Það er engin skýrsla um FH-leikinn. Við fjölskyldan fórum í sveitina með vinafólki, svo ég missti af fyrsta leiknum í sumar. Það var víst bara ágætt eftir á að hyggja.
* * *
Aldrei þessu vant var logn á Seltjarnarnesi í kvöld. Fullt af fólki, enda stærsti leikur Gróttumanna í fleiri ár. Hewson var í leikbanni, svo Jón Gunnar fór inn á miðjuna. Lowing var settur í miðvörðinn við hlið Ólafs Bjarnar og Benedikt Ottó í bakvörðinn. Áhugaverð tilraun og sjálfsagt að halda henni áfram. Lowing er líklega besti miðvörðurinn okkar og óþarfi að binda hann í bakvarðardjobbinu ef hægt er að leysa málið öðru vísi.
Grótta pakkaði í vörn frá fyrstu mínútu. Framarar sóttu stíft í byrjun og hefðu með smáheppni getað drepið leikinn á fyrstu mínútunum. Um miðjan fyrri hálfleikinn kom fyrsta markið. Hólmbert skallaði niður í teiginn og líklega má þakka gervigrasinu að boltinn skaust ekki beint útaf heldur endaði hjá Almarri sem skoraði vel.
Fram fékk nokkur tækifæri til að bæta við mörkum, en alltof oft virtust menn ætla að sóla sig alla leiðina í gegn eða reyndu sendingar inn á teiginn sem stóru miðverðirnir hjá Seltjarnarnesliðinu áttu ekki í vandræðum með að skalla frá. Eftir því sem leið á leikinn urðu varnarmenn Gróttu öruggari með sig og þeim fór að ganga betur að verjast Frömurum.
Í heimsfótboltanum held ég með Úrúgvæ – ekki hvað síst vegna þess hvað lið þeirra getur leikið þéttan varnarleik þar sem allir taka þátt. Fyrir vikið hlýt ég að hrífast af baráttunni í Gróttuliðinu. Frábær vinnsla og varnarleikur!
Um miðjan seinni hálfleikinn sáu allir í stúkunni hvað var að gerast. Framsóknin hélt áfram, án þess að nein opin færi sköpuðust. Grótta spilaði hins vegar upp á skyndisóknir, vitandi að eitt og eitt færi myndi líta dagsins ljós. Jöfnunarmarkið kom þegar kortér var til leiksloka eftir óskaplegt hnoð þar sem Ögmundur leit ekki vel út. Framarar fóru á taugum og einhvern veginn varð maður hálf feginn þegar flautað var til loka venjulegs leiktíma.
Í framlengingunni héldu Framarar áfram að sækja án þess þó að valda öftustu varnarlínu heimamanna verulegum vandræðum. Markvörður Gróttu þurfti t.a.m. afar sjaldan að grípa inní – sem var líklega eins gott þeirra vegna, því hann virtist afar brothættur.
Allir voru farnir að búa sig undir vítakeppni, En hversu oft hefur maður ekki séð litlu liðin í bikarkeppninni fá mark í andlitið á lokaandartökunum? Sú varð raunin að þessu sinni eftir „soft“ víti.
Aron Albertsson, táningur sem kom frá Breiðabliki, var þriðja skipting Framara í leiknum. Þegar mínúta var til leiksloka prjónaði hann sig framhjá einum Gróttumanninum – vissi af honum fyrir aftan sig, lyfti upp fætinum og beið eftir því að vera hlaupinn niður. Það gekk eftir. – Línuvörðurinn flaggaði víti, en Kristinn Jakobsson var kominn með gula spjaldið í hendurnar. Ég er nánast viss um að hann ætlaði að dæma markspyrnu og spjalda Aron, en fór eftir aðstoðardómaranum og gaf vesalings Gróttumanninum áminningu til þess að líta ekki aulalega út með spjaldið í lúkunum.
Lennon afgreiddi svo vítið snyrtilega. Stórkostlegri niðurlægingu afstýrt og sæti í undanúrslitum í höfn.
Framararnir í stúkunni deildu talsvert sín á milli um vítið. Allir voru sammála um að þetta hefði verið lítil snerting, en þeir jákvæðari í hópnum tóku þá línu að „strákurinn hefði sótt þetta mjög vel“.
Framari leiksins? Tjah, er siðlaust að nefna Aron fyrir að hafa staðið sig vel í að fiska víti? Segjum þá bara Viktor Bjarki frekar en ekki neinni.
Pant fá Breiðablik heima – það þarf að leiðrétta ákveðinn misskilning frá síðasta leik.