Ég ætla að stofna ráðgjafarverkfræðifyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnum knattspyrnuleikvanga. Samskipti mín við kúnnana verða svona:
Stefán: „Og þið hafið hugsað ykkur að láta stúkuna snúa svona?“
Fulltrúar íþróttafélags: „Já, hún yrði hérna meðfram þessari hlið á vellinum.“
Stefán: „Og þegar sólin er lágt á lofti á sumarkvöldum á Íslandi, hvar er hún þá gagnvart áhorfendum í stúkunni.“
Fulltrúar íþróttafélags: „Hérna! Beint í augun… ahh, þú meinar…“
Stefán: „Já. Það verða milljón krónur, takk.“
Það hefði verið mjög gott ef þetta spjall hefði átt sér stað áður en Vodafonevöllurinn var byggður. (Já, ég kalla þetta Vodafonevöllinn, menn sem selja nafnið á vellinum sínum eiga ekki annað skilið en hann sé kallaður kjánanöfnum.) Mögulega hefði ég getað mætt með derhúfu, en er of tískumeðvitaður til þess. Kannski brýt ég samt odd af oflæti mínu fyrir bikarleikinn í lok mánaðarins.
Þetta var skrítinn leikur. Framarar áttu fyrri hálfleikinn með húð og hári. Valsmenn voru úti á þekju, grófir og pirraðir. Viktor Bjarki og Haukur Baldvins voru komnir á bekkinn frá því í síðasta leik og sú breyting kim ágætlega út. Aulagangur hjá einum Valsvarnarmanninum varð til þess að Steven Lennon komst inn fyrir og lagði upp færi fyrir Hólmbert Aron sem skoraði ágætismark. Fórum sáttir inn í hléið, en þó nagaði það mann aðeins að hafa ekki náð að skora nema eitt mark.
Tvö gjörólík lið komu inn á völlinn í seinni hálfleik. Valsmenn voru miklu öflugari frá byrjun og skoruðu á fyrstu mínútunum með því að taka aukaspyrnu hratt meðan varnarmenn Fram sváfu á verðinum. Frömurum tókst ekki að ná aftur valdi á miðjunni og reyndu kýlingar fram sem litlu skiluðu. Kristinn Ingi komst þó í eitt afbragðsfæri, en líkt og í Fylkisleiknum virðist hann ragur við að skjóta á markið heldur reynir að hlaupa með boltann í netið. Hann vantar talsvert í að ná formi síðasta árs.
Valur hefði með réttu átt að skora annað mark. Fengu frábært tækifæri til þess þegar boltinn fór í höndina á Lowing en sá rauðklæddi þrumaði í stöngina. Nokkrum mínútum síðar sýndist mér boltinn fara í hönd Valsara í hinum vítateignum en ekkert dæmt.
Eins og það hefði nú verið gaman að vinna á símafyrirtækisvellinum, voru þessi úrslit sanngjörn. 5 stig eftir þrjá leiki er ekki slæmt og fyrsta tapið lætur sem betur fer bíða eftir sér. Maður leiksins? Tjah, Ögmundur í markinu fær nafnbótina að þessu sinni, þrátt fyrir óvenjuslakar markspyrnur í kvöld.