Ræðan

Þá er það orðið opinbert! Miðvikudaginn 22. maí ætla ég að halda fyrirlestur og hann ekki stuttan. Tilefnið er 75 ára afmæli Svals úr Svals og Vals-bókunum, en jafnframt er ég að láta gamlan draum rætast.

Þegar ég var í MR fyrir hundrað árum síðan lenti Málfundafélagið Framtíðin í fjárkröggum. Til að bæta úr því hafði Kristján Guy Burgess (aðstoðarmaður utanríkisráðherra og tengdasonur VG) frumkvæði að því að skipuleggja „mælsku-maraþon“. Það virkaði eins og þegar krakkarnir í sundfélögunum synda boðsund í heilan sólarhring og vinir og ættingjar gefa tíkall á kílómetra, nema þarna vorum við nokkur sem tengdumst málfundafélaginu sem skiptum á okkur að þruma í pontu í marga, marga klukkutíma. Maraþonið fór fram í Hinu húsinu, sem þá var í Þórscafé-húsinu.

Í raun vorum við alltof mörg. Hver um sig þurfti varla að tala nema nema í klukkutíma í allt, nema Daníel Freyr Jónsson forseti Framtíðarinnar – hann tók stærstan hluta næturvaktarinnar. Meðan á þessu stóð kviknaði sú hugmynd í kollinum á mér að gaman væri að reyna hversu langa ræðu ég gæti flutt. En í tuttugu ár gafst ekki átylla til að hrinda henni í framkvæmd.

En hversu langt er nógu langt? Hverjar eru lengstu íslensku ræðurnar? Þar er í stutt í hvers kyns skilgreiningarvanda.

Eflaust má finna dæmi um maraþonupplestra. Hvað ætli heildarlestur á Passíusálmunum taki langan tíma? Er það ræða?

Lokaræður saksóknara og verjenda í dómsmálum eru líka ógnarlangar. Gott ef lokaræðan í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu var ekki 17 klukkutímar, en slíkar ræður eru fluttar í litlum bútum yfir nokkurra daga tímabil.

Líklega hugsa flestir um Alþingismenn í þessu sambandi. Jóhanna Sigurðardóttir talaði í 10 klst. og 8 mínútur um húsnæðiskerfið í ræðu á þingi árið 1998. Ætli það sé ekki besta viðmiðunin. Jóhanna tók sér þó hins vegar bæði hádegis- og kvöldverðarhlé, sem sumir myndu telja hálfgert svindl inni í miðri ræðu. Sama gildir um aðrar langar þingræður, þær voru fluttar með hléum og stundum fóru menn heim og lögðu sig á milli.

Í metræðu Jóhönnu, var lengsti samfelldi kaflinn rétt rúmlega 5 klst. og 30 mínútur án þess að tekið væri hlé á milli eða hlaupið á klósettið eins og Valdimar Leó Friðriksson gerði í frægri málþófsræðu. Fimm og hálfur tími í samfelldri ræðu er því klárlega eitthvað til að miða við líka.

En hvernig eru alþjóðlegu reglurnar? Heimsmetabók Guinness er með mjög nákvæma staðla um svona ræður. Samkvæmt þeim er ræðumanni heimilt að matast meðan á máli hans stendur, en þó þannig að það trufli ekki ryþmann í ræðunni. Einnig er ræðumanni heimilt að hvílast í 5 mínútur á hverri klukkustund – sem er nú dágóð hvíld.

Ég er að velta því fyrir mér að reyna að ná meira en 5 og hálfum tíma af órofinni ræðu, en skipta að því loknu yfir í Guinness-reglurnar. Hversu lengi ég endist á eftir að koma í ljós. Ég hef ekki hugmynd um hvað gerist fyrst: hvort röddin bregðist, ég örmagnist af þreytu, fái hausverk af öllu blaðrinu eða skrokkurinn mótmæli því að standa svona lengi upp í endann. A.m.k. er ljóst að efniviðurinn er nægur. Það er hægt að tala endalaust um Sval og Val.