Fótboltasaga mín 1/100

Það er í tísku að skrifa hundrað færslna bloggbálka. Hér mitt framlag – þar sem ég hleyp fram og til baka í sögu minni sem fótboltaáhugamanns og tek fyrir einn leik í hverri færslu. Lofa samt ekki daglegum skrifum, heldur sletti ég í einn og einn pistil þegar ég nenni:

10. maí 1983. Fram 3 : Víkingur 2

Það er best að byrja á byrjuninni. Fyrsta leiknum.

Ég ólst upp á knattspyrnulausu heimili. Mamma og pabbi höfðu engan áhuga á fótbolta þegar ég var krakki. Móðir mín, sundrottningin úr Ægi, hefur aldrei nennt að setja sig inn í fótbolta og þótt pabbi hafi æft með Þrótti sem strákur, mætti hann ekki á völlinn svo árum skipti. Það er helst á allra síðustu árum að hann er farinn að fylgjast aðeins með og nær jafnvel leik eða tveimur á hverju sumri. Í dag þykist hann halda með KR. Svona fer þrjátíu ára búseta í Frostaskjólinu með menn.

En vorið 1983 var ég nýorðinn átta ára. Ég var var ekki undir stjórn Jaruzelskis heldur Gunnars Thoroddsens, sem hlýtur að teljast skárri kostur. Við bjuggum í lítilli blokkaríbúð á Hjarðarhaganum, nánar tiltekið í „Kennarablokkinni“ sem er syðsta íbúðarblokkin við götuna. Við áttum ekki sjónvarp. Það var að hluta til afleiðing af blankheitum foreldra minna, en að hluta til menningarpólitísk ákvörðun. Þau voru ungir róttæklingar sem tóku uppeldi barna sinna alvarlega og vissu að sjónvarp gerði börn að slefandi fávitum.

Þótt mamma og pabbi hefðu ekki áhuga á fótbolta, þá hafði afi minn það. Harri afi, Haraldur Steinþórsson framkvæmdastjóri BSRB, bjó á Neshaganum og ég var með annan fótinn hjá honum og Þóru ömmu. Afi hafði verið formaður í Fram seint á sjötta áratugnum, áður en hann hellti sér útí verkalýðspólitíkina og hætti eiginlega að mæta á leiki. En hann var samt Framari og ég vissi það og vildi vera Framari líka eins og Harri afi.

Og út um gluggann á eldhúsinu í litlu íbúðinni okkar á 3ju hæð í Hjarðarhaga 30 gat ég séð Melavöllinn. Melavöllurinn var í hjarta hverfisins. Við krakkarnir í blokkinni lékum okkur umhverfis hann á sumrin og það fór ekki á milli mála þegar eitthvað mikið var á seyði, bílastæðin fylltust og hróp og köll bárust um hverfið.

Ég þráði að sjá fótboltaleik á Melavellinum: fá að fara inn fyrir gulmálaða bárujárnsgirðinguna. Ekki að ég vissi mikið um fótbolta, annað en það sem ég sá í ensku knattspyrnunni í sjónvarpinu á laugardögum (einmitt heima hjá afa og ömmu, því þau buðu til kvöldverðar á hverju einasta laugardagskvöldi).

Eftir endalaust rex og pex, lét pabbi loksins undan. Hann hnippti í afa og við fórum allir þrír á völlinn og horfðum á Fram og Víking. Pabbi hafði örugglega ekki mætt á meistaraflokksleik frá fermingu. Afi hafði varla sést á Framleik í mörg ár og var vafalítið allan tímann að heilsa gömlum vinum og kunningjum.

Ég man nánast ekkert eftir leiknum, en ég man hvað ég var heillaður allan tímann. Það eina sem mig rámar í er að Víkingarnir fengu vítaspyrnu og skoruðu, en voru látnir endurtaka hana og þá varði Frammarkvörðurinn. Það var Guðmundur Baldursson sem þetta sumar var aðalmarkvörður Fram nítján ára gamall eða þar um bil.

Og já, leikurinn var úrslitaleikur Reykjavíkurmótsins. Framarar voru með fáránlega ungt lið sem öllum bar saman um að væri gríðarlega efnilegt, en hafði tekist að falla um deild og var sigurstranglegasta liðið í 2. deild. Víkingar voru Íslandsmeistarar. Eins og venjulega hafði verið hrært í reglunum og nú var aukastig gefið fyrir að skora þrjú mörk í leik. Með 3:2 sigrinum nældi Fram því í aukastigið og varð Reykjavíkurmeistari. Samt man ég ekki eftir neinni verðlaunaafhendingu í leikslok. Kannski pabbi og afi hafi teymt mig hrekklausan í burtu áður en að henni kom.

En þarna kviknaði eitthvað. Þennan dag varð ég að knattspyrnuáhugamanni.

(Mörk Fram: Hafþór Sveinjónsson, Guðmundur Torfason, Gísli Hjálmtýsson. Mörk Víkings: Ómar Torfason, Gunnar Gunnarsson.)

* * *

Athugasemd: Iss, maður er strax farinn að klúðra! Mér bent á að Gummi Baldurs sé nokkrum árum eldri en ég vildi gera hann í þessari færslu. Fall er fararheill.