Framkvæmdin

Þórir Hrafn vinur minn hringdi í mig í dag til að óska mér til hamingju með maraþonræðuna. Gerði það þó með þeim orðum að hann væri ekki alveg viss um að egóið mitt hefði endilega þurft á Íslandsmeti að halda. Líklega hárrétt stöðumat.

Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með netumræðum um stóra Svals og Vals-fyrirlesturinn. Þó er merkilegt hversu margir telja markverðast að ég hafi ekki þurft að pissa í nokkra klukkutíma. Er fólk almennt símígandi?

Ég vildi að ég gæti núna sett mig í gáfulegar stellingar og talað fjálglega um hvernig best sé að undirbúa sig fyrir 13 og 1/2 klukkutíma ræðu: hvaða æfingar eigi að gera, hvernig liðka skuli raddböndin, klæða sig eða nærast. En veruleikinn býður ekki alveg upp á það.

Í fyrsta lagi álpaðist ég á fótboltaleik í kulda og roki upp á Skaga kvöldið fyrir ræðuna og hefði hæglega getað nælt mér í kvef. Ég vaknaði klukkan sjö um morguninn og fór á klósettið eins og vanalega, klæddi mig í hversdagsfötin – þar með talið Ecco-götuskóna mína – því ég á enga mjúka íþróttaskó eins og mælt er með fyrir svona langtímastöður.

Ég hafði einsett mér að tala í striklotu í sex klukkutíma, en eftir það myndi ég stoppa til að taka salernispásur og til að gleypa í mig einhvern mat með reglulegu millibili. Fyrsta matarhlé yrði því um þrjúleytið svo óþarft væri að kýla sig út af mat. Lét því einn serjósdisk nægja og brunaði svo niður í Friðarhús. Þar hellti ég upp á kaffi og drakk tvo litla bolla. Hafði hugsað mér að pína mig til að pissa rétt áður en klukkan yrði níu, en svo tóku tæknimálin og uppröðunin lengri tíma en ætlað var svo það gleymdist.

Frá kl. 9 til hádegis drakk ég tæplega eitt vatnsglas og upp úr hádeginu bætti ég við einum kaffibolla. Þeir urðu þrír í allt.

Um þrjúleytið var komið að því að ákveða hvort og þá hvenær ég myndi taka mér hlé. Ég var agnarlítið svangur og bölvaði því að hafa ekki étið meira um morguninn, vitandi af samlokunni sem Steinunn hafði fært mér fyrr um daginn liggjandi innan seilingar. En ég var þó ekki svengri en svo eða þreyttari í fótunum að nokkur ástæða væri til að stoppa, hvað þá að klósettferð væri á dagskránni. Um sexleytið varð ég endanlega ákveðinn í að klára ræðuna án þess að taka hlé og dró í kjölfarið úr vatnsdrykkju.

Röddin olli mér aldrei neinum vandræðum. Sennilega hefði ég getað talað mun lengur með sama styrk án þess að raddböndin hefðu svikið. Iljarnar, hnén, lærin og mjóbakið voru aðeins farin að kvarta – en þó ekkert alvarlega. Það að standa og láta dæluna ganga veldur hins vegar einhverjum þrýstingi á þindina sem kom fram í því að mér fannst ég þurfa að geispa en náði ekki fyllilega andanum. Ég reyndi ítrekað að skjóta inn geispum án árangurs, með þeim afleiðingum að áhorfendur töldu að ég væri að reyna að kæfa geispa. Þetta voru einu líkamlegu óþægindin sem trufluðu mig allan tímann og voru verst á að giska milli kl. sex og átta.

Um klukkan níu sá ég fram á að geta með góðu móti klárað efnið á rúmlega klukkutíma í viðbót. Auðvitað hefði ég getað teygt lopann eitthvað til að bæta einhverjum stundarfjórðungum við, en ég ákvað að gera það ekki og ljúka ræðunni um hálf ellefu leytið til að gestirnir (sem voru örugglega um 30 talsins á þessum tíma) gætu sest niður og spjallað eftir erindið í stað þess að allir væru farnir að búa sig til brottfarar. Það voru því ekki líkamleg óþægindi sem komu í veg fyrir að ég tæki 1-2 klukkustundir í viðbót. Mikið lengri tími hefði þó getað reynst nokkuð óþægilegur.

Þegar ræðunni lauk fattaði ég í fyrsta skipti hversu þreyttur ég væri í raun í fótunum. Sumir áhorfendurnir reiknuðu með að ég tæki strikið beint á klósettið og kvörtuðu hreinlega yfir að ég gerði það ekki. Mér var hins vegar ekki mál og fékk mér bjór í staðinn. Það var ekki fyrr en ég var kominn vel á aðra bjórflösku að ég þurfti að pissa, þá voru meira en 45 mínútur liðnar frá því að ræðunni lauk.

Ég skal hins vegar fúslega viðurkenna að ég hef átt betri morgna en í dag.