Krókurinn: Fótboltasaga mín 2/100

2. júlí 1991. Tindastóll 2 : Haukar 3

Sumarið eftir Hagaskóla fékk ég frábæra vinnu í nokkrar vikur. Ég var ráðinn sem handlangari í byggingarvinnu á Sauðárkróki. Tildrögin voru þau að Teddi, sem um þær mundir var giftur frænku minni, rak ásamt Pétri félaga sínum lítið byggingafyrirtæki. Fyrirtækið hefur reyndar stækkað aðeins í seinni tíð, en á þessum árum verkefnin færri og ekkert verk of smátt til að eigendurnir gripu ekki sjálfir í hamarinn.

Þeir Teddi og Pétur unnu talsvert fyrir ÁTVR og sinntu meðal annars ýmsum viðhaldsverkefnum í útsölunum á landsbyggðinni. Verkið á Sauðárkróki kom þannig til að tilkynnt var um smálekavandamál í áfengisverslun bæjarins, en þegar á hólminn var komið reyndist vandinn stærri og þá var ákveðið í skyndingu að skella upp hallandi þaki og klæða kofann með Steni-plötum.

Við fórum fjórir í verkið: ég, Teddi og tveir smiðir. Þetta var tarnavinna, þar sem farið var í tvígang norður í u.þ.b. tvær vikur í senn og unnið alla daga vikunnar frá 8 til 22. Við sváfum saman í stóru herbergi í gistingu á vegum Hótels Mælifells og átum hádegis- og kvöldverð á hótelinu alla daga. Það eyðilagði fyrir mér pönnusteikta rauðsprettu fyrir lífstíð.

Það var svo sem lítið annað gert en að vinna. Við brugðum okkur þó á barinn í nokkur skipti og þá helst á mánudags- eða þriðjudagskvöldum þegar einu gestirnir voru túristar. Þetta voru fyrstu fylleríin mín sem náðu máli – og ólíkt þægilegra að fikra sig áfram með bjór á bar en með vodkablöndu í gosdrykkjaflösku í bíó eða niðrí miðbæ.

Ég rakaði inn peningum, en það var enginn fótbolti. Fyrir tíma internetsins voru íþróttasíður Moggans og DV eina leiðin til að fylgjast með gangi mála og það var ferlegt að vita af Íslandsmótinu fyrir sunnan en vera upp á dagblöð og útvarp kominn.

Tindastóll á Sauðárkróki var þetta árið á hraðri leið niður úr næstefstu deild. 2-3 árum fyrr hafði Tindastóll virst á beinu brautinni og eflaust einhverjir Skagfirðingar gælt við að komast upp í efstu deild. En það er erfitt að halda út á litlum stöðum og þetta sumarið voru Sauðkrækingar ferlega slappir. Þetta var árið þar sem Skagamenn voru niðri með hjörð af tvítugum strákum sem báru svo uppi meistaralið þeirra næstu árin. Á hinum enda töflunnar sátu svo lið Tindastóls og Hauka – hvort öðru lakara.

Sauðkrækingar unnu einn leik, gerðu eitt jafntefli og töpuðu sextán. Þótt fótboltaþorstinn væri mikill megnuðu Tindastólsleikirnir því sjaldnast að fá mig til að taka pásu frá vinnunni. Fágæt undantekning var leikur Tindastóls og Hauka. Loksins virtist viðráðanlegur andstæðingur kominn í heimsókn!

En Haukarnir unnu 2:3, en heimamenn gátu svekkt sig á einhverjum klúðruðum dauðafærum í lokin. Og hinn leikurinn gegn Haukum tapaðist líka. Eini sigurinn þetta sumarið var gegn Grindvíkingum – en þau úrslit kostuðu líka Grindvíkinga annað sætið í deildinni og Þórsarar undir stjórn Luka Kostic fóru upp um deild.

Og já, litla byggingafyrirtækið hét Eykt.

(Mörk Tindastóls: Grétar Karlsson, Sigurjón Sigurðsson. Mörk Hauka: Rúnar Sigurðsson, Kristján Kristjánsson 2.)