Víkingur úti (bikar):

Það var rosalega fínt veður í Ólafsvík og vallarstæðið er mögulega það flottasta á landinu. Þar með eru góðu tíðindin af bikarleik Fram og Víkings upptalin.

 

Halldór Arnarsson kom inn í Framliðið fyrir Ólaf Örn, sem er væntanlega meiddur. Að öðru leyti var þetta sama byrjunarlið og búast mátti við. Fyrri hálfleikur var afar tilþrifalítill. Heimamenn ógnuðu sáralítið og Framarar skoruðu eitt mark án þess að fara nokkru sinni úr öðrum gír. Lennon átti heiðurinn að markinu, þótt Almarr hefði skorað.

Í byrjun seinni hálfleiks virtist Fram ætla að klára leikinn og fékk þrjú góð færi á stuttum tíma. Ekkert þeirra rataði þó í netið.

Þegar tæpur hálftími var eftir fóru Almarr og Kristinn Ingi báðir meiddir af velli og þótt skyndilega datt botninn úr miðjuspilinu. Víkingar fóru að sækja nokkuð stíft og enginn varð hissa þegar þeim tókst að jafna. Það sem eftir leið leiks og í framlengingunni máttu Ólafsvíkingar teljast líklegri ef eitthvað er.

Vítakeppnin var bara vítakeppni og við unnum.

Það er erfitt að velja Framara leiksins. Ögmundur fékk eitt erfitt skot á sig og varði það vel. Ætli Almarr fái samt ekki titilinn, ekki vegna þess að manni hafi fundist hann eiga neinn stjörnuleik þegar hann var inná heldur vegna þess hvað munaði um hann þegar hann fór útaf.

Varð steinhissa þegar heim var komið og ég leit á umfjallanir á fótboltasíðunum, þar sem leikurinn fékk bara nokkuð góða einkunn og frammistaða heimamanna var talin mjög góð. Það bendir til að þetta verði langt og erfitt sumar á Snæfellsnesinu.

Fjórðungsúrslitin bíða. Víkingur Reykjavík á útivelli væri fínt. Líka ágætt að fara á Kópavogsvöllinn.