Við töpum alltaf í Keflavík. Og það er alltaf kalt. Nema 2008 þegar við unnum Keflvíkinga í lokaumferðinni og rændum meistaratitlinum fyrir framan 5.000 manns eða e-ð álíka. Það er því ekkert skrítið þótt maður sé smástund að jafna sig á sigri í Keflavík í þokkalegu veðri.
Furðulegur leikur undir stjórn nýja þjálfarateymisins. Byrjuðum illa. Keflvíkingarnir voru sannast sagna mun sterkari og tóku völdin á miðjunni um miðbik fyrri hálfleiksins. Eftir það hélt Ögmundur okkur inni í leiknum með nokkrum frábærum markvörslum einn á móti Keflvíkingum. Eitt skotið small svo í slánna. Eftir 35 mínútur var maður farinn að horfa ískyggilega mikið á klukkuna að telja niður í leikhléð.
En ákvað einn Keflvíkingurinn að færa okkur leikinn á silfurfati. Hann hrinti skoska bakverðinum sem ég er ekki enn búinn að læra hvað heitir (Haslam, Halsam?) og fékk rauða spjaldið fyrir. Í kjölfarið blésu Framarar til fágætrar sóknar og Hólmbert skoraði eftir augnabliks kæruleysi í Keflavíkusvörninni. 0:1 í hálfleik, eftur að hafa verið á hælunum allan tímann.
Framararnir komu sjálfsöruggir til leiks eftir hlé og fyrstu fimmtán mínúturnar vorum við miklu betri. Splundruðum varnarlínu Keflvíkinga ítrekað, þar sem rangstöðutaktíkin þeirra reyndist afar brothætt. Í einu slíku tilvikinu komst Steven Lennon í gegn og skoraði. Mér fannst hann rangstæður og stuðningsmenn Keflvíkinga urðu foxillir, en aðrir þóttust hafa séð þetta betur og Keflvíkingarnir hefðu bara klikkað. Verður gaman að sjá upptökuna í sjónvarpinu.
Strategía Keflvíkinga til að jafna metin var sú helst að senda háa bolta fram á við, sem Bjarni Hólm og Ólafur Örn áttu ekki í miklum vandræðum með að skalla frá. Ánægjuleg tilbreyting að það séum ekki við að reyna háar sendingar gegn hávöxnum miðvörðum. Í raun var óskaplega lítið að gerast í sóknarleik heimamanna þar til fremur slakt skot small í hausnum á Bjarna Hólm, breytti um stefnu og hafnaði í netinu, 1:2.
Við tóku 20 mínútur af stressi, en Keflvíkingarnir voru orðnir of þreyttir manni færri á þungum velli til að nýta sér veikleika Framliðsins. Fágætur útisigur á velli sem geymir fáar góðar minningar. Maður leiksins Ögmundur Kristinsson.