Það myndaðist kvíðahnútur í maganum þegar Þorvaldur Örlygsson sagði upp störfum óvænt og skyndilega. Toddi var almennt mjög vel liðinn af stuðningsmönnum Fram – sem og leikmönnum. Maður var því skíthræddur um að los kæmist á mannskapinn og allt gæti farið í hönk.
Þær áhyggjur reyndust ástæðulausar. Undir stjórn Ríkharðs og Auðuns unnu Framarar í Keflavík (vissulega hálfgerðan heppnissigur) og í dag voru Þórsarar lagðir að velli vandræðalítið.
Þór Akureyri er ekki sérstaklega gott fótboltalið. Það eru reyndar talsvert mörg slök fótboltalið í deildinni í ár. Vörnin þeirra lekur mörkum (20 mörk á sig í 7 leikjum er alltof mikið) og miðjan er veik.
Það var samt ekkert sérstakt í spilunum sem benti til að Framarar væru að fara að skora fyrr en um miðjan fyrri hálfleikinn þegar Hólmbert náði góðri rispu og negldi í slánna og inn. Boltinn fór augljóslega í höndina á Hólmberti, en þetta var leikur þar sem dómarinn ákvað að flauta aldrei á það þegar leikmenn handléku knöttinn.
Sagt er um fótboltann að stundum sé hann „stöngin út“ – stundum „stöngin inn“. Í dag var þetta meira svona „sláin inn“. Skömmu eftir mark Hólmberts náði Lennon að skalla í slá og inn úr þröngu færi. 2:0 í hálfleik eftir að Framarar höfðu í raun ekki átt nema þrjú alvöru færi og Þórsarar 3-4 hálffæri.
Þór minnkaði muninn eftir aulagang í Framvörninni á upphafsmínútum seinni hálfleiks og við í stúkunni krossuðum okkur og sáum fram á barning og nauðvörn. Gestirnir héldu hins vegar ekki einbeitingunni og Hólmbert skoraði nánast í næstu sókn. Í stöðunni 3:1 gáfust Þórsarar upp og Framarar gengu á lagið. Lennon lagði frábærlega upp þriðja mark Hólmberts – sem mér skilst að hafi þar með skorað fyrstu þrennu sumarsins í efstu deild karla. Hólmbert verður því væntanlega valinn maður umferðarinnar, þótt í raun hafi Lennon verið bestur í leiknum.
Hverjir aðrir stóðu sig vel? Jú, það mætti nefna Viktor Bjarka sem átti sinn besta leik í sumar áður en hann þurfti að fara út af eftir smáhnjask efitr rúman klukkutíma. Hewson og Dóri voru líka traustir á miðjunni. Síðustu tíu mínúturnar fékk einhver átján ára gutti að spreyta sig. Á honum kann ég engin deili nema að hann heitir Aron. Það sannar ekki neitt, annar hvor gutti á þessum aldri heitir Aron.
Maður leiksins: Steven Lennon