ÍBV úti: 8/22

Versta fótboltaferð mín til Eyja var fyrir mörgum árum. Flogið var frá Bakka. Man ekki hvernig ég komst þangað – hvort það var í liðsrútunni eða á bíl einhvers stuðningsmannsins. Allir voru kátir og frekar bjartsýnir.

Um leið og lent var á Vestmannaeyjaflugvelli féllu fyrstu regndroparnir. Og svo fleiri. Og svo enn fleiri. Í hálfleik var ég orðinn hundblautur. Í leikslok var ekki þurr þráður á mér. ALLT var blautt: nærfötin, sokkarnir… Pappírskvittanir og sneplar sem ég hafði geymt í seðlaveskinu eyðilögðust. GSM-sími mannsins við hliðina á mér dó og fór í ruslatunnuna.

Að sjálfsögðu var flugið fellt niður. Við þurftum því að finna okkur hótel (sem voru ekki útgjöld sem reiknað hafði verið með í fjárhagsáætlun mánaðarins). Ég skreið inn á herbergi, vatt þau föt sem hægt var að vinda. Ofnarnir voru rafmagnsofnar sem ekki mátti setja föt á. Eftir skamma hvíld var svo haldið aftur út, í hundblautum fötunum og farið á næsta bar. Þar var nokkrum bjórum slátrað – og það sem verra var, viskýi.

Vaknaði þunnur daginn eftir. Fötin ennþá rök. Klæddi mig í leppana. Ekkert flug. – Enduðum á að sigla heim með Herjólfi til Þorlákshafnar. Leiðinlegt í sjóinn og ég ennþá þunnur. (Hefur komið fram að ég var blautur líka?) Og auðvitað töpuðum við helvítis leiknum.

Með þetta sem mælistiku, er erfitt að vera of fúll yfir leiknum á sunnudaginn. Famelían gerði úr þessu ferðalag. Gistum tvær nætur í fínu veðri í Eyjum og skoðuðum allt það helsta. Leikurinn var ekki upp á marga fiska. Framararnir fremur hugmyndasnauðir og ógnuðu lítið fram á við. Í seinni hálfleik var ÍBV miklu ákveðnara og hefði skorað fyrr ef ekki væri fyrir 1-2 góðar vörslur frá Ömma. ÍR-ingurinn spilaði annan leikinn í röð í miðverðinum, að þessu sinni eftir að Bjarni Hólm meiddist. Slapp þokkalega frá sínu. Það er drjúgt að hafa nothæfan varnarmann á bekknum. 1:0 tap og svo sem bara í samræmi við gang leiksins. Sjitt happens, ég kom þó amk þurr heim.

Framari leiksins: Ólafur Örn Bjarnason.