Falur fertugur: Safn til sögu íslenskrar teiknimyndasagnaútgáfu

Vorið 1973 hóf ný teiknimyndasaga göngu sína á íþróttasíðum hollenska dagblaðsins Algeneen Dagblad. Höfundurinn var John le Noble, blaðamaður á íþróttadeildinni og teiknarinn Toon van Driel – saman kölluðu þeir félagarnir sig Toon & Joop. Sögurnar fjölluðu um knattspyrnuliðið F.C. Knudde, sem nefndist upp á íslensku Fótboltafélagið Falur.

Falsliðið er skipað fáráðlingum og hefur að geyma flestar staðalmyndir knattspyrnunnar: lánlausa markmanninn, nautheimska varnarfantinn, teprulega suður-ameríska leikmanninn og ráðalausa þjálfarann. Þrátt fyrir rýran mannauð standa Falsmenn uppi sem sigurvegarar í lok hvers ævintýris, fyrir runu heppilegra tilviljanna eða vegna bellibragða hins siðblinda Nebba flippara – aðalstyrktaraðila félagsins og umsvifamikils sölumanns hrekkjaleikfanga.

Óhætt er að kalla Falsara Íslandsvini, því þegar farið var að gefa ævintýri þeirra út á bókarformi árið 1978 lá leiðin til Íslands í tveimur af þremur fyrstu sögunum. Fyrsta bókin, Falur á heimavelli, kynnir helstu persónur til sögu og gerist að öllu leyti í Hollandi. Önnur bókin, Falur í Argentínu, lýsir því þegar Falsmenn hlaupa í skarðið fyrir hollenska landsliðið á HM í Argentínu 1978 og vinna að sjálfsögðu, eftir æfingaferð til Íslands. Þriðja bókin, Falur á Íslandi, gerist svo öll á Fróni.

 

Mörgæsir og hreindýrasleðar

Ísland þeirra Toons og Joops kemur þó kunnugum spánskt fyrir sjónir. Innfæddir búa í snjóhúsum, ferðast um á hunda- og hreindýrasleðum, éta heilsoðna hvali í hvert mál og knattspyrnuvöllurinn er skautasvell alsett mörgæsum. Ferðalagið milli meginlandsins og Íslands var sömuleiðis óvenjulegt, þar sem leikmenn voru sendir með rörpósti á vegum Flugleiða.

Síðar áttu leiðir Falsmanna eftir að liggja til enn fleiri landa, svo sem á söguslóðir sápuóperunnar Dallas, til fundar við blóðsugur og næturdýr í Transylvaníu, á sléttur Afríku og út í geiminn. Nýjar sögur héldu áfram að bætast við bókaflokkinn fram á miðjan tíunda áratuginn og urðu þær um 35 að lokum, auk fjölda safnrita með stökum skrítlum frá fyrstu árum sagnaflokksins. Á dögunum kom svo út veglegt fjörutíu ára afmælishefti þar sem saga Fótboltafélagsins Fals er rakin í máli og myndum.

Þessi ævintýri fóru þó fram hjá íslenskum lesendum, því einungis þrjár sögurnar voru gefnar út hér á landi af forlaginu Erni og Örlygi árin 1979, 1980 og 1981. Í dag seljast góð eintök af þessum bókum fyrir 5.000 krónur í íslenskum fornbókaverslunum.

 

Frávik í bókaútgáfu

Það er í sjálfu sér merkilegt að nokkur Falsbók hafi komið út á Íslandi yfirhöfuð. Teiknimyndasöguútgáfa stóð í miklum blóma á áttunda og níunda áratugnum, en bókaforlögin Iðunn og Fjölvi sátu ein að markaðnum, ef frá er talið Setberg sem gaf út sögurnar um Steina sterka. Örn og Örlygur höfðu ekki fyrr blandað sér í þessa samkeppni.

Í öðru lagi vekur athygli að Falsbækurnar voru hollenskar, en á teiknimyndasögusviðinu standa Hollendingar algjörlega í skugganum á grönnum sínum sunnan landamæranna. Belgísk útgáfufyrirtæki hafa um áratugaskeið pundað út teiknimyndasögum á frönsku sem náð hafa mikilli útbreiðslu í krafti stærðar málsvæðisins. Má þar nefna sagnaflokka á borð við Tinna, Sval og Val, Lukku Láka, Yoko Tsuno og Strumpana.

Belgísk/franska teiknimyndahefðin er öflug og vinsælustu sögur hennar eru þýddar á fjölda tungumála. Frönskumælandi þjóðirnar gefa hins vegar lítið fyrir teiknimyndasögur á öðrum tungumálum og hirða sjaldnast um að þýða þær. Hollenskir teiknimyndahöfundar geta því sjaldnast vænst þess að skrifa fyrir stóran lesendahóp. Falsbækurnar voru því lítt kunnar utan Hollands og voru til að mynda ekki gefnar út á hinum Norðurlöndunum, eftir því sem næst verður komist. Þetta skiptir talsverðu máli varðandi Ísland, þar sem nær allar teiknimyndaútgáfur þessara ára voru hluti af samprenti með dönskum útgáfufyrirtækjum. Falsbækurnar voru á hinn bóginn sjálfstætt útgáfuverkefni, filmusettar hjá Prentstofu G. Benediktssonar en prentaðar á Ítalíu.

Í þriðja lagi verður ekki fram hjá því litið að frá listrænu sjónarhorni rista sögurnar um Fótboltafélagið Fal grunnt. Teikningarnar eru hráar og grófar, bakgrunnsmyndir einfaldar og litavinna einföld. Þótt sögurnar njóti vinsælda í Hollandi, rata þær nær aldrei inn á vefsíður eða gagnabanka um teiknimyndasögur heimsins og á Wikipediu er aðeins að finna tvær fremur yfirborðskenndar greinar, á hollensku og á þýsku.

 

Blaðað á flugvelli

Sagan á bak við útgáfuævintýrið hófst þegar ungur Verslunarskólanemi, Ólafur Garðarsson (síðar lögmaður og kunnasti umboðsmaður íslenskra knattspyrnumanna erlendis) var á flugvelli í Vínarborg að leita sér að lesefni á leið til Íslands. „Ég fann ekki neitt á ensku og greip því þýska útgáfu af þessari teiknimyndasögu. Mér fannst hún skemmtileg og sá að þetta gæti fallið í kramið“, segir Ólafur.

Þegar heim var komið gekk Ólafur á fund Örlygs Hálfdánarsonar með bókina góðu. „Maður var alltaf á höttunum eftir aukapening á framhaldsskólaárunum og seinna í Háskólanum og þýðingar voru mjög hentugt aukaverkefni. Ég sýndi Örlygi bókina og bauðst til að þýða hana fyrir tiltekna upphæð, ef hann sæi um að tryggja öll útgáfuréttindi. Hann gekkst að þessu og við handsöluðum samkomulag og sáum aldrei ástæðu til að skrifa undir eitt eða neitt, enda stóð Örlygur samviskusamlega við allt sitt.“

Fyrsta Fals-bókin var sem sagt þýdd úr þýsku og það sama gildir um þriðju bókina. „Miðjubókin barst hins vegar aldrei á þýsku, einhverra hluta vegna“, segir Ólafur. „Þegar komið var í algjört óefni neyddist ég því til að setjast niður með orðabók og snara henni úr hollensku. Það var nú reyndar ekkert stórmál, þýskan og hollenskan eru keimlík tungumál og þýðingin var nú ansi frjálsleg.“

Viðtökur lesenda voru góðar og bækurnar seldust vel, enda teiknimyndasöguútgáfa afar ábatasöm á Íslandi á þessum árum. Ekki varð þó framhald á útgáfunni og segir Ólafur ástæðuna ekki hafa verið slaka sölu heldur hafi hann kosið að snúa sér að öðrum verkefnum.