KR heima: 11/22

Síðustu fimmtán árin eða svo hef ég setið við hliðina á Val Norðra á Framleikjunum. Þá sjaldan annar okkar missir af leik, sendir hinn sms með reglulegum skýrslum um gang mála. Á sunnudagskvöldið var Valur staddur í Kaupmannahöfn og sendi mér skilaboð þar sem hann afþakkaði beina sms-lýsingu – tímamismunurinn væri 2 klst. og gæti alveg beðið til morguns að fá upplýsingar um það hvaða rauðhærða barn hefði komið af bekknum og skorað fyrir KR í uppbótartíma.

Og einhvern veginn finnst manni þetta vera saga viðureigna okkar gegn KR síðustu ár – það skiptir engu máli hvort Framararnir eru á hælunum eða spila eins og Brasilía, alltaf vinnur KR 2:1 eftir soft-víti eða að einhver rauðhausinn skalli í netið úr horni á síðustu andartökunum.

Það var því lítið tilefni til bjartsýni fyrir leikinn. Leiktíminn reyndar sniðugur. Hvers vegna ekki að reyna þetta oftar – kl. 21 á sunnudegi er þrælfínn tími. Enginn þarf að puðrast fyrr heim úr sumarbústaðnum eða sleppa sunnudagssteikinni og með bara besta mál að nota flóðljósin í Laugardalnum, nóg kostuðu þau nú.

Fyrri hálfleikurinn minnti á leikinn gegn Blikum, nema að þessu sinni léku andstæðingarnir vel líka. Jón Gunnar Eysteinsson var í miðverðinum ásamt Ólafi Erni. Það væri synd að segja að Jón Gunnar væri uppáhaldsleikmaðurinn minn. En í þessum leik var hann mjög góður. Það skyldi þó aldrei vera að hann virki betur sem miðvörður en miðvallarleikmaður.

Eina mark fyrri hálfleiks kom eftir góðan undirbúning Almarrs og fína afgreiðslu Hólmberts. Mörkin hefðu að ósekju mátt vera tvö – og ekki í fyrsta sinn sem Framarar fara inn í leikhléið með þá tilfinningu í maganum.

Í seinni hálfleik bakkaði Framliðið mikið. Ólafur Örn hafði þá þurft að yfirgefa völlinn, sem Ríkharður leysti með því að senda Lowing í miðvörðinn og Benedikt Októ í bakvörðinn – sá síðarnefndi átti mjög góðan leik. Fáir í deildinni hlaupa jafn hratt enda tókst honum að pakka Óskari Erni KR-ingi saman í leiknum.

Með vaxandi sóknarþunga KR gat það aldrei verið nema tímaspursmál hvenær jöfnunarmarkið kæmi. Aðeins frammistaða Ögmundar (sem er einmitt besti markvörður deildarinnar) kom í veg fyrir að það sæi dagsins ljós fyrr. Eftir jöfnunarmarkið voru allir í stúkunni vissir um að næsta Vesturbæjarmark kæmi innan tíðar. En Ríkharður átti ás uppi í erminni: Kristinn Inga.

Samuel Hewson átti frábæra stungusendingu þar sem Kristinn stakk alla af sér og setti boltann fram hjá áttavilltum Hannesi Þór, 2:1. Síðustu mínúturnar pakkaði Fram í vörn, en var þó ekkert fjær því að skora en gestirnir.

Maður leiksins? Tjah, það væri klisja að velja Ögmund. Steven Lennon var líka mjög drjúgur. Vel samt Samuel Hewson að þessu sinni.