19:34

Leikur Japans og Ástralíu í Asíuforkeppni HM í fótbolta hefst kl. 19:34 á japönskum tíma. Ég minnist þess ekki að hafa séð leik tímasettan með slíkri nákvæmni fyrr. Myndi líta á þetta sem einhvers konar brandara ef ekki væri um Japani að ræða. Væru þeir ekki einmitt nógu bilaðir til að ákveða að hefja leik fjórar mínútur yfir hálfa tímann?

Nú þarf ég að reikna út tímamismuninn milli Íslands og Japan til að geta haft annað augað á leiknum. Asíuforkeppnin er nefnilega óvenjuspennandi að þessu sinni. Tíu lið eru eftir í keppninni. Þau leika í tveimur fimm liða riðlum og komast tvö efstu sætin úr hvorum riðli beint á HM í Brasilíu. Liðin í þriðju sætunum keppa innbyrðis um umspilsrétt gegn einu Suður-Ameríkulandinu.

Í öðrum riðlinum voru Japanir og Ástralar taldir öruggir um sigur, en Írak líklegasti þriðja sætis kandídatinn. Óman og Jórdanía áttu svo að reka lestina.

Það hefur hins vegar allt gengið á afturfótunum hjá Ástralíu, sem er með einn sigur og þrjú jafntefli í fimm leikjum. Ósigur í Japan kl. 19:34 gæti farið langt með að koma andfætlingum úr keppni. Japan mistókst á hinn bóginn að verða fyrsta liðið fyrir utan gestgjafana til að tryggja sér sæti í úrslitunum þegar liðið tapaði fyrir Jórdaníu í síðasta leik. Fyrir vikið geta Japanir ekki leyft sér að slaka á alveg strax og þurfa eitt stig úr lokaleikjunum gegn annað hvort Ástralíu eða Írak.

Kraftaverk eitt getur komið í veg fyrir að Japan vinni riðilinn, en hvað með annað sætið? Jórdanía er með sjö stig og tvo leiki eftir. Ástralía sex stig og þrjá leiki. Óman sex stig en aðeins tvo leiki. Írak á botninum með fimm stig en þrjá leiki eftir. Síðar í dag mætast Óman og Írak í leik sem ræður því hvort soldánsdæmið í mynni Persaflóa nær að hanga áfram í baráttunni.

Jórdanía er samt öskubuskuævintýrið sem flestir hljóta að vonast eftir. Liðið er hvorki sögulegt stórveldi í Asíuboltanum né keyrt áfram af óhóflegum olíuauði. Niðurstaða: Áfram Japan og megi Óman og Írak gera jafntefli!

***

Í hinum riðlinum er staðan líka í hnút. Líbanon situr á botninum með fjögur stig og er úr leik. Katar er sömuleiðis í vondum málum með sjö stig og bara tvo leiki til góða. Til að eiga minnstu von um áframhaldandi keppni verða gestgjafarnir 2022 að vinna Írani á heimavelli í dag. Íran er líka með sjö stig en þrjá leiki eftir.

Vinni Suður-Kóreumenn í Líbanon á eftir, kemst liðið á toppinn. Suður-Kórea er sem stendur með tíu stig og þrjá leiki eftir. Toppliðið frá Úsbekistan er hins vegar með ellefu stig en spilar ekki í dag. Úsbekar eru ein af stórþjóðum Asíuboltans en hafa aldrei komist á HM. Það hlýtur eiginlega að breytast núna.

Vill maður ekki alltaf ný lið á HM? Áfram Katar og Líbanon í dag…