Sumarið 1983 byrjaði ég að fylgjast með íslenskum fótbolta. Ég var átta ára og bjó rétt hjá Melavellinum. Snemma komumst við krakkarnir upp á lagið með að klöngrast yfir girðinguna við norðanverða stúkuna með því að klifra eftir vírnetinu sem afmarkaði byggingarsvæði Þjóðarbókhlöðunnar. Þarna rifnuðu margar flíkur.
Stundum vorum við krakkarnir bara að leika okkur í stúkunni. Stundum voru leikir í gangi og þá horfði maður. Það voru þó sjaldnast stórstjörnur að spila. Flestir leikirnir voru milli fjórðudeildarliða: Ármanns, Víkverja, Óðins, Árvakurs og annarra slíkra. Einhverju sinni sat ég og horfði á leik þar sem óvenjumikið virtist undir, slæðingur af áhorfendum og meira lagt í umgjörðina (kveikt á vallarklukkunni). Það var toppslagur í B-riðli fjórðudeildar milli ÍR og Stjörnunnar.
Upp frá þessu hef ég alltaf átt erfitt með að viðurkenna ÍR og Stjörnuna sem efstudeildarlið í fótbolta. Samt erum við Framarar að fara að leika við þá í bikarúrslitum eftir hálfan mánuð – og það sem „litla liðið“.
Horfði á leik Fram og Blika í gegnum rússneska vefsíðu sem neyddi mig á 5 mínútna fresti til að horfa á 20 sekúndna auglýsingu um furðulega tölvuleiki, broskallaþjónustu eða táningsstelpur sem þráður mig að sögn. Myndgæðin voru léleg og útsendingin skrykkjótt – en það er ekki hægt að kvarta.
Blikarnir voru ekki sjálfum sér líkir. Reyndar var fyrri hálfleikurinn mjög svipaður því sem gerðist í deildarleik liðanna á Laugardalsvelli fyrr í sumar – þá mættu Blikar varla til leiks og við yfirspiluðum þá í fyrri hálfleik. Í þeim leik settum við bara eitt mark fyrir hlé, en núna voru þau tvö. Orri Gunnarsson kom inn í bakvörðinn og stóð sig ágætlega. Einhverra hluta vegna var norski varnarmaðurinn sem fenginn var til liðsins í glugganum ekki einu sinni á bekknum.
Og talandi um Norðmenn. Þessi norski kantmaður sem lék með Selfossi er ekki að heilla mig, a.m.k. ekki enn sem komið er.
Framararnir eru fljótir fram á við og því vopni var ítrekað beitt. Kristinn Ingi er fáránlega fljótur og þótt hann sé ann bara skugginn af sjálfum sér frá því í fyrra, þá eru andstæðingarnir svo skíthræddir við hann að það eitt léttir öðrum í liðinu lífið. Almarr er leikmaður sem blómstrar í bikarleikjum og átti einn sinn besta leik í sumar. Hólmbert ógnaði vel og átti stóran þátt í fyrsta markinu (þar sem hann var a.m.k. alveg við það að vera rangstæður). Skot hans var varið en frákastið hrökk til Kristins Inga sem vippaði yfir Gunnleif. Almarr sótti svo víti með harðfylgi. Hólmbert er sjálfskipuð vítaskytta liðsins og breytti stöðunni í 2:0. (Ég spyr mig þó hvort ekki væri nær að láta t.d. Hewson taka vítin.)
Í seinni hálfleik hlutu Blikar að hressast, en skoruðu þó ekki fyrr en eftir fágæt mistök Lowings, sem gaf þeim í raun markið og kom Kópavogsbúum inn í leikinn. Ögmundur varði nokkrum sinnum vel. Hann er klárlega sá markvörður hérna heima sem staðið hefur sig best í sumar. Lengra komust gestirnir hins vegar ekki og maður spyr sig hvort lið þeirra hafi í raun og veru viljað jafna leikinn og lenda í framlengingu með mikilvægan Evrópuleik handan við hornið.
Og enn og aftur er Fram komið í bikarúrslit. Fjórir síðustu bikarúrslitaleikir hafa tapast, svo tölfræðin gefur ekki tilefni til bjartsýni. En það er þó eitthvað til að hlakka til næsta hálfa mánuðinn. Allt getur gerst í úrslitaleik og gjaldkerinn má í það minnsta vera ánægður.
…já og maður leiksins? Almarr.