úrslit ársins. Magni er líka félag sem hefur haldið sínu striki og tekið þátt á Íslandsmóti frá því að ég man eftir mér og aldrei tekið þátt í einhverjum sambræðingsliðum. Reyndar hef ég ekki hugmynd um hversu „grenvískt“ lið Magni er í raun og veru. Það getur allt eins verið að þetta sé í raun Akureyrarklúbbur sem fái að nota nafnið og kennitöluna í dag. En Fram : Magni á Laugardalsvelli væri toppurinn.

 

ii) Þróttur Vogum (úti). Ég held að ég hafi verið farinn að nálgast tvítugt þegar ég fór fyrst í þorpið Voga á Vatnsleysuströnd – Mekka ídýfugerðar á Íslandi. Samt hafði maður keyrt þarna framhjá milljón sinnum. Segi ekki að Vogar hafi staðið undir væntingum sem unaðreitur í auðninni. Varð samt glaður þegar ég frétti að staðurinn stæði undir fótboltaliði. Þangað væri gaman að fara í næstu umferð.

 

iii) Álftanes (úti). Ég hef aldrei séð fótboltaleik á Álftanesi og líklega best að drífa sig áður en staðurinn breytist endanlega í Garðabæjarúthverfi. Svo þekki ég allnokkra Álftnesinga sem ég gæti heimsótt í leiðinni. Það er ekki eins og neitt annað reki mann alla leiðina þangað úteftir. Er ekki örugglega þríbreiður vegur um hraunið?

 

iv) Ármann (heima). Reyndar er þetta ekki „alvöru“ Ármannslið, heldur strákar úr utandeildinni sem fengu nafnið lánað til að geta skráð sig í bikarkeppnina. En það breytir því ekki að Ármann er félag sem Frömurum hefur aldrei auðnast á mæta í KSÍ-móti, bara í Reykjavíkurmótinu. Það er þeim mun meiri synd í ljósi þess að knattspyrnudeild Ármanns var á sínum tíma stofnuð af Frömurum sem fóru í tímabundna fýlu út Fram. Steinn Guðmundsson var þjálfari á gullaldarárum Ármanns í fótboltanum og nokkrir öflugir Framarar stigu fyrstu spor sín í yngstu flokkum Ármanns, s.s. Friðrik Friðriksson markvörður.

 

v) Sindri, Höttur eða Tindastóll (heima). Eftir því sem ég kemst næst hefur Fram ekki mætt þessum liðum í bikarkeppn KSÍ. Ég verð þá leiðréttur í athugasemdakerfinu ef ég er að bulla. Alltaf gaman að ná að haka við nýjan mótherja, en ekkert af þessu eru þó viðureignir sem kveikja sértaklega í manni.

 

vi) KV (heima). Frændur mínir í KV falla klárlega undir skilgreininguna: „lið sem Framarar hafa ekki spilað við í Íslandsmóti eða bikarkeppni“. Samt hneigist ég til að setja lið þeirra í annan flokk en félögin sem nefnd eru hér að ofan. Þetta er hálfgerður dótturklúbbur KR og stigsmunur en ekki eðlismunur á þeim og vinaklúbbum sem heita fábjánanöfnum á borð við Stál-úlfur og Vatnaliljurnar eða hvað þetta nú heitir allt saman.

 

vii) Valur (heima). Það er alltaf gaman.