Breiðablik heima: 9/22

Einhverra hluta vegna hefur Fram tak á Breiðablik. 2010 þegar Blikar urðu Íslandsmeistarar, tóku Framarar 4 stig af þeim. Ég kann ekki að skýra ástæður þessa – læt mér nægja að kætast yfir að það sé amk eitt lið sem eigi í vandræðum með okkur.

Það var ein óvænt breyting á byrjunarliði Fram. Haukur Baldvinsson kom inn fyrir Dóra sem hefur líklega þurft að jafna sig eftir að einn Eyjafanturinn stímdi inn í síðuna á honum í síðasta leik. Það þarf alvöru högg til að koma Dóra út úr liðinu. Hann er vinnuhesturinn í liðinu og því smkv. skilgreiningu uppáhald stuðningsmanna. Haukur hefur ekki heillað mig í sumar, en í þessum leik var hann fínn. Óheppinn að skora ekki, en Gunnleifur í Blikamarkinu átti líka stórleik. Gunnleifur og Ömmi eru klárlega tveir bestu markmenn Íslands um þessar mundir.

Fyrri hálfleikurinn var það besta sem ég hef séð til Framara í sumar. Við pökkuðum Kópavogsbúum saman. Lennon sprengdi upp vörn þeirra að vild. Sama gilti um Almarr. Og Lowing virtist ætla að spila sig inn í landsliðið… skoska landsliðið það er.

Áttum fullt af færum og hefðum átt að vera 3-4 mörkum yfir í hálfleik. En bara eitt mark leit dagsins ljós – og þá voru það bakverðirnir tveir sem voru að verki. Lowing plataði einn Blikann upp úr skónum og sendi fyrir, einhver skallað frá og boltinn barst fyrir fætur Halsman sem var vel fyrir utan vítateig en setti boltann í hornið (með vinstri) eins og besti framherji.

Í seinni hálfleik sannaðist hvílíkt klúður það var að hafa bara skorað einu sinni. Almarr fór útaf í hálfleik, meiddur. Blikarnir komu ákveðnir til leiks og skyndilega snerist taflið við. Þeir sóttu linnulítið en Framarar voru andlausir. Ömmi hélt okkur á floti með nokkrum glæsimarkvörslum. Ólíklegustu menn klikkuðu í varnarleiknum og smátt og smátt dró meira af liðinu. Ekki hjálpaði að slakur dómari leyfði endalausar bakhrindingar (einkennismerki liða sem Óli Kristjáns þjálfar) með þeirri undantekningu þó að Hólmbert mátti ekki snerta nokkurn andstæðing án þess að flautað væri.

Það kom ekkert á óvart þegar Blikar jöfnuðu og í raun máttum við teljast heppnir að tapa þessu ekki hreinlega. Jafntefli ásættanleg úrslit miðað við allt og allt.

Maður leiksins var Halldór Arnarsson sem er óvænt orðinn byrjunarliðsmaður eftir að Bjarni Hólm meiddist. Óvenjulegt að sjá miðvörð falla svona hratt og örugglega inn í lið.