Stefanía Afturhaldsdóttir

Ein fyrirsjáanlegasta umræðan í kringum hverja stjórnarmyndun er: „hvað á stjórnin svo að heita?“ Og við tekur frekar súr leikur þar sem stjórnarliðar reyna að festa í sessi orð eins og „stjórn atorku og heiðarleika“ en sjórnarandstæðingarnir stinga upp á „fábjána- og lygamarðastjórnin“.

Þessi umræða hefur skilað sér inn á íslensku Wikipediuna, þar sem rætt er um hvort rétt sé að vísa til fyrri ríkisstjórna með viðurnefnum sínum eða kenna bara við forsætisráðherrann. Dæmi um þetta er Ráðuneyti Stefáns Jóhanns Stefánssonar. Stjórnin var við völd frá því snemma árs 1947 og framundir árslok 1949.

Það eru almennt viðtekin sannindi að þessi stjórn hafi verið kölluð Stefanía. Sjálfur hef ég vafalítið samið spurningar fyrir spurningakeppnir þar sem Stefaníu-viðurnefnið kemur við sögu. En er málið svo augljóst?

Ég beitti timarit.is-prófinu á nafnið „Stefanía“ og bjóst sannast sagna við að fá upp ívið fleiri færslur á valdatíma stjórnarinnar en árin í kring. Svo var ekki. Nær allar færslurnar tengdust konum sem báru Stefaníu-nafnið, einkum Stefaníu Guðmundsdóttur leikkonu. Miðjuárið 1948 kemur orðið varla fyrir í póitíska samhenginu. En hægt er að finna dæmi frá 1947 og 1949.

Ingi R. Helgason skrifar reiðilegan pistil í blað róttækra stúdenta og talar um ríkisstjórnina „Stefaníu Afturhaldsdóttur“. Þjóðviljinn og Þjóðvörn víkja að stjórninni sem Stefaníu í 2-3 skipti á árinu 1949, þar sem síðarnefnda blaðið segir að almenningur kalli stjórnina þessu nafni.

Morgunblaðið, Alþýðublaðið og Tíminn tala aldrei um ríkisstjórnina sem Stefaníu. Orðið kemur tvisvar fyrir í Vísi. Í annað skiptið í aðsendri lausavísu og hins vegar í leiðara árið 1949 þar sem orðið er í gæsalöppum og höfundur sér ástæðu til að útskýra við hvað sé átt. Og það voru nú öll ósköpin. Hið víðkunna viðurnefni birtist nær aldrei á prenti, nema þá helst í örfáum greinum eftir hatrömmustu andstæðinga stjórnarinnar.

Og þó… það var reyndar eitt blað til viðbótar þar sem Stefaníu-nafnið var notað. Grínblaðið Spegillinn vísaði í allnokkur skipti til ríkisstjórnarinnar sem Stefaníu. Þar gæti hundurinn verið grafinn.

Nú þarf varfærinn sagnfræðingur að reka varnagla. Það kann vel að vera að allur almenningur hafi talað um stjórn Stefáns Jóhanns sem Stefanínu, þótt flokksblöð stjórnarflokkanna hafi ekki viljað nota svo óformlegt gælunafn. Það að orðið sé helst notað sem skammarheiti í þau fáu skipti sem það ratar á prent, þarf heldur ekki að útiloka að það hafi líka verið notað í jákvæðari merkingu. Á hitt ber hins vegar að líta að Spegillinn var á löngum tímum betri mælikvarði á almennar pólitískar umræður í íslensku samfélagi en hefðbundnu dagblöðin.

Hafi almenningur talað um ríkisstjórnina 1947-49 sem Stefaníu, er í það minnsta ljóst að það var ekki runnið undan rifjum stjórnarinnar sjálfrar. Viðurnefnið hefur staðið og fallið með vinsældum Spegilsins. Þótti þetta nógu hnyttið og meðfærilegt gælunafn? Ég leyfi mér að efast um útbreiðsluna.

En hver er lærdómurinn fyrir pólitíkusa samtímans? Jú, það hvaða viðurnefni ríkisstjórnir fá í sögubókum framtíðarinnar þarf alls ekki að hanga saman við það hvað þær voru kallaðar í lifanda lífi. Fæstar ríkisstjórnir heita neitt ef út í það er farið. Og hins vegar – þá er ólíklegt að pr-mennirnir í stjórnarflokkunum eða kjaftaskúmarnir í stjórnarandstöðunni muni fá að velja nafnið. Best er að bíða bara rólegur og sjá hvað Spaugstofunni dettur í hug. Hún vinnur alltaf á endanum.